Húnavaka - 01.05.2010, Page 113
H Ú N A V A K A 111
Aðalmunurinn á miðlun þessara blaða var sá að „sveitarblöðin gengu bæja
á milli en félagsblöðin, einkum ungmennafélagsblöðin, voru oftast lesin upp á
fundum félaganna.“9 Flest þessara blaða voru aðeins gefin út að vetrarlagi, á
sumrin kölluðu önnur verk.
Af yfirlitstöflu í grein Eiríks sést að Húnvetningar voru bæði seinni til að
skrifa blöð af þessu tagi og að þau voru eftirtakanlega færri en í flestum öðrum
sýslum. Þannig var ekkert blað gefið út til 1906 en níu ótilgreindir titlar á
tímabilinu 1907–1930, einn vestan Gljúfurár en hinir austan. Af þessum níu
voru tvö sveitarblöð, sex á vegum ungmennafélaga og eitt sem gefið var út af
öðrum. Til samanburðar má nefna að í Strandasýslu voru gefin út sextán blöð
og 26 í Skagafirði. Langflest voru þau í Suður-Þingeyjarsýslu, 96.10
Þessum blöðum var það öllum sameiginlegt að tjá með einum eða öðrum
hætti viðhorf hins almenna íbúa til málefna líðandi stundar eins og þau horfðu
við á hverjum tíma. Af sjálfu leiðir að margt af efni þeirra er verulega
áhugaverð lesning og ég hef nú farið í gegnum flest þeirra handskrifuðu og/
eða fjölrituðu blaða sem eru varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Blönduósi, öll
úr Austur-Húnavatnssýslu. Þau eru þessi í réttri aldursröð frá hinu elsta til hins
yngsta (Ásar þó settir sem beint framhald af Baldri):
Baldur – handskrifað blað málfundafélagsins Framtíðarinnar í
Torfalækjarhreppi 1908–1919. Alls kom út 51 tölublað og eru þau varðveitt í
nokkrum innbundnum bókum, safnnúmer er Torfalækjarhreppur 210.
Ásar – handskrifað blað ungmennafélagsins Framtíðarinnar í Torfa-
lækjarhreppi 1919–1924. Ungmennafélagið var arftaki samnefnds mál-
fundafélags og Ásar tóku einnig við af forvera sínum, Baldri. Alls kom út 21
tölublað sem varðveitt er í innbundinni bók undir sama safnnúmeri og
Baldur.
Bragi – handskrifað blað lestrarfélagsins Fjölnis í austanverðum Svína vatns-
hreppi 1914–1917. Kom nokkuð þétt út framan af, fyrsti og eini rit stjórinn var
Hannes Pálsson (1898–1978) á Guðlaugsstöðum. Safnnúmer er B-c-6.
Dagsbrún – handskrifað ungmennafélagsblað á Blönduósi 1915–1916,
varðveitt í einni innbundinni bók. Í dagbókum Bjarna Jónassonar, er þá var
barnakennari á Blönduósi, eru greinileg uppköst að efni sem síðan birtist í
Dagsbrún undir dulnefninu Snæbjörn. Vera má að hann hafi verið upphafsmaður
blaðsins sem kom til Héraðsskjalasafnsins með dagbókum og öðrum
persónulegum gögnum hans. Bragi, Sveitin og Húnvetningur voru þar einnig með
í för. Safnnúmer er B-c-6.
Vorboðinn – handskrifað blað samnefnds ungmennafélags í Engihlíðarhreppi
1916–1930 og 1938–1955. Á Héraðsskjalasafninu eru 24 óinnbundin tölublöð
með þessu nafni frá árunum 1916–1921 og þrjár innbundnar bækur þaðan í
frá með 90 tölublöðum til viðbótar. Vel mögulegt er að Vorboðinn hafi komið
lengur út því engin sérstök dauðamerki voru á honum er þriðja bókin var fyllt
í febrúar 1955. Hafi svo verið hafa þau tölublöð ekki skilað sér til opinberrar
varðveislu enn. Safnnúmer er B-6-4.
9 Eiríkur Þormóðsson 2003: 68–69.
10 Eiríkur Þormóðsson 2003: 79.