Dagblaðið Vísir - DV - 10.05.2010, Blaðsíða 20

Dagblaðið Vísir - DV - 10.05.2010, Blaðsíða 20
Leikfélag Akureyrar er komið í heim- sókn til Reykjavíkur – eða er það kannski farið aftur þegar þessi orð birtast? Það frumsýndi glæpagrínið 39 þrep í húsi Íslensku óperunnar á föstudagskvöld og ég sé á vef hennar að sýningar eru ráðgerðar um þessa helgi, en ekkert um framhald. Ætti þó að vera auðvelt að komast að í Óperunni við Ingólfsstræti um þess- ar mundir, því að þar er heldur tóm- legt um að litast: enginn söngleikur í gangi, aðeins stöku tónleikar og svo eitt stykki barnaleikrit. Kvöldin eru flest laus. Þannig er þetta búið að vera síðustu mánuði. Ég vona að þau framlengi heimsóknina, því að þetta er ágætis afþreying, ein sú besta sem hér hefur sést á leiksviði um nokkurt skeið. Akureyringar og nærsveita- menn munu hafa hlegið sig mátt- lausa að þessu frá því það var frum- sýnt fyrr í vetur og það var líka mikið hlegið við Ingólfsstrætið á föstudags- kvöldið var. Þetta er verk eftir breskan leik- ara og leikhúsmann, Patrick Barlow að nafni, og var frumsýnt fyrir fjór- um eða fimm árum í London; það mun ganga enn í West End, að því er kemur fram í leikskránni. Það er byggt á einni af eldri myndum Al- freðs Hitchcock sem var aftur byggð á skáldsögu Skotans John Buchans, frjálslega að hitchcockskum hætti. Síðar hafa verið gerðar fleiri kvik- mynda- og sjónvarpsútgáfur eftir verkinu; sú nýjasta er aðeins tveggja ára gömul frá BBC og mun fylgja skáldsögunni öllu nákvæmar en gert er í kvikmyndinni. Hitch fann þarna mótíf sem hann var alltaf jafnheillað- ur af og endurtók í mynd eftir mynd: sögu af manni sem þvælist óforvar- andis og án þess að eiga nokkra sök á því sjálfur inn í atburðarás sem hann hefur enga stjórn á; stundum eru þessar „hetjur“ meistarans tekn- ar í misgripum fyrir einhverja aðra og eru þá í vondum málum. Hér snýst flækjan um ákveðið hernaðarleynd- armál sem þýskir njósnarar eru að reyna að smygla úr landi. Söguhetjan er Kanadamaður búsettur í London, allt í einu situr hann uppi með dular- fullan kvenmann sem síðan er myrt í íbúðinni hjá honum; í kjölfarið skýst hann til Skotlands, eftir tilvísun hinn- ar myrtu, með lögguna á hælunum og brátt bætist þýska leyniþjónustan í hópinn – eða var það ekki örugglega svo? Jæja, það skiptir varla öllu máli, aðalatriðið er að tekist hefur að búa hið besta sprell upp úr þessu, glæpa- eða njósnasagnaparódíu sem svið- sett er með leikrænum tilþrifum og galsa. Ég get að vísu ekki sagt hversu mikið í sýningunni er fyrirskrifað af höfundi hennar eða sótt í bresku sýn- inguna, enda ekkert höfuðatriði; að- alatriðið er að hér er svo vel á haldið að hafa má góða skemmtun af í tvo og hálfan klukkutíma. Þó að fjöldi persóna sé í bíómynd- inni eru aðeins fjórir leikarar í sýn- ingunni: einn leikur aðalpersónuna, Richard Hannay (Björn Ingi Hilmars- son), ein leikkona sér um kvenhlut- verkin þrjú (Þrúður Vilhjálmsdóttir), um öll hin sjá tveir karlleikarar, Jó- hann