Húnavaka - 01.05.2010, Síða 100
H Ú N A V A K A 98
Áveituskurðurinn úr Vatnsdalsárflóðinu gegnum hið svonefnda Tíðaskarð er að lengd
104 faðmar, þar af eru 40 faðmar grafnir gegnum melkamb og er þar skurðurinn 7 álna
djúpur, 13 álna breiður að ofan og þriggja álna breiður í botninn“.
Hér vekur athygli nútímamannsins að í fyrri lýsingunni er nafnið flóðið,
skrifað með litlum staf og bætt við „sem kallað er“ en í seinni úttektinni er notað
nafnið Vatnsdalsárflóðið. Á þessum tíma virðist örnefnið Flóðið ekki hafa
verið fast í málinu.
Við gröftinn á Tíðaskurði vann m.a. ungur drengur úr sveitinni. Hann fór
síðar til Ameríku og lærði þar verkfræði. Stjórnaði hann síðan mikilli
mannvirkjagerð í því landi en það var sama hversu stórbrotin verkin voru, í
minningunni komst ekkert þeirra í líkingu við það verk sem hann sem
unglingur vann við í sveitinni heima. Á efri árum rættist loks draumur þessa
verkfræðings að komast aftur heim til að líta æskustöðvarnar augum. Ferðin
var ekki síst farin til að líta augum þetta mikla verk, Tíðaskurðinn. Mikil voru
vonbrigðin, skurðurinn, sem í minningunni var svo stór en var í raun aðeins
rispa sem ekki tæki nema skamma stund að grafa með þeim tækjum sem hann
réði yfir vestur í Ameríku. Eigi að síður var það verk að grafa Tíðaskurðinn
talið á sinni tíð eitt stærsta verk sem einstakur bóndi á Íslandi hafði ráðist í til
þess að bæta sína jörð.
Skammt frá Tíðaskurði er hóll sem heitir Langanes, langur rani sem nær út
í mikla mýri. Hluti af þessari mýri heitir Afætur enda kaldarennsli á nokkrum
stöðum svo þar frýs ekki á vetrum. Austan við mýrina er hár hóll sem heitir
Skúlahóll. Enginn veit hvers vegna hann heitir svo eða eftir hvaða Skúla hann
er nefndur. Hugsanlega liggur þar merk saga að baki. Þessi hóll sker sig
nokkuð úr öðrum hólum á svæðinu vegna þess að á toppi hans er græn þúfa
en dökk sand- eða malarskriðan þar neðan við.
Í landi Sveinsstaða eru ekki mörg örnefni sem draga nafn af mannanöfnum.
Þó er þar Ólafslundur sem fyrr er nefndur, Pétursskurður, Skúlahóll, Þórkötluás
og Halldórssteinn. Ekki er mér kunnugt um hvers vegna fjögur síðasttöldu
örnefnin heita svo eða frá hvaða fólki þessi nöfn eru komin. Gott dæmi um
hvernig örnefni draga nafn af mannanöfnum er Bjarnasteinn, þekktur
veiðistaður í Vatnsdalsá, neðan við Kötlustaðahlíð. Þessi steinn losnaði úr
hlíðinni þegar þar var unnið að vegagerð. Ungur maður úr sveitinni, Bjarni
Snæbjörnsson frá Snæringsstöðum, stjórnaði jarðýtunni sem losaði steininn,
þannig að þetta mikla bjarg valt niður brekkuna og lenti í miðri ánni. Fyrsta
laxinn við þennan stóra stein veiddi hins vegar Bjarni Ingimarsson, þekktur
sem einn af aflahæstu togaraskipstjórum sinnar samtíðar. Eigi er mér hins
vegar kunnugt um hvort steinninn heitir eftir ýtustjóranum unga eða
skipstjóranum. Þennan stein sýndi ég eitt sinn breskum sérfræðingi um
veiðistaðagerð, eftir að hann hafði sagt mér að þar sem botn væri svipaður og
þarna er í Vatnsdalsá, væri besta ráðið að koma svo stórum steini út í ána að
engin hætta væri að hann hreyfðist hvernig sem vorflóð og aðrir vatnavextir
hömuðust á steininum. Vandinn er bara, sagði sá breski, að þið hafið varla tök
á svo stórum tækjum að koma svona björgum fyrir, þó tilviljun hafi ráðið því
að svo tókst til með Bjarnastein.