Húnavaka - 01.05.2010, Side 87
H Ú N A V A K A 85
beinustu leið yfir þverárnar og jökulvatnið á Blönduvöðum sem kunn eru
ferðamönnum frá ómunatíð. En bílarnir urðu að taka á sig talsverðan krók til
baka aftur út heiðina til þess að komst yfir Blöndu á brú og á bílveg hinum
megin. Áningarstaður og girðing til hestaskipta er við Seyðisá fyrir þessar
ferðir. Þar skyldi trússabíllinn vera til staðar og hitta lestarmenn en matarbíllinn
fer beint til næsta náttstaðar að undirbúa næstu törn í umönnun svangra og
þreyttra farþega.
Það rigndi talsvert þennan dag svo menn voru blautir og stirðir í regn-
göllunum en glaðir og ánægðir á svip við Seyðisá, að skipta um hesta, stinga
uppí sig súkkulaðibita eða samlokunesti frá morgninum og stíga svo aftur á
bak. Bíllinn dokaði við meðan lestin fikraði sig af stað. Fararstjórinn hélt
hraðanum í jöfnum takti inn árbakkann. En samt, hvað var nú þetta? Þegar
kom í moldargötuna þarna innar með ánni varð ekki betur séð en einn
knapinn og hestur aftarlega í hópnum lægju bröltandi á bakkanum. Bíllinn var
ræstur í flýti og fundin leið út af vegi í áttina þangað.
Hesturinn stóð fljótt á fætur en konan, sem á honum hafði setið, var seinni
til en leiðsögumaður og hjálparmenn stumrandi yfir. Reis þó allt upp fljótlega
og kom að bílnum, sænska konan, sem fyrir óhappinu varð, læknir að mennt,
taldi sér betra að fá að sitja í bílnum það sem eftir var leiðar í náttstað. Sagðist
þó ómeidd, aðeins svolítið ringluð eftir að hafa lent á ennið ofan í moldarflagið
en hafa sloppið vel að öðru leyti. Sem allir fögnuðu því þarna hefði getað farið
verr ef hún hefði t.d. lent undir hestinum eða brotnað illa.
Kerlingin fikraði sig út úr framsætinu, rýmdi farangri til hliðar í aftursætinu
og holaði sér þar niður. Ekki sem þægilegast en mátti þola stutta leið. Fann
bréfþurrku og rétti hinni til að hreinsa af sér leirinn. Síðan sigu allir þakklátir
af stað aftur. Bíllinn sína leið en hestar og menn áfram inn troðningana.
Á Hveravöllum hafði hundrignt allan daginn svo allt flaut í vatni.
Íshestafarþegar höfðu bækistöð í Gamlaskála ferðafélagins, þar er engin
snyrtiaðstaða nema heiti potturinn. Ekki var það aðgengilegt fyrir þann sem
ekki gat beygt sig eða klætt úr, nema með sérstöku lagi og vissum stellingum.
En þá var að stikla gætilega yfir rigningarlækina niður í almenningsaðstöðuna
og nota það sem þar bauðst. Margt var þar um manninn en plássið ekki mikið,
allir samt kurteisir og stóðu í biðröðinni þar til að þeim kom. Nógur tími til að
velta vöngum yfir þeirri furðu að ekki skuli fyrir löngu komið nýtt, rúmgott og
vel búið hótel þarna á völdum stað einhversstaðar skammt frá hverasvæðinu,
eins og mannfjöldinn er mikill sem fer þarna um og gistir staðinn. Þessi
aðstaða er skemmd og lýti á staðnum og ekki mönnum bjóðandi.
Sænska konan fékk hressingu, virtist vera að ná sér aftur eftir áfallið sem
aðeins hafði skilið eftir auman blett á enni en engin lýti eða meiðsl að ráði.
Og nú var gott að nota smá hlé sem bíllinn skilaði okkur fyrr en hestarnir hinu
fólkinu. Hægt að velja sér aðgengilega neðri koju bak við hurð þar sem lítið
bar á og líka hægt að nota hurðarhúninn sem lyftistöng til handstyrkingar og
kerlingin notaði sér forréttindi - fyrstur kemur, fyrstur fær - enda alls ófær um
að nota efri koju eða verða fyrir hnjaski.
Svo tíndist hestafólkið inn blautt og rjótt í framan en glatt að sjá heita drykki