Húnavaka - 01.05.2010, Side 89
H Ú N A V A K A 87
Honum til bjargar kom þarna ábyrgðartilfinning og manneskjuleg viðbrögð
leiðsögumannsins. Hann tók af skarið. - Drengir mínir! Við látum ekki þennan
ungling kála sér þarna fyrir augunum á okkur. Ég tek á mig ábyrgðina af
frelsissviptingunni ef í eftirmál fer en þið verðið að ábyrgjast húsaskjól. Og
manninn sóttu þeir, bjuggu um á snyrtingunni fyrir fatlaða, slógu slagbröndum
fyrir og festu breitt límband þvers og kruss yfir svo öllum yrði ljóst að lokað var
og innsiglað. Síðan lögðust allir til náða á ný.
Morguninn eftir, þegar maðurinn hafði sofið úr sér vímuna, fengið hressingu
og var hleypt út, þakkaði hann auðmjúkur fyrir sig, baðst afsökunar og
blygðaðist sín.
En gamla konan fékk áleitna eftirþanka. Var það virkilega þannig að lög og
reglugerðir bönnuðu vörðum slíkra staða svo strangt að skipta sér af einkalífi
fólks, að þar gæti hver og einn farið sér að voða í æðiskasti án þess hefta mætti
för? Var þá ekki orðið tímabært að verðir laga og réttar væru á svona fjölsóttum
ferðamannastað allan sólarhringinn, ábyrgir fyrir framkvæmd þessara laga?
Óreynd ungmenni, sem gjarnan drýgja sína skólapeninga með umsjón á
þessum stöðum yfir sumarið, eru alls ófær um að ráða fram úr svona óvæntum
atburðum. Sama hvað sagt er um eigin ábyrgð og einkalíf. Spurningin verður
alltaf: - Á ÉG að gæta bróður míns? Verður ekki sá draugur ásækinn mörgum
að heyra útburðarvælið í eyrum samviskunnar eftirá? Er ekki kominn tími til
að hugleiða þessi mál betur?
4. dagur
Upp reis fólk í skála á réttum tíma eins og ekkert hefði í skorist. Kerlingin gat
með naumindum velt sínu baki á hlið og fikrað fótum fyrir stokk, seilst í súlur
og hurð til stuðnings, rétt úr hnjám og komið baki í réttstöðu, án þess vekja
aðra. Fór sína morgungöngu til snyrtingar, fann að hreyfihömlun var enn
meiri en svo að hestfær væri og sá fram á annan dag í bílsæti.
Þegar aftur í skálann kom voru allir klæddir og komnir á ról. Athygli þýsku
konunnar í efri koju á móti hafði hins vegar útundan sér séð aðferðir þeirrar
gömlu við að búa sig undir daginn. Kom nú þarna óbeðin, með framrétta
hönd og túpu með bólgueyðandi og verkjastillandi kremi, spurði hvort hún
mætti ekki bera á bakið. Því var ekki hægt að neita svo hún afgreiddi þá gjörð
af fagmennsku enda svæfingarlæknir að atvinnu. Konan þakkaði fyrir sig, fann
handgerðan ullarþófaposa undir farsímann eða gleraugun, útsaumaðan með
refilsaum af henni sjálfri. -Minjagripur með þökk fyrir. Málleysi hamlaði meiri
tjáskiptum en gaman hefði verið að tala meira við þessa þýsku konu.
Fararstjóri og leiðsögumaður könnuðu dagskipan, röðuðu saman hestum og
knöpum, spurðu glaðlega um hvernig gengi með afturbata. -Bakið enn í
sundurlausu verkfalli, vöðvar og bein vilja sitt í hvora áttina og höfuðið segir
Þjófadali og Leggjabrjót ekki á sínu færi að stjórna þeim yfir í dag. Best að sjá
til hvort við þetta verður komið einhverju tauti á morgun. -Mjög skynsamlegt,
sögðu þeir, því þetta er líka lengsta og erfiðasta dagleiðin, engum bíl hægt að