G. Jóhannsson og Atli Þór Al- bertsson; ég hef ekki tölu á því hversu mörg þau eru. Stór hluti af fjörinu byggist sem sé á því hversu fimir og flínkir þeir Jóhann og Atli eru við að hlaupa úr einu hlutverki í annað; stundum þurfa þeir jafnvel að skipta um búning á sviðinu til að þetta gangi upp – eða svona nokkurn veg- inn upp, skulum við frekar segja, því að sumar sveiflur myndarinnar, eink- um í eltingaleiknum eftir hlé, misstu hér nokkuð marks, hugsanlega af því að þar var reynt að fylgja mynd- inni of náið í stað þess að finna lausn- ir sem hentuðu betur frásagnarmáta leiksviðsins. Um frammistöðu leik- enda var sitthvað gott að segja: þau Björn Ingi og Þrúður smellpössuðu í sínar klisjur, sem aldrei sér blett né hrukku á, sama í hvers kyns hremm- ingum þau lenda, og Jóhann og Atli Þór áttu líka góða spretti, þó að týp- urnar hentuðu þeim misvel. Það var sérstaklega skoski hreimurinn sem betur hefði þurft að vinna með: hann var allgóður hjá Þrúði, vottaði fyrir honum hjá Jóhanni, en Atli náði hon- um bókstaflega hvergi. Ég veit ekki hvort kunnáttumaður um framburð ensk-skoskrar tungu var fenginn til að aðstoða leikendur, en á því hefði ekki verið vanþörf; það er alltaf ank- annalegt þegar leikarar eru að herma eftir hljómfalli og málblæ tungu- mála án þess að hafa almennileg tök á því. Á frumsýningunni varð smáó- happ á leiksviðinu sem útleysti mikla og óvænta kátínu, jafnt á sviði sem í áhorfendasal; já, það getur verið erf- itt að hemja sig þegar eitthvað svona fyndið gerist, en þetta eru vanir menn sem kunna að bregðast við og bara extra bónus fyrir okkur áhorfendur að sjá þá krafsa sig út úr vandanum. Leikmynd og búningar eru sömu- leiðis með ágætum. Aðeins ein að- finnsla varðandi leikskrána (sem er annars efnismikil): það er fráleitt að prenta lesmálið á svona daufu og smáu letri sem er þar að auki mestan part á ljósum bakgrunni. Eiginlega hefði þurft að fylgja stækkunargler með skránni – sem má svo sem segja að hefði verið í anda verksins. Adam og Eva í Hafnarfirði Það var talsvert annar kostur í boði á sviði Hafnarfjarðarleikhússins um helgina; þar frumsýndi hópur sem nefnir sig Áhugaleikhús atvinnu- manna undir forystu Steinunnar Knútsdóttur lítið sviðsverk, Ódauð- legt verk um stríð og frið. Frumsýndi, segi ég, sem er þó víst fullmikið sagt, því að verkið var sýnt síðastliðið vor í húsi Leiklistarskólans við Sölvhóls- götu; mig minnir ég hafi skrifað eitt- hvað smávegis um það, er þó ekki alveg viss. Í öllu falli: það er hluti af „kvintólógíu“ (fimmleik) sem hóp- urinn mun vera að vinna að; vænt- anlega á þetta að vera einhvers kon- ar „work in progress“. Hér beinist athyglin að tveimur ungum börnum sem eru á miðju sviði í daufri birtu, en í kringum þau og að baki þeim veltast um svartklæddar verur sem renna nánast saman við myrkrið; þær eru sífellt að vesenast í börnunum, handleika þau og hefja á loft; skugga- leg tákn þeirra afla sem við erum – eða okkur finnst við vera – ofurseld. Börnin