Dagblaðið Vísir - DV - 01.07.2014, Blaðsíða 16
Vikublað 1.–3. júlí 201416 Fréttir Erlent
Alvarlega veikir eftir
vinnu hjá Samsung
n Rekja hvítblæði, krabbamein og MS til aðstæðna í verksmiðjum fyrirtækisins í Suður-Kóreu
T
æknifyrirtækið Samsung
hefur um langt skeið verið
stolt Suður-Kóreu og einn
helsti drifkrafturinn að baki
því öfluga hagkerfi sem
landið státar af. Óveðurský eru þó
á lofti því að undanförnu hafa fjöl-
margir sem starfað hafa fyrir fyrir-
tækið veikst og kenna þeir aðstæð-
um í verksmiðjum Samsung um.
Fékk heilaæxli
Han Hye-kyung er ein þessara starfs-
manna en hún byrjaði að vinna í
verksmiðju Samsung Electronics
árið 1995. Hún hafði alla tíð ver-
ið heilsuhraust og var himinlifandi
þegar hún fékk starfið strax eftir út-
skrift úr menntaskóla. Washington
Post fjallaði ítarlega um málið á
dögunum og þar er haft eftir henni
og móður hennar, Kim Shi-nyeo, að
innan við tveimur árum eftir að hún
hóf störf hjá fyrirtækinu hafi hún
hætt að hafa tíðir. Nokkru síðar fór
hún að eiga í erfiðleikum með gang.
Hún hætti störfum hjá fyrirtækinu
árið 2001 og fjórum árum síðar,
árið 2005, greindist hún með heila-
æxli. Mæðgurnar segjast ekki vera
í nokkrum vafa um að nálægð við
heilsuspillandi efni sem notuð eru í
verksmiðjum Samsung séu ástæða
veikindanna. Í dag er Han lömuð að
hluta eftir aðgerð sem hún gekkst
undir til að fjarlægja heilaæxlið.
Fengu báðir hvítblæði
Han Hye-kyung er langt því frá eini
starfsmaðurinn sem tengir alvar-
leg veikindi við störf í verksmiðjum
Samsung. Sjö ár eru síðan áhyggjur
af aðstæðum í verksmiðjum Sam-
sung rötuðu fyrir alvöru á síður
dagblaða í Suður-Kóreu. Það gerð-
ist þegar tveir fyrrverandi starfs-
menn, sem starfað höfðu hlið við
hlið á framleiðslulínu í verksmiðju
Samsung, létust með nokkurra
mánaða millibili. Banamein beggja
var hvítblæði. Á þessum sjö árum
sem liðin eru hafa 200 aðrir fyrrver-
andi starfsmenn stigið fram og full-
yrt að veikindi þeirra megi rekja til
starfa í verksmiðjum fyrirtækisins.
Flestir þessara starfsmanna unnu í
Giheung-verksmiðjunni skammt frá
höfuðborginni Seúl þar sem fram-
leiddir eru vökvakristalsskjáir, í dag-
legu tali LCD-skjáir, og svokallaðir
hálfleiðarar (e. semiconductors).
Ekki óyggjandi sannanir
Þó að fjöldi þeirra starfsmanna sem
stigið hafa fram gefi tilefni til að ætla
að eitthvað óeðlilegt sé í gangi í verk-
smiðjum Samsung hefur ekki tekist
að færa óyggjandi sannanir fyrir því.
Bætur hafa þó verið greiddar út í fjór-
um málum sem varða spilliefni sem
starfsmenn komust í tæri við. Hvað
sem því líður báðust forsvarsmenn
fyrirtækisins afsökunar á því að hafa
ekki veitt umkvörtunarefnum fyrr-
verandi starfsmanna sinna nægilega
athygli. Þá hafa suður-kóreskir þing-
menn krafist þess að fyrirtækið veiti
opinberar útskýringar á veikindun-
um. Hafa einhverjir látið hafa eftir
sér að fyrirtækið hafi hlaupið fram úr
sér og sett gróðavonina ofar öryggi
starfsmanna. Þá hafi þeir komið í veg
fyrir stofnun verkalýðsfélags starfs-
manna fyrirtækisins.
Í svari til Washington Post segja
forsvarsmenn Samsung að félagið
hafi farið eftir öllum öryggisstöðlum
– og jafnvel gert meira en krafist hef-
ur verið.
Sum efni hættuleg
Í umfjöllun Washington Post kemur
fram, sem fyrr segir, að ekki hafi
reynst unnt að færa sannanir á að
aðstæður í verksmiðjum Samsung
séu hættulegar starfsmönnum. Þó er
haft eftir fulltrúum í bandaríska heil-
brigðisráðuneytinu að vinna með
hættuleg efni sem notuð eru í fram-
leiðslu á raftækjum fyrirtækisins geti
aukið hættuna á alvarlegum sjúk-
dómum eins og krabbameini; þar á
meðal heilaæxli og hvítblæði.
