Húnavaka - 01.05.2010, Qupperneq 86
H Ú N A V A K A 84
3. dagur
Eftir léttsvæfa nótt var erfitt að finna sína fætur til að standa á. Bakið var
gjörsamlega óvirkt til að reyna að rísa upp, sendi bara kvalastingi út í allar
tilfinningar við minnstu hreyfingu. Þá varð að hafa önnur ráð, mjaka sér á
olnboganum fram að kojustokknum, lauma fótunum fram af og finna tak á
bríkinni fyrir hendurnar, vega sig gætilega upp á handaflinu, styðja höndum á
hné og fikra sig í réttstöðu með sérstöku lagi. Hún kunni þetta svo sem því oft
áður á ævinni hafði hún fengið þursabit í sitt bilaða bak en kannski aldrei
svona sárt. En hún þoldi að finna talsvert til án þess að láta mikið á því bera
og nú var að taka á því sem til var, styðjast við stoðir og veggi fram á snyrtingu,
bursta tennur og taka andlitsbað til hressingar. Þetta ætlaði að ganga, fara bara
gætilega og hugsa ráð sitt. Það hefði hún betur gert áður en hún stökk af baki
í gærkveldi. Alltaf hægt að vera vitur eftirá, svo lengi lærir sem lifir og allt það.
Nú var að reyna að liðka þetta aðeins, finna jafnvægispunktinn á hryggsúlunni
og máta hreyfingar. Þær leyfðu víst ekki mikla fimleika nú en nota flest í
nauðum skal. Þá var að taka því.
Fólkið tíndist á fætur. Fararstjóri kom og hugaði að líðan. (Hún er djöfulleg,
sagði innri röddin). En konan bar sig mannalega, sagðist vera - fatlað fól upp
fyrir miðju, stirð og ófær um að komast upp og niður af hesti í bili en efri
hlutinn væri í lagi. Spurði hvort ennþá stæði gott boð um sæti í trússabíl. Það
var auðsótt og málalengingar óþarfar.
Morgunverk voru afgreidd eftir sínum föstu reglum og farangur frágenginn.
Veður þungbúið og rigningarlegt. Konan þurfti ekki að snúast í því að leggja
á en tók sinn hakk og hjálm og setti á skutbílinn til flutnings. Laus hestahópurinn
skokkaði frjálslega af stað í umsjá rekstrarmanna og síðan leiðsögumenn og
farþegar í skipulegri lest sem fyrr. Matráðskona og hjálparstúlka gengu vel frá
öllu og komu sínu fyrir úti í ferðaeldhúsbíl, þrifu gólf og skiluðu húsi eins og
að var komið. Kvöddu skálaverði með virktum, með þökk fyrir góða
fyrirgreiðslu og viðmót og síðan var lagt af stað. Matseljur í eldhúsbílnum en
kerla í sætinu við hlið bílstjórans í trússabílnum sem þennan daginn var kona
eins rekstrarmannsins. Með þeim bíl voru fluttir aukahnakkar, skeifur,
vatnsgallar og aðrir varahlutir er við þarf í svona fjallaferð. Að mörgu er að
hyggja og hafa forsjá með, þar sem í hópi eru saman til sex daga yfirferðar um
hálendið, 30 manns, hátt í hundrað hestar og allur viðurgjörningur fyrir
tímabilið.
En þarna var engan hnökra að sjá á neinu í undirbúningi enda fararstjórinn
búinn að fara á annað hundrað ferðir fram og til baka þessa leið í sömu
erindagerðum og starfsfólkið samhent í öllu sem að höndum ber. Farþegarnir,
sem eru oftast að meirihluta útlendingar, finna öryggið og fumlausa forsjá
umsjónarfólksins, njóta frelsisins og óviðjafnanlegrar upplifunar í ríki jökla,
fjalla og víðáttu.
Næsti náttstaður var Hveravellir. Til þess að komast þangað fóru hestamenn