Húnavaka - 01.05.2010, Side 44
H Ú N A V A K A 42
Þetta var of mikið í einum pakka. Mér fannst brjóstið vera að springa. Hver
tilfinningin af annarri skall á mér, góð og slæm, sár og heillandi. Ég gat ekkert
gert til að stoppa þetta. Ég ákallaði Uppsprettuna sem í blíðu sinni benti mér
á að þetta hefði ég valið. Ég vissi loksins hvað ég hafði óttast, það var þessi
stund. Ég var að endurupplifa nokkuð sem ég hafði áður gert innilokuð í kistu
í Egyptalandi hinu forna. Ég þekkti nú þennan ótta, óttann við að falla, byrja
uppá nýtt. Óttinn við að standast ekki vígsluna. Ó, Guð, miskunnaðu mér.
Táknmyndir flugu hjá, draumar mínir, langanir, til styttri og lengri tíma.
Afbrýðisemi, ótti, vanmetakennd, stundir sem ég var ein, stundir sem ég var
uppljómuð. Allt frá svartnætti til þess að ganga um jörðina með Kristi mínum
og fljúga um með vinkonum mínum í fullkominni gleði. Allt, það kom allt. Ég
leiddi hugann ekki að því eitt andartak að einhver væri hjá mér, ég var alein
að berjast við tilfinningar mínar, allt sem ég vildi ekki horfast í augu við, hafði
reynt að gleyma, allt. Ég fann til með hverri einustu frumu. Myndir úr lífi
forfeðra minna flugu hjá og sál mín grét. Þekkingin ruddist fram í höfuðið og
mér fannst ég vera að springa. Illskan sem nú var horfin burt af jörðinni var
samt til í minni mínu og forfeðra minna og ég var að bugast. Hjarta mitt
grét.
Ég vissi ekki hvað var þá og nú. Var ég steinn, planta, dýr eða maður?
Líklega eitthvert lífsform, allt og ekkert. Ekkert haldbært, ljós sem stóð í
þvílíkum fellibyl að ég bjóst sjálf við að slokkna á hverri stundu. Undirmeðvit-
und mín sagði að þá myndi ég tilflytjast og allir, sem elskuðu mig og voru
farnir, myndu bíða og taka á móti mér en ég vildi berjast.
Allt í einu kom andlit Lótus inn í vitund mína.
– Amma, vaknaðu, vaknaðu til mín.
Uppsprettan talaði til mín.
– Þú átt val.
Ég vissi að ef ég veldi tilflutning gæti ég lokað á sársaukann en kæmi ég til
baka í nýja umbreytta líkama minn þyrfti ég að hafa allar minningarnar og
takast á við þær. Það tæki vikur að jafna sig á því. Mér fannst brjóstið vera að
rifna og það var of sárt til að gráta. Andlit Lótus sveif í huganum á mér.
– Opnaðu augun, ég bið þig, opnaðu augun.
Valið var mitt. Ég var ekki vön að gefast upp og ég vissi hvað ég vildi. Það
tók á að reyna að finna fyrir líkama sínum. Ég barðist við að hugsa um
augnalok og lyfta þeim. Ég tók á öllu sem ég átti og fann fyrir mjög sterkum
orkusendingum á þennan nýja breytta líkama minn. Ég vissi að ástvinir mínir
voru að hjálpa mér. Ég hugsaði mig upp, tók alla orku sem ég gat og fyrirskipaði
augunum að opnast.
Fyrst sá ég ekkert en svo kom þetta fallega elskulega andlit upp að mínu.
– Ég elska þig amma, þú ert stórkostleg. Þú ert kraftaverk, þú hefur gefið
mér stærstu gjöf sem er hægt. Ég mun eftirleiðis fá að sitja við hlið þér í ráðinu.
Amma, velkomin til baka.
Ég reyndi að hugsa ekki um sársaukann en fann að ég var í líkama sem var
dofinn en hann var ég, hjartað sló og ég andaði. Ég reyndi að tala og eftir
nokkra stund tókst mér að muldra fyrstu setninguna.