Húnavaka - 01.05.2010, Blaðsíða 112
H Ú N A V A K A 110
Íbúar Húnavatnssýslu 1910–2010.
1910 1940 1970 2000 2010
Þéttbýli
Laugarbakki 83 60
Hvammstangi 114 314 361 590 579
Blönduós 273 436 690 924 819
Skagaströnd 120 280 532 615 519
Þéttbýli alls 507 1030 1583 2212 1977
Hlutfall íbúa í þéttbýli 12,6 28,1 42,6 63,8 64,7
Dreifbýli 3515 2641 2130 1256 1077
Íbúar alls 4022 3671 3713 3468 3054
Hlutfall allra Íslendinga 4,76 3,05 1,82 1,24 0,96
Á bak við þessar tölur er mikil saga og þar skiptir mestu að stórbrotnir
þjóðflutningar einkenndu innanlandsþróunina alla tuttugustu öld. Bæði fluttu
landsmenn í miklum mæli úr sveitum í þéttbýli við ströndina og hins vegar af
landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins við Faxaflóa. Hvorugt gerðist átaka-
né sársaukalaust og eftirtektarvert er að íbúum Húnavatnssýslu hefur fækkað
um fjórðung á sama tíma og heildarfjöldi landsmanna hefur tæplega fjórfaldast
(úr 85 þúsundum í 318 þúsund). Mest er blóðtaka sveitanna sem nú byggja um
þrjátíu prósent þess fjölda sem þar var árið 1910 samtímis því sem
þéttbýlisstaðir hafa fjórfaldast að stærð og þeim fjölgað um einn.
Samkennd eflist á breytingatímum og þau viðbrögð við þessari þróun að
efna til átthaga- og sögufélaga af ýmsu tagi auk þess að stofna minjasöfn í
héraði eru vel kunn og áttu sér meðal annars stað meðal Húnvetninga, heima
og heiman. Hitt er aftur minna þekkt hvernig greina má viðbrögð, yfirleitt eða
alltaf andóf, í handskrifuðum blöðum sem víða voru samin og gengu um
sveitir seint á nítjándu öld og á fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu. Fyrir
slíkum blöðum gerir Eiríkur Þormóðsson, handritavörður við handritadeild
Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, prýðilega grein í nýlegu riti um
íslenska alþýðumenningu.8 Eiríkur skiptir þessum blöðum til hægðarauka í tvo
flokka. Í hinum fyrri eru eldri blöðin sem hann vill kalla „„hin eiginlegu
sveitarblöð“, þ.e. blöðin sem byrjuðu að koma út á áttunda áratug 19. aldar
(eða fyrr), gefin út af einstaklingum, lestrarfélögum og öðrum hliðstæðum
(ungmenna)félögum og samtökum... . Þetta voru líka blöðin sem létu sig hvað
mest varða hvers kyns málefni sveitarinnar.“ Til yngri blaðanna telur Eiríkur
„blöð skóla og félaga eins og kvenfélaga og bindindisfélaga en þó fyrst og
fremst blöð ungmennafélaga“ eftir að þau komast á legg frá og með 1906.
8 Eiríkur Þormóðsson. 2003. Handskrifuð blöð. Alþýðumenning á Íslandi 1830–1930: ritað
mál, menntun og félagshreyfingar (ritstjórar Ingi Sigurðsson og Loftur Guttormsson), bls.
67–90. [Sagnfræðirannsóknir, 18]. Reykjavík, Háskólaútgáfan.