Húnavaka - 01.05.2010, Side 82
H Ú N A V A K A 80
og fastmæli um framkvæmd. En til þess að fyrirbyggja eftirmál og misskilning
var vissara að hringja og tala beint við fararstjóra hestaferðarinnar yfir Kjöl.
- Sæll og blessaður. Ég er kerlingin sem langar að fara ríðandi suður yfir
Kjöl, orðin lappalaus og liðamótakölkuð og kemst sennilega ekki á bak
hjálparlaust. En ég kem mér vel við hross og sit létt á hesti þegar ég er komin
í hnakkinn. Þorirðu að taka þannig farþega með í för?
- Það er ekkert til fyrirstöðu með það, heyrðist hinum megin.
- Þetta er ögrun við sjálfa mig og kerfið sem segir okkur, sem komin erum á
eftirlaunaárin, að fara nú bara í betri fötin, setjast á bekkinn og bíða þangað
til við verðum sótt. Ég tek ekki mark á því. Mitt mottó er: Það veit enginn hvað
hann getur nema reyna og ég reyni hvað ég get meðan ég má. Það getur vel
verið að ég geti þetta ekki og þá verður ekki við aðra að sakast um það. Þorir
þú að eiga þátt í slíku uppátæki?
- Við sjáum til með það. Gott að hafa með sér hlýjan klæðnað, það getur
verið allra veðra von á fjöllum.
- Það ætti ég að kunna með alla reynslu áranna í farteskinu.
Þar með var ferðin tryggð. Farið að prjóna ullarsokkana og hafa til bak-
pokann.
1. dagur
Á tilsettum tíma var mætt við Mælifellsrétt í Skagafirði, þann 26. júlí, kl. 15.00.
Skyldfólkið sá um að keyra kerlingunni á staðinn og krossa í bak og fyrir, því
ýmsir hugsuðu sitt um þetta uppátæki. Ekki þýddi þó um að fást þar sem allir
vissu að hún bar fulla ábyrgð á sínu og ætlaði hana ekki öðrum. Fararstjóri og
leiðsögumaður heilsuðu glaðlega af traustvekjandi fagmennsku og alúð.
Kerlingunni var fenginn taumur á stórum hesti rauðblesóttum. - Hann
heitir Meiður, sagði fararstjórinn, eigandi hestsins. Enn ein tilviljunin því engu
var líkara en þar væri aftur kominn fyrsti hestur æskuáranna sem henni var
gefinn þá sem folald en varð kær förunautur árum saman. Svo var lagt á. En
ístaðið á svona stórum hesti var hærra uppi en stuttir og stirðir fætur næðu
þangað með góðu móti og engin bakþúfa í grennd. Karlarnir sáu þó fljótt
hvers kyns var og komu hjálpfúsir. Lengt var í ístaðsól þar til saman náði fótur
og ístað, kerla sveiflaði sér í hnakkinn, ólar jafnaðar aftur og allt tilbúið til
ferðar. Knapi og hestur fundu strax taktinn og líkaði sambandið.
Svo lagði lestin af stað. Tuttugu og einn farþegi í lest og lestarstjóri, sem
stjórnaði hraða, leiðsögumaður meðfram hér og þar að fylgjast með líðan
farþega og eftirlitsmaður aftast er sá yfir hópinn og fylgdist vel með öllu. Sú
gamla og Meiður fundu fljótt að þeim líkaði betur að vera ekki taglhnýtingar
annarra og fundu sér stað næst leiðsögumanni fremst í hópnum. Farið var að
mestu fetið upp brattann að Mælifellsdal en sprett úr spori öðru hvoru eftir
greiðfærum götum dalsins þegar þangað kom. Á þessum fallega og grösuga
eyðidal var gott að á, leyfa hestum að grípa niður í grængresinu og pissa.
Óskráð lög hestamannsins á öllum ferðalögum sem skapa fljótt nánari tengsl
ferðamanna og fararskjóta. Þessir ferðamenn voru reynd ar af mörgum þjóð-