Dagblaðið Vísir - DV - 13.04.2011, Blaðsíða 16
16 | Erlent 13. apríl 2011 Miðvikudagur
„Síðasti áratugur
í sögu Fílabeins-
strandarinnar hefur í raun
verið blóði drifinn vegna
umræddra trúarbragða-
deilna.
UppgangUr og hnignUn
á Fílabeinsströndinni
n Laurent Gbagbo, sem tapaði forsetakosningum á Fílabeinsströndinni í nóvember, var handtekinn
á mánudag n Vonast er til að Ouattara, réttkjörinn forseti, nái að tryggja frið n Fílabeinsströndin
var eitt sinn kölluð efnahagsundrið í Afríku, en þar hefur verið stöðug hnignun um áratugaskeið
Stuðningsmönnum Alassanes Ouatt-
ara, sem sigraði í forsetakosningum
á Fílabeinsströndinni í nóvember
síðastliðnum, tókst á mánudag að
brjóta sér leið að neðanjarðarbyrgi
Laurents Gbagbo og handtaka hann.
Gbagbo neitaði að viðurkenna ósigur
í kosningunum þrátt fyrir að fulltrúar
Sameinuðu þjóðanna hefðu vottað
að þær hefðu farið vel fram. Gbagbo
var handtekinn ásamt eiginkonu
sinni, Simone, en talið er að hún hafi
jafnan staðið á bak við margar um-
deildar ákvarðanir forsetans fyrrver-
andi, meðal annars þá að neita að
viðurkenna ósigur í kosningum.
Á barmi borgarastyrjaldar
Allt síðan kosningarnar fóru fram
hafa Fílabeinsstrendingar verið á
barmi borgarastyrjaldar og í síðasta
mánuði brutust út blóðug átök sem
ollu því að allt að milljón manns
ákvað að yfirgefa landið. Talið er að
allt að 1.500 manns hafi fallið frá því
í nóvember auk þess sem fjölda fólks
er enn saknað. Vonast er til að friður
komist á eftir handtökuna á Gbagbo,
þó að mikil ólga ríki enn í landinu.
Fílabeinsströndin hefur löngum
verið klofin vegna trúarbragða-
deilna. Í norðurhluta landsins eru
múslimar áberandi á meðan kristnir
ráða ríkjum í suðrinu. Þessar deilur
kristölluðust í forsetaframbjóðend-
unum tveimur en Gbagbo er krist-
innar trúar á meðan Ouattara er
múslimi. Síðasti áratugur í sögu Fíla-
beinsstrandarinnar hefur í raun ver-
ið blóði drifinn vegna umræddra
trúarbragðadeilna. Litlar framfarir
hafa því orðið í landinu, sem önnur
Afríkuríki litu eitt sinn upp til, en á
7. og 8. áratug síðustu aldar var jafn-
an talað um „efnahagsundrið á Fíla-
beinsströndinni“.
Það er því ekki úr vegi að líta nán-
ar á sögu Fílabeinsstrandarinnar og
sögu þessara tveggja einstaklinga
sem hafa borist á banaspjótum und-
anfarna mánuði.
Mikil gróska í kjölfar sjálfstæðis
Fílabeinsströndin hlaut sjálfstæði
árið 1960 en var áður frönsk ný-
lenda. Fyrsti forseti landsins, Félix
Houphouët-Boigny, er jafnan nefnd-
ur „faðir sjálfstæðisbaráttunnar“ en
hann hafði setið á franska þinginu og
gegnt nokkrum ráðherraembættum.
Fyrir tilstilli hans tókst að færa tals-
verð völd frá París til Abidjan, þáver-
andi höfuðborgar Fílabeinsstrandar-
innar, á 6. áratug síðustu aldar. Eftir
að fullt sjálfstæði hafði verið tryggt
varð Houphouët-Boigny sjálfskipað-
ur forseti og gegndi hann þeirri stöðu
til dauðadags – árið 1993.
Allt frá árinu 1946, þegar
Houphouët-Boigny tók fyrst sæti
á franska þinginu, hafði hann bar-
ist fyrir auknum réttindum bænda.
Höfðu þeir yfirleitt litlar tekjur af at-
vinnu sinni, þar sem hvítir landeig-
endur hirtu mestallan gróða. Hann
hvatti til stofnunar stéttarsamtaka,
sem áttu sinn þátt í að auka réttindi
bænda á kostnað landeigenda.
Þrátt fyrir að Fílabeinsströndin
öðlaðist sjálfstæði lagði Houphouët-
Boigny ætíð ríka áherslu á góð sam-
skipti við gömlu herraþjóðina og
mun það meðal annars hafa greitt
götu sjálfstæðis landsins. Hann kom
á frjálsu markaðshagkerfi ásamt því
að styrkja stöðu bænda, sem fóru
skyndilega að sjá mikinn gróða í
fyrsta sinn. Fílabeinsströndin hefur
enda yfir miklum landgæðum að
ráða. Enn þann dag í dag er landið
leiðandi í kakóbaunaframleiðslu og
er jafnframt þriðji stærsti framleið-
andi kaffibauna í heiminum. Á árun-
um 1963 til 1978 var stöðugur hag-
vöxtur á Fílabeinsströndinni og var
mestur um 12 prósent milli ára.
