Húnavaka - 01.05.2010, Qupperneq 107
H Ú N A V A K A 105
en svo fór, að hún var alveg komin ,,á sveitina“. Af manninum sem með Steinu
var í för fréttist að hann hefði gerst ,,beykir“ vestur á fjörðum.
Steina reyndi að bera sig um með því að skríða á hnjánum og til þess að
gera það þægilegra og betra saumaði hún sér stórar og miklar hnjáhlífar eða
þófa og var stúfunum stungið ofan í þær. Náðu hlífar þessar upp fyrir hné og
voru mikið verk, unnar úr taubútum og skinni. Seinna eignaðist hún gervifætur
með liðamótum og skóm, aðallega voru þeir smíðaðir úr járni og/eða stáli og
ólaðir upp um mjaðmir. Ekki veit ég hvar eða hvernig þeir voru búnir til en á
þeim þrammaði hún bæði úti og inni þó þungir væru og klunnalegir mjög.
Hún fór jafnvel á þeim milli bæja ef henni bauð svo við að horfa en Steina var
sterk og ótrúlega seig. Þegar hún ætlaði sér eitthvað þá skyldi það ganga, þó
langan tíma tæki, eins og þegar henni datt í hug að fara út í Undirfell
(heimanað frá okkur á Brúsastöðum) en þangað sótti hún ákaft. Hafði hún
verið þar lengi áður fyrr og tekið miklu ástfóstri við konu þar sem hún hafði
gætt sem barns. Hún átti til að leggja af stað án þess að nefna það við nokkurn
og það varð uppi fótur og fit þegar vitnaðist að Steina væri lögð af stað
úteftir.
Ekki þýddi að reyna að fá Steinu til að hætta við ferðina, það tók hún ekki
í mál þó óratíma tæki að staulast þetta á þessum fótabúnaði. Voru þá ég og
frænka mín, á svipuðum aldri, sendar á eftir henni til að leiða hana og þokast
þetta með henni, undir sífelldum aðfinnslum frá henni hvernig við bærum til
fæturna. Ómögulegt er að segja að þetta hafi verið neinar skemmtiferðir fyrir
okkur þó við neyddumst til að gera þetta af þægð. Við vorum líka fljótar heim
þegar við höfðum komið henni innfyrir dyr á Undirfelli. Þessar ferðir gátu líka
oft endurtekið sig og man ég eftir að við lentum a.m.k. einu sinni í versta
veðri.
Oft á sumrin fékk hún sér lúr úti á víðavangi, undir heysæti eða út í heygarði
og var þá leitað að henni. Ekki vildi hún borða með öðru fólki, henni var
færður matur á matmálstímum en hún stakk honum venjulega ofan í koffort
og borðaði þegar henni sýndist, settist oft upp á nóttunni og maulaði.
Steina var ekki heimsk, hún hafði sínar skoðanir á mönnum og málefnum
en hún gat verið dálítið bitur út í lífið og samfélagið og svo þá sem einhver völd
höfðu. Ég man að hún sótti það æði fast að komast aftur inná heimili foreldra
minna, búin að vera einhvern útrunninn tíma annars staðar.
Henni var bent á að nú væri ekkert pláss, þetta var snemma sumars og hafði
bæst eitthvað við af fólki yfir sumartímann. Hvert sæti var skipað í gamla
bænum. Hún kvað það ekkert mál, það mundi nú ekki væsa um sig í
eldiviðarskálanum en þar var, auk eldiviðar, fullt af amboðum og reiðtygjum,
tunnum o.þ.h.
Öllum fannst þetta fjarstæða, þetta væri engum manni bjóðandi en hún hélt
nú annað, þarna mætti sem best slá upp rúmbálki í horni og fylla með heyi.
Þá væru nú ekki vandræði að sofa þarna mestan part ársins og þangað til var
kella að að hún hafði sitt fram. En þegar haustaði að og fækkað hafði í bað-
stofunni var hún flutt þangað inn. Ekki varð henni meint af að sofa í þessu
framhýsi en hún klæddi sig líka vel, stórum ullarflókum var vafið um brjóst og