Húnavaka - 01.05.2010, Page 39
H Ú N A V A K A 37
unga kona var líka mitt uppáhald. Hún var klónuð frá móður sinni fyrir
þrjátíu árum og mér fannst ég hafa öðlast kraftaverk kraftaverkanna er ég leit
hana augum.
Dóttir mín, prinssessan, átti fleiri börn og sonur minn einnig, afkomendurnir
voru reyndar orðnir margir og tilkomnir á ýmsa vegu. Tengdadóttir mín vildi
ganga með börnin sín sjálf á meðan dóttir mín hélt fullri vinnu og lét
meðgöngustöð sjá um meðgönguna. Henni hafði svo dottið þetta snjallræði í
hug, löngu eftir að hún var orðin amma og hætt að huga að barneignum að
eignast stúlkubarn sem yrði alveg eins og hún. Það var dásamlegt. Mér,
ömmunni, hafði tekist að fá að hafa litla lótusblómið hjá mér meira en flestar
ömmur gera. Hún var augasteinn minn og yrði alltaf. Milli okkar var sérstakt
samband eins og milli mín og móður hennar en ég vissi alveg hvað það var
sem dró hana til mín að þessu sinni. Hún var prófessor í ummyndun og
blessuð dúfan var alveg að brenna yfir út af þrjóskunni í ömmu sinni. Fyrir
löngu hafði hún fengið umbreytingarleyfi fyrir mig hjá ráðinu og hylkið beið
ónotað eftir þessari gömlu konu sem sat á sínum rassi, skapaði glæpasögur og
heillaði fólk og dýr.
Ég ýtti á hnapp sem opnaði húsið mitt og Lótus kom inn. Hún kyssti mig.
– Sæl, amma mín.
– Sæl, blómið mitt.
Ég fann að tár komu fram í augun er ég horfði á þessa fullkomnu veru. Þetta
var barnið mitt.
– Ég kom út af umbreytingunni.
– Ég veit.
– Þú átt ekki langan tíma eftir.
– Ég veit.
Málið var að færi ég ekki fljótlega í umbreytinguna myndi ég tilflytjast á
næsta stig, þar sem aðrir voru að vinna og fengi ekki að vera á móður jörð.
Margir völdu þessa tilfærslu, orðnir þreyttir á jarðarvinnunni og vildu hitta
ástvini sína sem höfðu farið á meðan að fólk „dó“. Þessi tilflutningur var
svipaður og hinn líkamlegi dauði var. Sálin tilfluttist og jarðarlíkaminn gufaði
upp enda hættur að vera eins efnislegur og hann áður var. Svo sannarlega
hafði jörðin hækkað í tíðni.
Lótus settist hjá mér og tók um báðar hendur mínar.
– Amma, ráðið er búið að gefa þér hálft jarðarársfrí. Uppsprettan hefur
gefið grænt ljós á umbreytinguna núna. Þú lofaðir að vera hjá okkur og
tilflytjast ekki.
Ég hrökk við.
– Ég ætla að vera hjá ykkur.
Lótus stundi.
– Þú ert kannski búin að gleyma því að þegar þú lærðir fyrst um
DNAheilunina þá skipaðir þú fyrir um aldur þinn í þessu lífi, 150 ár. Það er
ekkert sem getur breytt því nema umbreytingarferlið. Þar að auki er það ekki
í áætlun ráðsins að hafa svo gamalt efni á jörðinni eins og er í skrokknum á þér,
amma mín.