Húnavaka - 01.05.2010, Síða 60
H Ú N A V A K A 58
mættu bara ekki sjá heimilið svona útlítandi. Hvað myndu þeir halda? Já og
flugurnar í gluggunum! Hún yrði að hrista þetta af sér.
Hún fór æfðum höndum um leikföngin, flokkaði og raðaði öllu í rétta kassa
og í réttar hillur og fljótlega var allt komið á sinn stað. Flugurnar hurfu
jafnframt og myndu ekki trufla hana meir – ekki þessar í það minnsta. Það var
gott að geta hreinsað aðeins til, það veitti henni ákveðinn létti.
Mikið var nú gott að fá svona skýjaðan dag til að þrífa, því fylgdi svo mikil
ró. Að hafa allt í röð og reglu – bara að allir í fjölskyldunni kynnu að meta
þetta eins og hún. Unglingurinn á heimilinu var ekki alveg nógu snyrtilegur,
sama hvað hún reyndi að segja honum til syndanna, biðja fallega eða kaupa
hann – ekkert virtist virka, herbergið hans var alltaf eins og þangað hefði
aldrei verið farið með klút og að þar væru engar hirslur fyrir föt því þau lágu
um allt gólf og huldu meira að segja hillur, borð og stóla.
Hún kunni hálf illa við að þrífa þar inni eftir að hún fann pakkann þarna
um daginn. Smokkapakka! Hún hélt bara að hún yrði ekki eldri. Henni fannst
drengurinn þó vera skynsamur að ætla sér að nota verjur ef hann stundaði
kynlíf, sem hann sagðist ekki vera farinn að gera – hann myndi þá ekki barna
neina á meðan. Vonandi. Hún brosti með sjálfri sér yfir svipnum á honum
þegar hún ræddi smokkana við hann og ítrekaði við hann að æfa sig heima
áður en hann ætlaði sér að brúka þá í fyrsta sinn með stúlku, það væri
mikilvægt að setja hann rétt á. MAMMA! hafði hann hrópað og greinilega
ekki liðið vel að vera að ræða þessi mál við móður sína. Þau skildu þó sátt og
hún var ánægð með að vera í góðu sambandi við strákinn þó hún fyndi að
hann hafði fjarlægst hana síðustu mánuði. Hvernig yrði samband þeirra nú?
Hún fann allt í einu kvíða byggjast upp innra með henni – vonandi færu
gestirnir bara að koma svo hún slyppi frá þessum hugsunum sínum. Voðalega
var hún að verða viðkvæm – það sem karlmenn geta gert konum! En ekki
lengur, ekki lengur.
Hún ákvað að skella í eins og eina skúffuköku, það yrði gott að eiga eitthvað
með kaffinu þegar flóðbylgjan skylli yfir. Ætli hún sé nokkuð orðin of sein að
byrja að baka? Best að steikja bara vöfflur, þær eru alltaf vinsælar.
„Mamma! Hvar ertu?“ Kallið kom úr forstofunni, pæjurnar voru komnar
inn aftur. Best að senda þær í búð eftir rjóma og fá þannig næði örlitla stund
til viðbótar. Hún var fljót að finna aura fyrir því sem vantaði, senda stúlkurn ar
út aftur og hafði húsið út af fyrir sig á ný. Hún fór yfir stöðuna í huganum;
flugurnar, þvotturinn, snúran, herbergin, klósettin... Klósettin! Hún hafði
alveg gleymt að líta á þau. Hún vissi reyndar sem var að hún hafði þrifið stærra
baðherbergið hátt og lágt í gærkveldi svo líklega þyrfti hún aðeins að líta á
gestaklósettið – það tæki enga stund. Hún skundaði af stað í verkefnið.
Þetta var allt að smella. Nú þyrfti hún aðeins að hugsa upp afsakanir fyrir
fjarveru húsbóndans. Hugurinn leitaði að lausnum á meðan klósettið varð
skínandi hreint. Vandræði á stöðinni? Veiðiferð? Foreldrar hans veikir?
Krakkarnir myndu nú hvá við slíkar fréttir svo það gengi nú ekki. Líklega væri
best að segja bara að hann hafi þurft að skreppa, þykjast svo hringja í símann
hans og segja hann utan þjónustusvæðis. Já, það væri best. Lokafrágangur yrði