Dýrt að stöðva framleiðsluna
Mál þessara 200 starfsmanna sem
komið hafa upp varða öll einstak-
linga sem unnu í verksmiðjum Sam-
sung á tíunda áratug liðinnar aldar
eða á fyrstu árunum eftir aldamót.
Síðan þá hefur Giheung-verksmiðj-
an verið endurnýjuð að miklu leyti.
Starfsmenn þar kvörtuðu með-
al annars undan því að þegar raf-
magn fór af hafi slokknað á loftsíum.
Í þeim tilvikum hafi starfsmenn yfir-
gefið verksmiðjuna en skipað að fara
fljótlega aftur inn, jafnvel þótt hættu-
legar lofttegundir væru enn inni í
verksmiðjunni.
„Það er mjög dýrt að stöðva fram-
leiðsluna í langan tíma,“ segir Ryu Ui-
seok sem vann í Giheung-verksmiðj-
unni frá 2004 til 2006. Þó að hann sé
við góða heilsu í dag segir hann að
fyrirtækið hefði getað gert betur til
að tryggja öryggi starfsmanna verk-
smiðjunnar. „Jafnvel þótt rafmagns-
leysi hafi varað í mjög skamma stund
fann maður mjög sterka lykt af efn-
um þegar maður fór aftur inn,“ segir
hann.
Engin fræðsla um öryggismál
Flestir af starfsmönnum Giheung-
verksmiðjunnar voru konur, ný-
komnar úr námi. Washington Post
hefur eftir einni þeirra, Hong Sae-
mi, að þær hafi fengið fræðslu um
sögu fyrirtækisins og til hvers var
ætlast af þeim í verksmiðjunni. Lítil
sem engin fræðsla hafi þó verið um
öryggismál eða þau efni sem notuð
voru í framleiðslunni. Hong þjáist
í dag af MS-sjúkdómnum sem hún
rekur til vinnunnar í verksmiðjunni.
„Allt sem við lærðum var hvernig við
áttum að verða góðir starfskraftar.“ n
Stórfyrirtæki Sam-
sung er eitt stærsta
tæknifyrirtæki heims
og líklega best þekkt
fyrir framleiðslu á sjón-
vörpum og snjallsímum.
Einar Þór Sigurðsson
einar@dv.is
Veiktist Han Hye-kyung fékk heilaæxli eftir að hafa starfað hjá Samsung. Hún rekur veikindin til aðstæðna í verksmiðjum fyrirtækisins þar
sem hún vann um nokkurra ára skeið.
Þjáðist ekki
af geðröskun
Oscar Pistorius, suðurafríski
spretthlauparinn, þjáðist ekki af
geðröskun þegar hann varð unn-
ustu sinni, Reevu Steenkamp, að
bana á heimili þeirra í fyrra. Þetta
kemur fram í geðmati sem var
lagt fyrir dómstólinn í Pretoríu
þar sem ákæra á hendur honum
er til meðferðar.
Oscar er ákærður fyrir að
skjóta unnustu sína til bana að
yfirlögðu ráði en sjálfur segist
hann hafa talið að um innbrots-
þjóf hefði verið að ræða. Verjend-
ur Oscars héldu því fram að hann
hefði þjáðst af kvíðaröskun þegar
hann varð Steenkamp að bana og
væri þar af leiðandi ekki ábyrgur
gjörða sinna.
Geðmatið leiðir þó annað
í ljós og þýðir niðurstaðan að
Oscar sé sakhæfur.
Tíu þúsund
pólitískir fangar
Mannréttindaráð Sameinuðu
þjóðanna hefur sett nefnd á lagg-
irnar sem mun hafa það hlutverk
að skoða stöðu mannréttinda-
mála í Afríkuríkinu Erítreu.
Ljóst er að þar er víða pottur
brotinn og mun nefndin skila
niðurstöðum sínum að ári liðnu.
Amnesty International greindi frá
því í fyrra að um tíu þúsund Erít-
reumenn hefðu verið fangelsaðir
af pólitískum ástæðum frá árinu
1993. Stjórnvöld neituðu þessum
ásökunum staðfastlega í kjölfarið.
Mannréttindaráðið hefur áður
unnið viðlíka skýrslur, um mál-
efni Sýrlands og Norður-Kóreu
meðal annars.
Reyndi að kveikja
í könguló
Þrjátíu og fjögurra ára kona í
Kansas í Bandaríkjunum, Ginny
Griffith, fylltist svo mikilli skelf-
ingu þegar hún sá könguló að
hún sá þann kost vænstan að
bera eld að henni. Ekki fóru
hlutirnir eins og hún ætlaði því
eldurinn var fljótur að breiðast
út. Hutchinson News greinir frá
því að hún hafi notað kveikjara til
að kveikja í handklæðum í íbúð
sinni og ganga þannig frá köngu-
lónni. Slökkvilið var kallað á vett-
vang og gekk greiðlega að ráða
niðurlögum eldsins. Griffith hef-
ur verið ákærð fyrir íkveikjuna og
gæti átt refsingu yfir höfði sér.