Húnavaka - 01.05.2010, Síða 43
H Ú N A V A K A 41
Ég fékk sérstakan búning til að klæðast og síðan benti hún mér að leggjast.
Engir aðrir starfsmenn voru enda var þetta sérverkefni Lótus. Hún leit á mig
og eitt andartak sá ég kvíða í augnaráðinu.
– Amma, ég geri mitt besta.
– Þú hefur alltaf gert það og hvernig sem fer þá verð ég sátt.
– Ég elska þig.
Stúlkan kom með tæki sem hún festi við úlnliðinn á mér.
– Þegar ég ýti á takkann þá sofnar þú. En ég verð að segja þér eitt. Það ætla
allir að vera viðstaddir þegar þú vaknar. Allir þínir afkomendur, bestu vinkonur
og æðstaráðið.
Ég starði á hana.
– Þú sagðist verða ein.
– Ég verð ein allar þrjár vikurnar en svo koma þau öll til að vera viðstödd
uppvakninguna.
– Þú meinar að þau verða þá öll vitni að allri minni ævi.
Hún kinkaði kolli, greinilega hrædd um að ég hætti við. Eitt andartak flaug
mér það í hug. Ég hafði alla mína ævi haft þau forréttindi að eiga mitt leynihólf
sem fáir þekktu. Hólf þar sem afkomendur mínir gátu ekki séð eða náð í
þekkingu frá en nú myndi hvert einasta atriði verða opinbert fyrir fólkinu mínu
og æðstaráðinu og ég var langt frá því stolt af öllu.
Ég horfði á Lótus og það var bæn í augum hennar.
– Barnið mitt, ég held að þú ættir að ýta á takkann núna.
------------------------------------------
Allt var fjólublátt, blátt, gult, grænt, regnbogalitt, neonlitt, ljós....................
... Myndir skutust fram eins og leiftur.
Barn sem brosti við fallegum blómum flúði randaflugu. Barn sem grét
vegna þess að það hélt að heimsendir væri kominn þegar þrumur og eldingar
klufu loftið, barn sem grét vegna þess að mamma var ekki mamma og pabbi
ekki pabbi. Barn sem var ættleitt og hataði kynforeldra sína, vildi vera prinsessa
en ekki lausaleikskrói. Barn sem var elskað, barn að hlusta á sögur hjá blindri
ömmu sinni, barn sem kúrði í rúminu hjá móður sinni til tólf ára aldurs.
Unglingur með minnimáttarkennd, unglingur sem varð fyrir vonbrigðum
með lífið, grét móður sínar dána, hataði manninn sem tók sakleysi hennar,
unglingur í uppreisn, unglingur sem strauk, vandræðabarn.
Ung kona sem fann ástina, reyndi að flýja frá raunveruleikanum en átti þó
mann sem elskaði hana og hjálpaði henni í gegnum allar þrautir, mann sem
hún elskaði óendanlega mikið. Basl, peningaleysi, lífsbarátta, hamingja,
vinirnir, sorg yfir ástvinamissi, sorg vegna barnleysis og biðin langa eftir
börnum. Óendanleg móðurhamingja, ótti við að standa sig ekki, ótti við að
eitthvað kæmi fyrir börnin, ótti við dauðann.
Rithöfundurinn sem barðist við að skrifa og var í langri baráttu áður en
verkin voru loksins metin að verðleikum, frægðin, athyglin, peningarnir, dýrin,
heilunin, skólinn, tilfinningarnar, fjórar nornir og nánir vinir, ást, kærleikur,
ljós. Allar tilfinningar lífsins, prófið fyrir framan æðstaráðið, verkefnin.