Húnavaka - 01.05.2010, Page 11
H Ú N A V A K A 9
Stefán Á. Jónsson
Ritstjóri Húnavöku 1961-2008
Kveðja frá ritnefnd
Á mildum og hægum sumardegi, þegar íslenskur gróður skartaði sínu fegursta, hvarf
bóndinn og félagsmálamaðurinn, Stefán á Kagaðarhóli, á vit óendanleikans eftir sjúkra hús-
vist þar sem hugurinn leitaði ætíð heim.
Stefán var góður meðalmaður á hæð, grannvaxinn og kvikur í hreyfingum, svipsterkur
með þykkt liðað hár sem þynntist lítt þótt árum fjölgaði.
Jafnframt bústörfum sinnti hann ýmsum félagsmálum, kom víða við á þeim vettvangi og
jafnan svo að til góðs vissi. Víðsýni, dugnaður og framsýni einkenndu hann í félags mála-
störfum þótt inn á milli bæri líka á rótgróinni íhaldssemi.
Góðar gáfur og viðamikil þekking, ásamt traustu minni, voru einkennandi í öllum hans
störf um. Hann var skoðanafastur og lét ógjarnan af sannfæringu sinni enda var hann
þeirrar gerðar að honum var ekki auðveldlega snúið nema með gildum rökum. Í öllum störf-
um kom sterk þjóðarvitund Stefáns fram og þá ekki síst viljinn til að efla hinar dreifðu
byggð ir landsins.
Það félagsstarf sem lengst mun halda minningu Stefáns á lofti eru störf hans að ritun
og útgáfu Húnavöku, ársrits Ungmennasambands Austur-Húnvetninga. Ásamt Þorsteini
Matthíassyni skólastjóra á Blönduósi stóð hann að stofnun ritsins árið 1961 en þá var
Stefán kennari þar og ritari Ungmennasambandsins. Fyrstu tveir árgangarnir voru fjöl rit-
aðir en síðan hefur bókin verið unnin í prentsmiðju. Ekkert ár hefur fallið úr útgáfunni og
var Stefán ritstjóri í 48 ár, frá fyrstu útgáfu og meðan heilsa entist.
Ritstjórn hans einkenndist af óbilandi áhuga á að varðveita í ritinu sem mest af menn-
ingu og sögu héraðs og þjóðar. Hann stýrði útgáfunni af lipurð og nærgætni en þó af festu
sem hefur dugað allan þennan tíma til að halda úti riti byggðu á sjálfsprottnum áhuga
þeirra sem að standa.
Húnavökurit hefur að geyma húnvetnskan annál og greinar eftir fjölmarga höfunda sem
margar hverjar eru sagnfræðilegs eðlis, viðtöl við Húnvetninga ásamt smásögum, ljóðum og
öðru efni. Heimildagildi Húnavöku byggir ekki síst á æviágripum látinna Húnvetninga og
fréttapistlum liðins árs.
Stefán mótaði Húnavökuna í stærstum dráttum og hefur meginstíl ritsins verið haldið lítt
breytt um um árabil. Hann var mikill íslenskumaður, talaði og ritaði gott mál sem kom sér
vel við útgáfuna. Við prófarkalestur ritsins voru oft teknar snarpar umræður um einstök orð