reyna að ná sambandi sín á milli, en verurnar trufla það, verða æ aðgangsharðari – þarf ég nokkuð að segja meir? Í kynningu leikhússins segir að börnunum sé fylgt „frá sakleysi yfir í sekt, frá trausti yfir í ótta, frá kosmosi í kaos“; sagan sé sögð „á einfaldan og ljóðrænan hátt en um leið af hróp- andi vægðarleysi með skerandi tákn- um“. Verkið eigi að draga fram „vilja mannsins til þess að slá eign sinni á fólk, hugmyndir og fyrirbæri, og átök mannsins um yfirráð“. Gott og vel – en af hverju ekki bara að segja eins og er (úr því á annað borð er verið að útlista póesíuna): þetta er í meg- inatriðum gamla sagan um synda- fallið, komin beint úr Biblíunni, ívaf- in táknmyndum sem allar má finna í helgum ritningum gyðinga og krist- inna: vatni, bók, sverði eða hnífi. Í lokin gengur Guðsmóðirin sjálf inn á sviðið og upphefur undurfagran söng (Händel), tekur bæði börnin í hönd sér og leiðir á brott. Draumur, ósk- hyggja, eða veruleiki? Því er að sjálf- sögðu ekki svarað; áhorfandinn verð- ur að eiga við sjálfan sig hvernig hann skilur það. Eitthvað mun sýningin hafa þró- ast frá því í vor; ég þori ekki að segja hversu mikið, en engar stórbreytingar sýndust mér hafa orðið á henni. Yfir- leitt fannst mér hún njóta sín betur á sviðinu í Hafnarfirði, það var mun rýmra um hana þar en í húsi Listahá- skólans, andstæður ljóss og myrkurs á einhvern hátt skarpari. Uppbygg- ingin er dramatísk, en full aðgerðalít- il á stöku stað: balletískur kynningar- kaflinn ágætur, börnin tvö standa sig vel þó að eðlilega finnum við til þess að þau eru mjög með hugann við hreyfimunstrin; um miðbikið hefði enn mátt þétta og skerpa á línum að mínum dómi. Óræð og ógnandi tón- list Hilmars Arnar Hilmarssonar átti drjúgan þátt í þeim hughrifum sem þarna tókst að skapa. Lokamynd- in með Maríu og barninu – já, ég gleymdi að geta þess að þá er borið inn lifandi kornabarn, alvöru korna- barn sem var eins og það hefði fæðst á sviði, ekkert hrætt við allar þessar skrýtnu verur – hún var blátt áfram hrífandi. Hinn dökkklæddi leikflokk- ur tekur af sér grímurnar og horfir til okkar brosleitur, en María snýr við okkur baki og gengur burt með Adam litla og Evu; undir ómar Händel. Leikhúsfólki er stundum hælt fyrir að þora að prófa eitthvað sem er ekki fyrirfram víst hvort gangi upp. En vitaskuld getur „framúrstefna“ orðið jafn geld og klisjukennd og öll önnur leikform; sagan um nýju fötin keis- arans á oft jafnmikið erindi við leik- húsfólk og aðra. Ég hef haft mismikla ánægju af þeim þremur verkum „kvintólógíunnar“ sem enn hafa sést, en einna mesta af þessu; mér finnst það vitsmunalegt og einlægt, látlaust og fallegt. Það er ekkert offramboð af slíku á íslenskum leiksviðum nú um stundir. Svo er ókeypis inn fyrir all- an almenning (ekki bara krítíkera og boðsgesti), gleymum ekki því. Ein- hvern tímann talaði merkur leikhús- maður um fátæka leikhúsið – fátækt í ytra skilningi, ekki þeim innri. Það skyldi þó ekki vera að tími þess sé að renna upp á voru fátæka landi? Jón Viðar Jónsson HVAÐ VEISTU? 