Húnavaka - 01.05.2010, Page 10
árið 1970 en síðasta aldarfjórðunginn hefur það oftast nær verið milli 250 og 300 síður.
Stærsti árgangurinn var árið 1992 eða 330 síður. Alls eru efnissíður ritsins 11.500 bls.,
fyrir utan auglýsingar eða um 230 bls. að meðaltali.
Höfundar.
Höfundar efnis í Húnavöku eru alls um 460 talsins og eru þá ekki taldir þeir með sem
lagt hafa til efni í fréttir. Af þessum hópi eru um 310 karlmenn og 150 konur. Höfundar
hafa verið á öllum aldri eða allt frá grunnskólaaldri og fram yfir nírætt. Margir þeirra hafa
haldið mikilli tryggð við ritið og lagt því til efni árum og jafnvel áratugum saman.
Efni.
Efnið í ritinu hefur ávallt verið fjölbreytt. Þar skiptast á viðtöl, kveðskapur, frásagnir,
smásögur, þjóðfræði, ættfræði, mannalátsgreinar og fréttir svo eitthvað sé nefnt. Hér skipar
húnvetnskt efni eðlilega öndvegi enda ritið fyrst og fremst sprottið úr grasrót húnvetnskrar
menningar og sögu.
Ávinningur.
Húnavökuritið er mikilvægt framlag til sögu héraðsins fyrr og síðar og hefur sem slíkt
verulegt heimildagildi. Þar eru upplýsingar um mannlíf og þjóðhætti, störf, vinnubrögð og
margt fleira. Ritið hefur líka verið vettvangur fyrir heimamenn til að koma margs konar efni
á framfæri sem annars hefði í mörgum tilvikum legið í láginni eða orðið skúffum og glatkistum
að bráð. Í mannalátsgreinum eru einnig varðveitt nöfn og æviágrip horfinna samferðarmanna
og er þá ótalinn stór kafli með fréttum og veðurfari. Í framvindu tímans hefur heimildagildi
Húnavökuritsins því farið vaxandi.
Lokaorð.
Lengi vel voru nær allir ritnefndarfundir haldnir á Kagaðarhóli á heimili ritstjórans. Þar
var skrafað og skeggrætt um húnvetnska menningu og sögu, lesið yfir efni og velt vöngum yfir
íslenskri málnotkun og stafsetningu. Handritin voru lagfærð áður en þau fóru til prentsmiðj-
unnar og yfir veislukaffi Sigríðar flugu sögur og kviðlingar. Með vaxandi tölvutækni færðust
síðan flestir fundirnir í Fjölritunarstofuna Gretti á Blönduósi en hin allra síðustu ár hafa
samskiptin æ meira farið fram gegnum netið. Núorðið eru því formlegir fundir ritnefndarinnar
aðeins 2-3 á ári, áfram líflegir og skemmtilegir en þegar menn hafa starfað jafn lengi saman
og meirihluti ritnefndar hefur gert eru færri mál sem ber í milli um stefnur og stílbrigði.
Ritið hefur alla tíð verið unnið í sjálfboðavinnu. Öðruvísi hefði útgáfa þess aldrei borið
sig og væntanlega verið hætt fljótlega. Þetta er mikið starf en ánægjulegt og gefandi. USAH
má vera stolt af því að hafa haldið úti þessu riti í hálfa öld. Húnavökuritið er einstakt á
landsvísu og ekkert annað rit sambærilegt af þessari stærðargráðu.
Öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn þessi fimmtíu ár, hvort sem það er í formi efnis,
auglýsinga eða annars stuðnings við ritið eru hér með færðar bestu þakkir.
Megi lesendur Húnavökuritsins til lands og sjávar og aðrir landsmenn eiga ánægjulegar
stundir við leik og störf.
Ingibergur Guðmundsson.
H Ú N A V A K A 8