Kreppa vegna fallandi
kakóverðs
Eftir að heimsmarkaðsverð á bæði
kakó- og kaffibaunum tók að lækka
árið 1978 fór að bera á efnahags-
þrengingum á Fílabeinsströndinni.
Tekjur minnkuðu og kom þá í ljós
að stefna Houphouët-Boignys sem
hvetja átti til erlendrar fjárfesting-
ar var ef til vill ekki jafn heppileg og
áður var talið. Stefnan snerist um að
erlendum fyrirtækjum var gert kleift
að fjárfesta í landinu og njóta um leið
mikilla fríðinda, meðal annars að
greiða aðeins 10 prósent af hagnaði
hvers árs til Fílabeinsstrandarinnar –
hin 90 prósentin fóru ætíð úr landi.
Miklir þurrkar á árunum 1982
til 1984 hjálpuðu ekki til og enn
síður efnahagsleg niðursveifla á
heimsmörkuðum árið 1986. Fá-
tækt jókst með hverju árinu og var
Houphouët-Boigny gagnrýndur fyr-
ir að eyða fúlgum fjár í gæluverk-
efni sín. Hann vildi ólmur umbreyta
fæðingarþorpi sínu, Yamoussoukro, í
höfuðborg landsins sem var og gert.
Þá lét hann byggja stærstu kirkju í
heimi, Frúarkirkjuna í Yamousso-
ukro.
Munaðarlaust land
Í byrjun 10. áratugar síðustu aldar fór
heilsu Houphouët-Boignys að hraka.
Hann hafði þá skipað sem forsætis-
ráðherra Alassane Ouattara, sem
hafði átt góðu gengi að fagna í starfi
hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og
var honum falið að grynnka á þjóð-
arskuldum Fílabeinsstrandarinnar
í kjölfar mikillar efnahagslægðar.
Houphouët-Boigny lést í desember
1993 en þá hafði Ouattara í raun far-
ið með völd í landinu um tveggja ára
skeið. Hinn aldni forseti lá á sjúkra-
beði í París en lét flytja sig fársjúk-
an til Fílabeinsstrandarinnar svo að
hann gæti dáið í landinu sem hann
hjálpaði til við að skapa. Það kom í
hlut Ouattara að tilkynna Fílabeins-
strendingum andlát hins vinsæla
Huophouët-Boignys og sagði hann
af því tilefni: „Fílabeinsströndin er
nú munaðarlaus.“
Valdabarátta
Flestir bjuggust við því að Ouattara
yrði skipaður eftirmaður Houphou-
ët-Boignys en það kom í hlut Henris
Konan Bédié, sem hafði starfað sem
forseti þingsins. Bédié hélt völdum,
meðal annars með því að breyta lög-
um um kjörgengi til forseta – sem
útilokuðu Ouattara frá því að bjóða
sig fram þar sem báðir foreldrar hans
þurftu að vera fæddir á Fílabeins-
ströndinni. Að lokum fór þó svo að
herinn bolaði Bédié frá völdum
og tók völdin í landinu á aðfanga-
dag 1999. Herinn í landinu skipaði
Robert Guéï sem forseta, en boðaði
jafnframt til forsetakosninga í októ-
ber árið 2000. Þar bauð sig fram á
móti honum Laurent Gbagbo.
Gbagbo var vel þekkt stærð í
stjórnmálum á Fílabeinsströndinni.
Hann hafði verið helsti andstæðing-
ur þjóðhetjunnar Houphouët-Boig-
nys á 9. áratugnum, en þurfti þá að
flýja til Parísar vegna andstöðu sinn-
ar við forsetann. Gbagbo sigraði
örugglega í kosningunum árið 2000,
en þá gerðist nokkuð sem Gbagbo
þekkir nú af eigin raun – Guéï neitaði
að fara úr embætti og viðurkenndi
ekki úrslit kosninganna. Eftir stöðug
mótmæli á götum helstu borga og
bæja Fílabeinsstrandarinnar fór þó
að lokum svo að Guéï flúði til Líberíu
og Gbagbo tók við völdum. Þjóðin
vonaðist eftir stöðugleika og efna-
hagslegum framförum en þær vonir
urðu brátt að engu.
Björn Teitsson
blaðamaður skrifar bjorn@dv.is
Fréttaskýring - fyrri hluti
„Enn þann dag
í dag er landið
leiðandi í kakóbauna-
framleiðslu og er jafn-
framt þriðji stærsti
framleiðandi kaffi-
bauna í heiminum.
Félix Houphouët-Boigny Jafnan kallaður „afríski
vitringurinn“. Hann naut mikillar virðingar um heim allan og
er talinn faðir sjálfstæðisbaráttu Fílabeinsstrandarinnar.
Laurent Gbagbo Var handtekinn á mánudag-
inn. Hann var fyrsti raunverulegi andstæðingur
Houphouët-Boignys og varð forseti árið 2000.
Henri Konan
Bédié Var óvænt
skipaður eftir-
maður Houpho-
uët-Boignys. Var
sviptur völdum á
aðfangadag 1999.
Alassane Ouattara
Með doktorsgráðu í
hagfræði og starfaði
lengi hjá AGS. Hann
þótti líklegasti arftaki
Houphouët-Boignys árið
1993 en þurfti að bíða í 18
ár eftir embættinu.