Húnavaka - 01.05.2010, Page 40
H Ú N A V A K A 38
Ég hnussaði og hugsaði til alheimsráðsins sem ég átti sjálf sæti í. Gamalt
efni og hálfsársfrí til að fá einhverja gellu í ráðið til sín. Lótus skellti uppúr því
að auðvitað las hún hugsanir mínar. Við glottum báðar.
– Amma, ég elska húmorinn þinn og lofa að taka hann ekki frá þér. Ég vinn
allt umbreytingarferlið sjálf, það kemur enginn annar nálægt því, ég lofa þér
því.
Ég glotti.
– Fæ ég þá brún augu?
Ég sá að gimsteininn minn langaði til að berja mig dálítið.
– Við erum búnar að ræða þetta hundrað sinnum. Við breytum öllu nema
augunum, það er of áhættusamt. Við höfum aldrei gert það.
– Ef þú getur ekki breytt augnlitnum mínum þá ertu lélegur prófessor. Og
ef ég fer inn í þetta hylki þá kem ég út með brún augu eða alls ekki.
– Amma, þú færð allt sem þú baðst um. Dökka húð, svart hár, glæsilegan
stinnan líkama. Hún hló. Þú færð eiginlega mitt útlit en þú verður að fara að
byrja. Hugsaðu um afa. Hann er að verða búinn.
Afinn já. Ég var nú aldeilis búin að hugsa honum þegjandi þörfina, að fara
í umbreytinguna án þess að láta mig vita. Ég sem var búin að búa með þessum
skíthæl á annaðhundrað ár og ætlaði að vera með honum áfram. Hann hafði
auðvitað staðið sig vel og vann með syni okkar í jarðarheilun og orkuhækkun.
Ég vissi auðvitað að skrokkurinn á honum var löngu orðinn ónýtur og búið að
græða bæði í nefið á honum og hnén oftar en nokkrum öðrum. Hann hafði
alltaf verið að bíða eftir mér en svo einn daginn kom Lótus og tilkynnti mér
að afi hennar væri farinn, kominn inn í hylkið og umbreytingarferlið hafið. Ég
vonaði að Lótus myndi búa til lítinn Kínverja úr honum.
Stúlkan hnippti í mig.
– Amma, ráðið bað mig að gera smá persónuleikabreytingu á þér í leiðinni.
Þeir eru dálítið þreyttir á þessum þráa og vilja losa þig endanlega við þetta hik
sem þú átt til.
– Það var og.
– Þú ert svo mikil kærleiksvera að það hamlar þér. Veistu að fáir nema þú
fengju að halda slíkum persónueinkennum svo lengi. Það eru allir orðnir
dálítið þreyttir á þér.
Mér sárnaði auðvitað en vissi að þetta var satt. Vinkonur mínar voru löngu
búnar að taka umbreytingunni og höfðu lengi beðið eftir mér. Það var af sem
áður var. Einu sinni var það ég sem stökk af stað og hinar fylgdu á eftir.
Kannski var ég búin að vera að hamla orkuhækkun á einhverju sviði. Ég
skammaðist mín. Ég var ekkert ómissandi frekar en aðrir og því kannski
mátulegt á mig að tilflytjast fyrir heimsku.
Lótus tók utan um mig.
– Ekki vera leið, við elskum þig.
– Ég elska þig líka, ykkur öll, ég kem á eftir.
Eftir feiknalegt knús fór þessi ljósvera sem ég elskaði svo mjög. Mér lék
forvitni á að vita hvort hún myndi gera tilraunir á augunum á mér.
Það var ýmislegt sem ég þurfti að ganga frá. Ég vissi að börnin mín fengju