Húnavaka - 01.05.2010, Síða 111
H Ú N A V A K A 109
spurninga um það hvað geri Húnvetninga að Húnvetningum, Skagfirðinga að
Skagfirðingum, o.s.frv. Um leið vakna spurningar um það hvað veldur því að
þessi eða hinn telur sig Húnvetning eða Skagfirðing. Er kannski hægt að vera
hvoru tveggja vandræðalaust? Hvað með þann sem fæðist og elst upp í
Svartárdal, flyst síðan á Sauðárkrók og eignast þar maka, fæddan og uppalinn
í Hörgárdal, á með honum börn og elur síðan allan aldur sinn í faðmi
fjölskyldunnar undir Tindastóli?
Um þetta efni hef ég nýverið skrifað ítarlega í tímaritið Uppeldi og menntun og
vísa áhugasömum þangað um forsendur og röksemdir.4 Þar varð niðurstaða
mín sú að búseta fólks sé aðalatriðið „en tilfinning viðkomandi, sjálfsskynjun
hans, skiptir einnig miklu máli.“ Að því gefnu sló ég fram þeirri fullyrðingu „að
búseta og samvitund fólks ráði því til hverra það telst helst.“ Það merkir að ef
fyrrnefndur Svartdælingur/Sauðkrækingur telur sig fremur Húnvetning en
Skagfirðing er það einfaldlega svo, nú eða öfugt. Um þetta „tek ég undir með
bandaríska félagsfræðingnum Liah Greenfeld (fædd í Sovétríkjunum, menntuð
í Ísrael), sem birti yfirgripsmikla greiningu á þjóðernisstefnunni í fimm löndum
(Englandi, Frakklandi, Rússlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum) árið 1992.
Hún segir meðal annars: „Samvitund er skynjun. Hafi tiltekin samvitund enga
merk ingu í huga ákveðins hóps býr sá hópur ekki yfir viðkomandi samvitund.““5
Ég held að þetta sé kjarni málsins. „Sjálfsskynjun einstaklingsins og samsömun
hans með hópnum ræður hverjum hann tilheyrir. Samvitundin verður til við
ákveðnar menningarlegar og oft landfræðilegar aðstæður, gjarnan í nánum
samanburði við samvitund annarra hópa. Álit þeirra skiptir máli og hefur
sífelld áhrif svo samvitundin tekur jafnan breytingum í samræmi við þróunina
allt um kring.“6
Það að einhver kýs að kalla sig Húnvetning er til marks um að viðkomandi
hefur samvitund með öðrum sem gera það líka. Það að vera Svartdælingur er
síðan hlutmengi í hinu stærra, við getum haldið áfram yfir í Norðlending,
Íslending, o.s.frv. Þetta er ágætlega skýrt og samvitund af þessu tagi er gömul
um allt land. Lítið hefur hins vegar verið með hana unnið og hún er lítt
rannsökuð á vettvangi fræðanna. Í stað þess að fara út í þá sálma vil ég verja
rýminu hér til þess að ræða suma þá farvegi sem húnvetnsk samvitund,
héraðsvitund, hefur fundið sér eftir að aldagamalt bændasamfélagið tók að
gefa alvarlega eftir á liðinni öld. Í því samhengi er rétt að hafa hugfast að
Húnavatnssýsla (ég kýs að tala um allt svæðið frá Hrútafjarðará austur að
sýslumerkjum við Skagafjörð í eintölu) er nú um stundir eitt dreifbýlasta hérað
landsins og þar stendur þéttbýli mjög veikum fótum að tiltölu við sveitirnar.
Það má glöggt sjá á tölunum í töflunni sem hér fylgir og spannar eina öld.7
4 Bragi Guðmundsson. 2009. Landið er eitt – samfélagið er breitt/breytt: um
samvitund Íslendinga og undirstöður hennar. Uppeldi og menntun 18:1, bls. 9–35.
5 Á frummálinu: „Identity is perception. If a particular identity does not mean
anything to the population in question, this population does not have this particular
identity.“ Greenfeld, Liah. 1992. Nationalism: Five roads to modernity. Cambridge,
Harvard University Press, bls. 13.
6 Bragi Guðmundsson 2009: 22.
7 Tölurnar eru byggðar á útgefnum tölfræðigögnum frá Hagstofu Íslands og öðrum
upplýsingum á vef Hagstofunnar, www.hagstofa.is.