Húnavaka - 01.05.2010, Blaðsíða 46
H Ú N A V A K A 44
SVEINN TORFI ÞÓRÓLFSSON frá Skagaströnd:
Í sveit á Höskuldsstöðum
Fara í sveit
Það var vorið 1955 að mamma kom inn til okkar Almars, bróður míns, þegar
við vorum að fara að sofa um kvöldið og sagði: Jæja, Torfi minn. Nú ertu
orðinn svo stór að tími er til að þú farir í sveit og vinnir fyrir þér. Bogga1 kom
hérna um daginn, sagðist vera að fara að búa á Höskuldsstöðum og vildi að
þú kæmir og værir hjá þeim í sumar.
Mér féll allur ketill í eld. Ég hafði séð fyrir mér sumar við leik með
strákunum í Höfðanum. Við vorum rétt að byrja að leggja vegi og gera klárt
eftir veturinn. Hvað myndu nú Halli og allir hinir strákarnir segja? Fara í sveit!
Og hvað átti ég að gera þar?
Mamma lokaði svo dyrunum og við vorum eftir, ég alveg þrumulostinn. Ég
hafði tekið eftir því að Bogga á Bakka kom, teymandi gráan hest með hnakk
og spurði eftir mömmu. Við sögðum að hún væri inni, hún gæti bara gengið
inn. Við skyldum sjá um hestinn. Við vorum að spá í að fara á bak á meðan
Bogga var inni en þorðum það svo ekki. Hesturinn virtist hálffælinn. Svo kom
Bogga út aftur og fór á bak og reið burtu. Ég man eftir að hún var blíð í móti
og sagði hálf hlakkandi við mig: Sjáumst bráðum, Torfi minn. Veðrið var gott,
sólskin og austan gola svo við héldum bara áfram að leika okkur þarna fyrir
vestan húsið heima í Höfðaborg og gleymdum þessu atviki. Ekki grunaði mig
hvað í vændum var þá.
Ég svaf illa um nóttina. Við strákarnir vorum búnir að gera miklar áætlanir
fyrir sumarið, með vegagerðarframkvæmdir í Tjaldklaufinni, að smíða okkur
bíla, að byggja okkur kofa og svo framvegis. Hvað yrði nú? Nei, fara í sveit til
bláókunnugs fólks. Bogga var trúlofuð Stebba Hólm, stráknum sem lenti í
hrakningum með Benna sterka2 hér um árið á Húnaflóa, 19. október 1951, á
lítilli trillu, Sigurfara, sem Benni átti. Þeir hröktust utan af Hofsgrunni og alla
leið inn í Hindisvík á Vatnsnesi í stórsjó og blindhríð. Þeir voru taldir af en
björguðust fyrir eigin hreysti. Þeir jusu trilluna alla nóttina og komu svo
þrammandi heim á prestsetrið í Hindisvík og voru nærri búnir að hræða
líftóruna úr prestsmadömunni. Hér eru vofur á ferð, hrópaði hún og hljóp inn.
Þessa sögu átti ég eftir að heyra oft þegar Stebbi sagði frá.
Frá Höskuldsstöðum sá út á Húnaflóa þar sem þeir hröktust um fyrir fjórum
1 Björg Þóra Pálsdóttir
2 Benjamín Sigurðsson