Húnavaka - 01.05.2010, Page 116
H Ú N A V A K A 114
íþróttir ásamt velferð lands og þjóðar, en tiltölulega lítið sem snerti heimasveit
eða heimahérað þeirra beint. Allmikið af efninu var skrifað undir dulnefni
framan af eða óhöfundarmerkt með öllu. Smám saman tóku þó fleiri og fleiri
að skrifa undir nafni, einkum eftir að Ingibjörg Björnsdóttir (að öllum líkindum
Ingibjörg húsfreyja á Torfalæk (1875–1940)) skrifaði stutta grein í árslok 1910
og bað félagsmenn um að skrifa framvegis undir nafni. Um sama leyti tóku að
birtast greinar sem áttu beint erindi til sveitabúskapar, svo sem um kornforðabúr,
þjóðjarðasölu, skógrækt og búskaparhætti almennt.
Jón A. Jónsson (1877–1914) frá Móbergi í Langadal, gagnfræðingur frá
Akureyri 1903 og kennari úr kennaradeild Flensborgarskóla 1904, skrifaði
fyrstu greinina sem eitthvað kvað að í annað og þriðja tölublað fyrsta
árgangsins. Viðfangsefnið var menntamál og er það ekki að undra því Jón
stefndi að kennslu og kenndi næsta vetur á eftir í farskóla Engihlíðarhrepps.
Hann ílentist ekki í því starfi, varð verslunarmaður á Blönduósi til
dauðadags.
Jón fer vítt um í fyrsta hluta greinarinnar og kveður það viðtekin viðhorf
meðal framsækinna þjóða að menntun sé forsenda framfara. Á þetta hafi skort
meðal Íslendinga en nú sé sóknarfæri í kjölfar nýsettra fræðslulaga, 1907.
Síðan snýr hann sér að heimavelli sínum og spyr hvað henti þar best: heima-
eða eftirlitskennsla, farskóli, heimangönguskóli eða heimavistarskóli. Jón segir
það alkunnugt þeim er gerst þekkja að skólakennsla taki
allri annarri kennslu fram að jöfnum kennurum, og öðrum skilyrðum,
og frá hagfræðisjónarmiði er það svo glöggt, að ekki er um að villast.
Þar eyða ekki börnin tímanum hvert frá öðru, þar gengur ekki hálfur
tími inn í ferðalög á milli bæjanna, og þar þarf ekki að slíta
fræðsluþáttinn í sundur í miðju kafi, eins og oft á sér stað þar, sem um
farkennslu eða heimakennslu er að ræða. Kennarinn getur oft ekki
verið nema stuttan tíma á hverjum bæ, og meðan hann svo er í burtu
týna börnin oft niður því sem hann áður hafði kennt þeim og gengur
tími til að rifja það upp. Þar af leiðir að tíminn eyðist og fer oft og
einatt fyrir ekki neitt, sem ekki þarf að eiga sér stað í föstum skóla.
Jón veltir síðan þeim kostum fyrir sér sem hreppsbúar hafi og kemst að
þeirri niðurstöðu að vegna vegalengda og annarra ytri aðstæðna sé ekki um
annað að ræða en reisa heimavistarskóla fyrir sveitarfélagið. Það sé líka góður
kostur að þurfa ekki að vita af börnum á leið úr og í skóla við misjafnar
aðstæður eins og vera þyrfti ef skólinn væri heimangönguskóli. En hvar átti
skólinn að vera? Annar möguleikinn var að kauptúnið (Blönduós) hefði
sérstakan skóla fyrir sig og sveitin annan fyrir sig, hinn að einn sameiginlegur
skóli risi fyrir allt sveitarfélagið (Blönduós varð ekki sjálfstætt sveitarfélag fyrr
en 1914). Niðurstaða Jóns var alveg skýr, skólinn skyldi verða aðeins einn og
færði hann til þess bæði fagleg rök sem kostnaðarrök. Skólann vildi hann hafa
nálægt Blönduósi eða jafnvel á staðnum sjálfum svo þéttbýlisbörnin gætu
gengið heiman og heim en sveitabörnin yrðu í heimavist.
Hér var sleginn viðkvæmur strengur og það var Jóni vel ljóst því hann ver