Húnavaka - 01.05.2010, Side 59
H Ú N A V A K A 57
Herbergi yngri dótturinnar var eins og þar hefði fallið sprengja. Tvíbreið
vindsæng á miðju gólfinu því frænka úr borginni var í heimsókn. Sængur flutu
um allt gólf, bangsar, dúkkur, einhver lukkutröll uppi á borði og geislaspilari á
fullu. Uppáhalds Eurovision diskurinn var spilaður grimmt þessa dagana og
sungið hástöfum með – það voru forréttindi að vera sjö og ellefu ára gellur og
syngja af hjartans lyst „Æm jor dramakvín túnæt“ og hafa ekki nokkrar
áhyggjur af framburði eða áheyrendum. Hún slökkti á tónlistinni – gellurnar
voru stokknar út að leika og hún hafði ekki alveg sama áhuga á dönsku
dramadrottningunni og þær yngri. Hún yrði að hengja þvottinn upp áður en
þetta herbergi fengi sína meðferð. Á leið út úr herberginu rak hún augun í
flugurnar í gluggakistunni og hryllti sig. Þessi kvikindi voru út um allt, sem
betur fer dauð.
Snúrurnar voru svo til fullar af þvotti, hún hengdi þann blauta upp en sneri
sér svo að þeim þurra. Yndislegur ilmurinn fyllti vit hennar þegar hún týndi
flíkurnar smám saman af snúrunni og skellti yfir öxlina á sér. Með fangið fullt
af þvotti gekk hún inn og skellti honum á nýumbúið hjónarúmið. Henni
fannst alltaf best að ganga strax frá þvottinum, þá væri það rétt gert og hann
krumpaðist ekki og yrði ómögulegur. Fljótlega voru nokkrir skipulegir bunkar
af fötum komnir á rúmið – einn fyrir hvert herbergi og svo handklæði,
viskustykki og tuskur. Samviskusamlega gekk hún frá hverjum bunka fyrir sig.
Að lokum stóð hún með tuskurnar í höndunum og ósjálfrátt fór hún að þurrka
af, gekk í leiðslu um húsið og strauk eftir húsgögnum eins og hún ætti lífið að
leysa.
Úff, hvað húsgögnin voru fljót að safna ryki þegar allt var opið út, daginn
út og daginn inn. Hún fór og sótti litla handryksugu því gluggakisturnar voru
fullar af flugum. Hún fann að það var gott að hafa nóg fyrir stafni og það var
gott að fylgjast með flugunum hverfa.
Gærdagurinn, jafn sólríkur og hann var, hafði verið hræðilegur. Af hverju
gat Hann ekki bara virt skipulagið hennar, þurfti endilega að fara að raða
glösunum enn einu sinni í stofuskápinn, skápinn hennar, glösunum hennar!
Hann virtist bara ekki geta skilið þetta þrátt fyrir að vera sjálfur alveg jafn
slæmur – bara á öðrum sviðum. Tækjafíkn á háu stigi. Var það eitthvað betra?
Að þurfa að eignast allar græjur sem á markaðinn komu, hvort sem til voru
aurar eða tilefni til að eiga þær. Nei, þá var nú betra að vilja hafa hlutina í röð
og reglu og lífið í skorðum. Hann hefði bara átt að virða það! Hún fann allt í
einu að hún var farin að skella fjölskyldumyndunum óþarflega fast niður á
hillurnar.
Allt í einu var ekki nóg að þurrka af – gærdagurinn sat of fast í henni.
Kannski hún ætti að fara út í garð og kíkja í safnkassann? Hún glotti með
sjálfri sér – þessi tækjafíkn hans hafði svo sem komið sér vel. Trjákurlarinn
svínvirkaði og safnkassinn svona vel einangraður. Stór og mikill garður krafðist
mikillar vinnu, já og græjurnar voru fínar þó hún hafi nú ekki verið ánægð
með þær allar á sínum tíma.
Hún horfði smá stund út um gluggann en ákvað svo að barnaherbergið gæti
ekki beðið lengur nú þegar hillurnar voru orðnar glansandi fínar, gestirnir