Húnavaka - 01.05.2010, Side 75
H Ú N A V A K A 73
6. SEPTEMBER, MIÐVIKUDAGUR.
Frost í nótt, kalt í morgun eins og
undanfarna morgna en sólskin, hiti og
þurrkur er á daginn leið. Ég keyrði
einn hlaða af eldivið með mömmu
minni inn. Pabbi sló með sláttuvél
nýræktina fyrir utan bæinn. Ég sló eitt
beð hérna fyrir neðan bæinn og fór
svo til berja með krökkunum og tíndi
handa mömmu. Pabbi sló tvö eða þrjú
beð fyrir neðan bæinn líka.
7. SEPTEMBER, FIMMTUDAGUR.
Frost með mesta móti í nótt. Það hefur
verið héla í forsælu undanfarna
morgna þegar ég hef komið á fætur kl.
8-9 en var í morgun með mesta móti
en sólskin og þurrkur er á daginn leið.
Ég sótti Brún gamla í morgun og
keyrði eldiviðnum með mömmu, þeim
sem eftir var (einn hlaði). Svo sótti ég
mó á kerrunni, setti Brún gamla í stóra
hólfið. Ég sló varpann hérna fyrir
framan bæjardyrnar í dag. Þetta er í 3.
skipti sem hann er sleginn í sumar, ég
sló hann í 2. skipti líka (há). Pabbi sló
beðin áfram úteftir í dag. Ég skrapp
eftir póstinum niðrað Smyrlabergi í kvöld um klukkan sjö.
Árið 1945
25. júlí. Minningar frá því sem liðið er af árinu.
Heimilisfólkið hér á Kagaðarhóli var veturinn 1944-45 þetta; Jón Stefánsson
pabbi minn, Guðrún Jóhannsdóttir mamma mín, ég Stefán Jónsson, Maggi
Jónsson bróðir minn, 7 ára og svo mamma mömmu minnar, Friðrikka
Steingrímsdóttir, hún varð 67 ára 6. maí. Maggi bróðir fékk lömunarveiki í
desember 1944 en var, þó illa horfði um tíma, orðinn nokkuð góður á jólum
og jafngóður í mars eða mikið fyrr. Lífið var tilbreytingalítið í vetur, það gekk
sinn vanagang. Ég hirti fjósið, pabbi kindurnar og ég hjálpaði honum oft og
gaf og hirti féð ef hann fór burtu einn dag eða svo. Þegar hrossin komu inn,
hirti pabbi þau en ég lét þau inn með honum. Aldrei var svo mikil hríð í vetur
nema í eitt skipti að ég færi ekki í fjósið. Ég las allar lestrarfélagsbækur er komu
hingað heim á heimilið, m.a. 1. bindi Flateyjarbókar. Ég og pabbi hleyptum til
kindunum í vetur.
F.v.: Jón Stefánsson, Pálmi Gíslason,
Grænuhlíð, Kristmundur Stefánsson,
Grænuhlíð, Maggi Jónsson, Lamba (Unnur
Ásbjarnardóttir), Stefán Á. Jónsson
(standandi), Guðrún Jóhannsdóttir og Lollý
(Ólafía Ásbjarnardóttir).