Húnavaka - 01.05.2010, Page 41
H Ú N A V A K A 39
að vita um leið og ég yrði komin í hylkið og þau ættu kost á að vera við þegar
umbreytingunni yrði lokið. Mínir bestu vinir fengju líka tilkynningu. Ef
umbreytingin tækist vel, færi ég í aðlögun í fimm mánuði og síðan kæmi ég
heim, ný og fersk, tilbúin að eiga nýjan mann. Ég glotti. Þetta var engu líkt.
Ég kveikti á tölvunni í síðasta skipti. Nokkur skeyti voru til mín og þar á
meðal frá fjórum vinkonum mínum. Sú fyrsta var orðin umsjónarmaður
samskipta á milli hnatta. Hún var eldri en ég og hafði auðvitað umbreyst fyrir
löngu. Frá því fyrsta hafði hún haft áhuga á ferðamálum og endaði með
samskiptum við aðra hnetti. Hún var að senda mér tilboð af fréttum um ferðir
og bjóða mér með sér á hlægilegu verði. Saman höfðum við brallað margt og
ferðast saman og ég elskaði hana óumræðilega mikið. Fyrsta ferðin okkar
saman hafði verið til Thailands þegar ég ættleiddi son minn og síðan þá
höfðum við ferðast mikið og brallað margt saman. Ég sendi skeyti til baka. -
Kem eftir umbreytinguna. - Ég vissi að hún yrði glöð.
Hinar þrjár vinkonur mínar voru með mér í leynilegum félagsskap sem
hafði staðið mjög lengi. Saman höfðum við náð mjög langt í ýmsu sem hafði
komið sér vel á þessum undarlegu tímum. Við höfðum ferðast saman með og
án líkama og þær voru yndislegar elskur hver á sinn hátt, ég vissi að ég hefði
örugglega ekki komist hálfa leið án þeirra. Sú fyrsta, grasalæknirinn og
heilarinn, var orðin heimsfræg fyrir löngu og búin að þróa grasalyf sem
gagnaðist ekki aðeins á okkar jörð heldur fleiri lífsformum á öðrum hnöttum.
Hún var auðvitað moldrík fyrir löngu eins og við allar en okkur var víst líka
öllum sama. Eignir voru ekki aðalatriðið þó að það væri gott að þurfa ekki að
hugsa um fjármuni. Að þessu sinni var þessi ástkæra vinkona mín að benda
mér á undrakrem sem væri sérlega gott eftir umbreytingu. Ég glotti og sendi
henni ást.
Önnur vinkona mín var orðin kraftaverkakona fyrir löngu. Hún vann að
verkefnum í sambandi við þróun framtíðarjarðar og var sú skipulagðasta af
okkur öllum. Hún ferðaðist ásamt prestinum, manni sínum, á milli og hafði
yfirumsjón með þessu verkefni um leið og hún hitti fólk og hjálpaði með léttri
snertingu. Ótalmargt fólk fékk hugarró hjá henni og hjálp. Það var eins og hún
gæti með einni snertingu komið ringluðum huga á rétta braut. Frá henni var
skemmtilegt bréf og lýsing á hvernig allt yrði á jörðinni samkvæmt hennar
skipulagi næstu 200 árin. Ég sendi henni líka ást.
Síðasta bréfið var frá vinkonu minni sem var orðin heimsfræg fyrir ritverk,
sagnfræði og heilun. Hún átti búgarða út um allt þar sem lífræn ræktun var
stunduð og á milli þess reið hún út á fallegum hestum og naut lífsins. Hún var
mesti eldurinn af okkur og í hjáverkum hjálpaði hún fólki sem átti í
kynlífsvanda. Hún var orðin ættmóðir hundraða fólks sem þó gat ekki stjórnað
þessari fallegu konu. Ég sendi henni líka ást og slökkti á tölvunni. Ég vissi að
allar þessar vinkonur mínar, auk afkomendanna, myndu styðja mig í
umbreytingunni og senda allan kærleik og háa orku á ferlið. Með þessar elskur
allar gat ekkert mistekist. Ég ákvað því að drífa mig af stað.
Ég fór út úr litla afdrepinu mínu á Sikiley og settist inn í diskinn.
Áfangastaðurinn var Japan þar sem Lótus vann á háþróaðri umbreytingarstöð