1. Magnús Guðmundsson bankamaður var annar þeirra sem handtekinn var í tengslum við rannsókn efnahagshrunsins fyrir helgi. Í hvaða dótturfélagi Kaupþings starfaði hann? 2. Guðmundur Jónsson, kenndur við Byrgið, var sakfelldur fyrir fjársvik í Héraðsdómi Suðurlands í síðustu viku. Hvað fékk hann langan dóm fyrir kynferðisbrotin á sínum tíma? 3. Listahátíð í Reykjavík hefst á miðvikudaginn. Hvenær var hún fyrst haldin? Á MÁNUDEGI 20 MÁNUDAGUR 10. maí 2010 FÓKUS UPPBOÐ Í GALLERÍI FOLD Uppboð fer fram í Galleríi Fold í kvöld klukkan 18.15. Boðin verða upp tæplega hundrað verk af ýms- um toga, bæði nýleg og eftir gömlu meistarana. Boðin verða upp nokkur verk eftir Jóhannes S. Kjarval, gam- alt málverk af bátum eftir Svavar Guðnason auk verka eftir Alfreð Flóka, Jón Stefánsson, Valtý Péturs- son, Húbert Nóa, Gunnellu, Georg Guðna og Tolla svo einhverjir séu nefndir. Tekið er fram að ekki er víst að öll verk séu seld við hamarshögg. ÚTGÁFURISI KLÓ- FESTI MAXÍMÚS Gengið hefur verið frá samning- um við þýska útgáfurisann Schott Music um útgáfu á bókinni Maxí- mús Músíkús heimsækir hljóm- sveitina, eftir Hallfríði Ólafsdóttur og Þórarin Má Baldursson. Bókin kom út hérlendis árið 2008, sló eftirminnilega í gegn og á dög- unum kom út sjálfstætt framhald hennar. Fyrri bókin hefur þegar komið út í Kóreu og Færeyjum en í haust bætist Þýskaland í hópinn. Schott Music var ekki eitt um hit- una varðandi þýsku útgáfuna en hafði betur í „uppboðsstríði“, eins og það er orðað í tilkynningu. Fyr- irtækið er stærsta útgáfufyrir tæki sinnar tegundar á meginlandi Evrópu og meðal virtustu útgáfu- félaga í heimi sem sérhæfa sig í útgáfu tengdri tónlist. TÆKNILEG FULLKOMNUN Þýskir gagnrýnendur voru yfir sig hrifnir af sýningu Íslenska dans- flokksins á danshátíð í Bremen sem haldin var 9. til 17. apríl. Uppselt var á sýningu flokksins en ÍD bauð gestum hátíðarinnar upp á fjölbreytt kvöld með þremur mjög ólíkum verkum, Grímuverðlaunaverkinu Kvart eftir Jo Strömgren, Endastöð eftir Alexander Ekman og Heilabrot- um eftir Brian Gerke og Steinunni Ketilsdóttur. Blaðið Die Tageszeitung sagði að ÍD hefði verið óvænt stjarna hátíðarinnar. Gagnrýnendur Kreis- zeitung Bremen og Augsburger All- gemeine hrósuðu dönsurunum fyrir tæknilega fullkomnun, og sérstak- lega fyrir leiklistarhæfileika þeirra. Svör: 1. Kaupþingi í Lúxemborg. 2. Tveggja og hálfs árs fangelsi. 3. 1970. AFÞREYING og experíment LEIKFÉLAG AKUREYRAR: 39 ÞREP eftir Patrick Barlow Þýðing: Eyvindur Karlsson Leikstjóri: María Sigurðardóttir Leikmynd: Finnur Arnar Arnarson Búningar: Rannveig Eva Karlsdóttir Ljós: Halldór Örn Óskarsson Hljóð: Gunnar Sigurbjörnsson ÁHUGALEIKHÚS ATVINNUMANNA: ÓDAUÐLEGT VERK UM STRÍÐ OG FRIÐ eftir Steinunni Knútsdóttur og Leikhópinn. Texti: Hrafnhildur Hagalín Tónlist: Hilmar Örn Hilmarsson Leikstjóri: Steinunn Knútsdóttir LEIKLIST

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.