Húnavaka - 01.05.2010, Page 30
H Ú N A V A K A 28
byggð og allar byggingar þar saman. Búsmalinn samanstóð af dágóðri hjörð
af hænsnum og gæsum, einu svíni og einni eða tveimur kúm. En landið var í
góðri rækt og þar var sitt lítið af hverju. Ávextir, epli, perur, kirsuber í trjám
og margar tegundir af grænmeti í litlum reitum nokkuð dreift. Einnig smá
rendur af korn- og maísrækt og einna stærstur var kartöfluakurinn.
Þar voru okkur sýndar stórar og fallegar kartöflur og þá fékk maður að sjá
hina frægu svörtu mold sem einkennir sléttur Austur-Evrópu. Þessi jarðvegur
er kallaður löss. Löss eru fokefni sem urðu til á ísöld þegar jökullinn náði langt
suður eftir Rússlandi og jökulárnar runnu suður í Svartahaf. Þær báru með sér
aur og það fauk úr aurnum svo fína efnið barst til og myndaði þykk jarðlög.
Þetta er raunar ekki ósvipað því sem er stöðugt að gerast á Íslandi og margir
kannast við fok úr áreyrum nálægt jöklum. Engin dráttarvél var á bænum og
var okkur sagt að til að vinna kartöfluakurinn fengju þau nágranna með hest
og plóg. Á ferð um landið mátti oft sjá hesta spennta fyrir kerru líkt og var í
Vestur-Evrópu fyrir 60 árum.
Á ferð um þetta frjósama land rifjast upp tilvitnun í ferðabókinni, í leikarann
Alexander Granach en hann skrifaði um sín heimkynni sem þá hétu Austur-
Galasía: „Jörðin er örlát og auðug. Hún gefur af sér þykka olíu, gult tóbak,
níðþungt korn, býr yfir draumkenndum skógum, ám og vötnum og umfram
allt fallegt og hraust fólk: Úkraínumenn, Pólverjar og Gyðingar. Allir eru líkir
að yfirbragði þrátt fyrir ólíka trú og siðvenjur. Íbúar Austur-Galasíu eru
þunglamalegir, velviljaðir, svolítið latir og frjósamir eins og jörðin.“ (Þýðing
höfundar). Þeim mun óskiljanlegra er að á Sovéttímanum, þegar samyrkjubúum
var þvingað upp á Úkraínu eins og í öðrum löndum Sovétríkjanna og mikil
mótspyrna í landinu, þá leiddi það til uppskerubrests og hungursneyðar. Áætl-
að hefur verið að 6 milljón manns hafi dáið úr hungri á árunum milli 1930 og
1940. Það er gott að búa í landi þar sem enginn veit hvað ógnarstjórn er.
Frá markaðinum í Ivano-Frankivsk. Seinni part sumars er mikið úrval af ýmiss konar
ávöxtum. Ljósm.: Þorsteinn Guðmundsson.