Húnavaka - 01.05.2010, Blaðsíða 92
H Ú N A V A K A 90
ferðalagi kerlingar, án þess að reyna að hafa stjórn á hennar sjálfstæði í nokkru.
- Við leggjum á og reynum ef þið sjáið von til að koma mér á bak, sagði kerla.
Og það var gert.
Ekkert mál, fararstjóri kom með skammelið góða úr bílnum, sem notað
hafði verið þar undanfarandi daga til að komast upp og niður úr bíl á
áfangastöðum. Kerla var þessa dagana búin að læra þá list að brjóta odd af
oflæti sínu og þiggja hjálp sem veitt er með gleði og af góðum hug.
Lengt var í ístaðsól, sú gamla steig á skammelið, studdist við Meið sinn og
karlana, náði að lyfta löpp yfir hnakk og upp fór hún. Jafnaði rólega tauma,
lagaði ásetu að aðstæðum og var tilbúin. Fann að nú varð að hafa stuðning af
og styðja hönd á hnakknefið til að halda hryggnum í réttum skorðum. Meið
gat hún stjórnað með annarri hendi og af stað fór hópurinn eftir götunum
gegnum skóginn. Nú hélt konan aftur af sér og sínum hesti, kaus að vera
aftarlega í lestinni í þetta sinn til þess að verða ekki öðrum til tafar ef eitthvað
færi úrskeiðis, bað leiðsögumann að vera viðbúinn ef þetta gengi ekki upp en
bar sig að öðru leyti nokkuð líklega til að þrauka, þó sárt væri og lítt bærilegt
þar sem látið var kasta toppi. Meiður virtist finna á ásetunni að nærgætni var
þörf, tölti mjúkt og tók ekki í tauma en allar þannig aukahreyfingar kölluðu
fram æpandi sársauka í hryggjarskriflinu. Kerla beit á jaxlinn, lét á engu bera
en vandaði ferðahraða og götuval eins og hægt var. Jú, þetta ætlaði að duga
alla leið.
Þegar út úr skóginum kom og nálgaðist veginn var þar óvænt fyrirsát.
Venslafólk syðra hafði haldið uppi njósnum og var nú þarna viðbúið í móunum
að skjóta af myndavélarlinsunni á hópinn.
Þarna mætti slá botn í ferðasöguna. Aðeins eftir að segja frá síðustu veislu-
máltíðinni, afhendingu diplómaskjals eða skírteinis Íshesta um að viðkomandi
farþegar hefðu lokið hestaferð yfir Kjöl, undirskrifað nöfnum allra sem að því
unnu að svo mætti verða. Starfsfólki öllu þakkað með kossi og kærleikum og
þeginn bolur með stimpli Íshesta í bak og fyrir.
Farþegar mynduðu sönghópa hver fyrir sitt land og allir voru glaðir og reifir.
Kerla hringdi í fólkið sitt sem var þarna í næstu sveit og bað um að verða sótt
þegar leið á kvöldið. Það var auðfengið því áður var svo ráð fyrir gert. Hún lét
sig því hverfa, var búin að faðma húsráðendur og þakka fyrir framúrskarandi
góðvild og styrk við framkvæmd á þessu uppátæki að ætla sér í fjallferð svo
gömul. Leiðsögumaðurinn kvaddi með innileik, sagðist mundi koma við
seinna því margt væri órætt og þessi ferð ekki gleymd þó leiðir skildu hér.
En í eftirmála er hægt að segja að konan fór í röntgenmyndatöku með
bakið, nokkru eftir að heim kom, til að fá úr því skorið hvað þar væri að. Við
þá athugun kom í ljós: „Lækkun á ......., fleyglögun á Th 11 og Th 10, grunsamlegt
samfallsbrot......, töluvert slit í facettuliðum .....hryggskekkja til hægri .......“ Tilv. í
myndgreiningu. Stytt.
Þetta lagaðist samt smátt og smátt svo vel mátti við una til allra daglegra
nota ef hlíft var við átökum.
Og ferðin yfir Kjöl er ævintýri sem gaman væri að endurtaka við
níræðistímamótin, undir sömu leiðsögn.