Húnavaka - 01.05.2010, Page 9
Ávarp ritstjóra
Ágætu lesendur Húnavöku
Fimmtugasti árgangur Húnavökuritsins lítur nú dagsins ljós. Í tilefni þeirra tímamóta
fylgir einnig rit með höfundatali, yfirliti um mannalát, leiðréttingum o.fl.
Hálf öld er ekki langur tími í sögu mannkyns en í útgáfusögu eins ársrits á Íslandi telst
það töluverður tími. Ekkert ár hefur fallið úr og ritið hefur alltaf komið út á vormánuðum
eða snemmsumars, fullt af fróðleik og skemmtilegu efni.
Upphafið.
Fyrsti árgangur þessa rits kom út árið 1961 í tengslum við árlega skemmtiviku Hún-
vetninga sem Ungmennasamband Austur-Húnvetninga stóð fyrir og sem bar sama nafn og
ritið, Húnavaka. Forgangsmenn útgáfunnar voru Stefán Á. Jónsson, þá ritari USAH og
kennari á Blönduósi og Þorsteinn Matthíasson skólastjóri þar. Fyrstu tveir árgangarnir voru
fjölritaðir í skólanum en eftir það hefur ritið verið prentað á Akureyri. Hefur samstarfið við
prentsmiðjurnar þar ávallt verið með ágætum. Ungmennasambandið hefur frá upphafi verið
útgefandi ritsins.
Ritstjórn.
Ritstjórar Húnavökuritsins hafa aðeins verið þrír, Fyrstu fimm árin voru bæði Þorsteinn
og Stefán ritstjórar en frá árinu 1966 var Stefán einn ritstjóri, alls 48 ár eða þar til hann lét
af störfum sökum veikinda árið 2008. Stefán hafði alla tíð mikinn metnað fyrir hönd ritsins
og vildi veg þess sem mestan. Hann var óþreytandi við að safna efni en skrifaði einnig
töluvert í ritið, öll umsjón var í hans höndum og má segja að hann hafi verið límið sem hélt
útgáfunni saman. Stefán lést á síðasta ári og er hans minnst fremst í þessu riti.
Síðustu tvö árin hefur undirritaður tekið að sér ritstjórn Húnavökuritsins.
Ritnefnd.
Alls hafa 14 manns setið í ritnefnd um lengri eða skemmri tíma, allt frá 2 og upp í 41 ár.
Þar á núverandi ritnefnd stærstan hlut. Jóhann Guðmundsson kom inn í ritnefndina árið
1970, Unnar Agnarsson byrjaði árið 1974, Páll Ingþór Kristinsson árið 1981 og Magnús
B. Jónsson, ásamt undirrituðum tóku sæti í ritnefndinni árið 1983. Þar á eftir kemur sr.
Pétur Þ. Ingjaldsson sem var í ritnefnd í 18 ár en aðrir hafa verið 10 ár eða skemur.
Stærð ritsins.
Fyrsti árgangur ritsins var 62 bls. í núverandi broti, fyrir utan auglýsingar en ritið
stækkaði hratt og árið 1966 fór efni þess í fyrsta sinn yfir 100 síður. Ritið náði 200 síðum