Húnavaka - 01.05.2010, Side 115
H Ú N A V A K A 113
Davíðsson, sem lengi var skólastjóri á Blönduósi, segir blaðið hafa komið út frá
1912 og um langt árabil,11 en getur ekki um varðveislu þess.
Fram/Neisti – blað ungmennafélagsins Fram á Skagaströnd. Lárus Ægir
Guðmundsson á Skagaströnd segir blaðið hafa verið gefið út á árunum 1927–
1930, 1936–1937 og 1943–1944.12 Fyrst hafi það heitið Fram en síðar Neisti,
um skeið. Um varðveislu þess getur Lárus Ægir ekki.
Þá er rétt að geta þess að lengi starfaði Málfundafélag Nesjamanna á
utanverðum Skaga en óvíst er að það hafi gefið út blað. Öll gögn félagsins eru
því miður glötuð nema gjörðabækur frá árunum 1913–1955, félagatal 1933–
1958 og reikningabók fyrir árin 1928–1947. Um starfsemi þessa félags hefur
Kristján Sveinsson, sagnfræðingur frá Tjörn á Skaga, fjallað ítarlega í
lokaritgerð frá Háskóla Íslands.13
Loks er vel hugsanlegt að handskrifuð og/eða fjölrituð blöð séu fleiri þótt
þau hafi ekki rekið á fjörur mínar enn. Gott væri að fá ábendingar um slíkt frá
þeim sem vita.
Af framansögðu er ljóst að blómaskeið handskrifaðra blaða meðal Austur-
Húnvetninga var annar og þriðji áratugur síðustu aldar. Flest eða allt voru
þetta blöð hreinræktaðra sveitamanna, blöð málfunda-, lestrar- og
ungmennafélaga og þau voru mikilvægur vettvangur skoðanaskipta um leið og
þau æfðu rökfimi og ritleikni þeirra sem í þau skrifuðu. Aðeins eitt þeirra,
Sveitin í Svínavatnshreppi, var almennt sveitarblað í þeim skilningi að það tók
virkan þátt í samfélagsumræðu þess tíma og því var beinlínis ætlað það
hlutverk. Húnvetningur Hafsteins á Gunnsteinsstöðum var á vissan hátt á sömu
braut en náði ekki nægum aldri til að öðlast fullan þroska.
Mörg blaðanna eru fjölbreytt að efni og þau eru góður spegill á samfélag
síns tíma. Eitt þeirra viðfangsefna sem skýtur upp kollinum hér og hvar er
búsetuþróunin sem áður er lýst og þær þjóðfélagsbreytingar sem af henni
hlutust. Rætt var um gildi þess að vera sveitamaður og mikilvægi þess að
berjast fyrir og verja áframhaldandi búsetu í sveitum. Byggðarvitund þeirra
sem til stílvopnsins gripu efldist og skýrðist smám saman og þótt einstaka áttaði
sig á að við ofurefli var að etja, þróunin yrði einfaldlega ekki stöðvuð, voru
hinir fleiri sem reyndu hvað þeir gátu til að sannfæra sjálfa sig og aðra um gildi
þess að vera um kyrrt. Úr þessari umræðu skulu nú tekin fáein dæmi en sneitt
að sinni hjá öllu öðru forvitnilegu sem ríkuleg menningararfleifð handskrifuðu
blaðanna býr sannarlega yfir.
Efni Baldurs í Torfalækjarhreppi sýnir að málfundafélagarnir hafa notað
blaðið til ýmiss konar ritæfinga og stundum urðu orðaskipti á milli þeirra um
áleitin viðfangsefni. Þeir skrifuðu til dæmis um víndrykkju, glímu og aðrar
11 Steingrímur Davíðsson. 1963. U.S.A.H. 1912–1962. Skinfaxi 54, 1–2: 2–43. Hér er
vitnað til bls. 24.
12 Lárus Ægir Guðmundsson. [1976]. Ágrip af sögu Ungmennafélagsins FRAM á
Skagaströnd 1926–1976. Ungmennafélagið FRAM á Skagaströnd 50 ára 1926–1976, bls.
11–27. Skagaströnd, Ungmennafélagið FRAM. Hér er vitnað til bls. 17.
13 Kristján Sveinsson. 1990. Byggð í Nesjum 1880–1940: upphaf, þróun og endalok byggðar á
Kálfshamarsnesi. Óútgefin BA-ritgerð við heimspekideild Háskóla Íslands. Hér er vitnað
til bls. 50–53.