Húnavaka - 01.05.2010, Page 90
H Ú N A V A K A 88
koma við eða með í för og líklega verður skúraveður þarna meðfram fjöllum,
eftir útliti að dæma. Hin sænska, sem byltuna fékk daginn áður, var nú galvösk
og til í slaginn svo ekkert var að vanbúnaði. Hestar og menn fóru sína leið með
nesti og góðar væntingar. Konur í skála gengu frá öllu eftir settum reglum og
sú gamla reyndi að verða að liði við það sem ekki þurfti miklar beygjur við,
sópaði gólf og þvoði borð og þess háttar. Fékk svo far við hlið matmóðurinnar
í húsbíl eldhúsútgerðarinnar.
Og nú hófust nánari kynni af konunni sem að baki stóð, sá um mat og allan
viðurgjörning fyrir flokkinn, skipulagði hitt og annað og var með í ráðum.
Sænsk að uppruna en búin að eiga hér heima og samlagast landsháttum um
árabil. Orðin meiri Íslendingur en margur hér sem lengri hefur ættartölu til
landnáms. Það var gaman að heyra þessa léttlyndu konu hlæja hjartanlega að
öllum smámunum lífsins og njóta með henni stundarinnar. Bílsætið studdi rétt
og vel við brákað bakið, verkurinn gleymdist meðan ekið var mót sólu suður
yfir auðnina, einnig það að ætlunin var að fara á hestbaki yfir Kjöl.
Óvæntir atburðir taka oft í taumana og beina manni inn á aðrar brautir.
Það getur allt eins haft nýjar og lærdómsríkar upplifanir í för með sér sem gefa
engu minna en áætlun upphafsins. Svo fór um þennan dag. Við komum
snemma í Árbúðaskála í nágrenni Hvítárvatns og Langjökuls. Höfðum góðan
tíma til að fara þar í heita sturtu og láta líða úr kroppi. Þar varð einnig rólegt
kvöld við rabb og kynni. Skálinn rúmgóður, engin truflun annarra ferðalanga,
fólk slæpt og hvíldinni fegið eftir langa reið í mishlýju veðri meðfram jöklinum
sem dró til sín skúraleiðingar, minnugt síðustu nætur sem minna næði gaf.
Nóttin varð kærkomin.
5. dagur
Nú var sólskin með köflum eins og veðurspáfólkið segir, suðvestan gola eða
kaldi, gott ferðaveður. Allt eftir áætlun með morgunathafnir. Fólk tók nesti og
hélt af stað suður af. Kerla sá sér vænst að verma enn sæti við hlið
fararstjórafrúarinnar í eldhúsbílnum. Þar var þó áfram hægt að vega sig upp í
sæti með handaflinu en engin von til að geta náð ístaði til að lyfta sér í hnakk
enn sem komið var. Hryggurinn lagaðist lítið en þó í áttina með minni verki.
Hreyfigetan engin nema með handaflinu að reisa sig upp og stilla af í réttstöðu.
Fararstjóri með hlýju hluttekningarbrosi sammála því. Allt við svipað og
síðasta dag nema nú var styttri dagleið fyrir höndum og von um gistingu í
góðu rúmi í smáhýsum ferðamannaþjónustunnar á heimili fararstjóra og frúar.
Hestar geymdir við Sandá næstu nótt en ferðalöngum yrði komið í náttstað
með bílum.
Kerla, í fylgd með frúnni, var komin á miðjum degi þangað og var vísað til
herbergis í heimahúsi fjölskyldunnar, bent á sturtu og allt sem með þurfti til
bestu dvalar og sagt að vera eins og heima hjá sér. Þannig viðmóti er vandi að
lýsa og þakka svo vel sé. En guð launar fyrir hrafninn og vonandi líka fyrir þá
sem stuðnings þurfa í áföllum lífsins. Vel sé þeim.