Húnavaka - 01.05.2010, Blaðsíða 117
H Ú N A V A K A 115
síðasta hluta greinarinnar í samskipti dreifbýlis og þéttbýlis, eða öllu heldur þá
togstreitu og jafnvel gagnkvæmu andúð sem til staðar var. Jón kveðst hafa
reynslu af kaupstaðar- sem sveitarlífi og að hans mati vegi kostir og ókostir salt
á báðum stöðum. Það séu líka mennirnir en ekki staðirnir sem valdi. Hann
beinir máli sínu frekar til sveitanna og segir að fólkið þar sé öldungis eins
misjafnt og í kaupstöðunum: „þetta óupprætanlega hatur sem sumir í sveitinni
bera til kaupstaðanna frá vöggu til grafar, sé ég heldur ekki að hafi við nokkur
réttmæt rök að styðjast.“ Undir lokin koma sterk frýjunarorð til samferðamanna:
„er nokkuð unaðslegra til á þessari jörð en það, að geta litið til baka á æfinnar
kvöldi, og sjá ímynd sína og afkvæmið fyrir sinn tilverknað halda merkinu hátt
og frambera það til sigurs og virðingar ætt sinni og föðurlandi.“
Ritari Baldurs (óvíst hver þar hélt á penna) tók upp spurninguna um það
hvers vegna fólk yfirgefi sveitirnar í mars 1915. Hann byrjar grein sína á að
svara spurningunni beint og lýsir ástandinu um leið:
Til þess eru víst margar ástæður. Bæði hjá þeim sem flýja, og þeim sem
ráða lögum og lofum í sveitinni. Það er almenn umkvörtun yfir því, að
fólk vanti í sveitirnar – það sé dýrt – það bara fáist ekki. – Unga fólkið
streymi í kauptúnin – „í rallið“ – „líklega til þess að dansa.“ Við
bændurnir stöndum agndofa, og höldum að okkur höndum, – horfum
bara á strauminn. Gerum ekki neitt til þess að hefta hann; bara
vandræðustum yfir þessu. Þetta má ekki svona ganga. Þetta er svo
óeðlilegt, og báðum, sem hlut eiga að máli illt. Þetta er héraðs- og
þjóðþrifamál, væri því vert að eitthvað væri reynt.
Að þessu sögðu leitar skrifari Baldurs skýringa á fólksflóttanum (hann talar
um að „flýja“) og segir ekki hægt að skella allri skuldinni á þá sem flytja. Þar
fari unga fólkið fremst og það sé ískyggilegt, þess sé framtíðin. Kaupstaðirnir
hafi eitthvað að bjóða sem sveitirnar skorti og þar muni mikið um félagslífið.
Fjörugt félagslíf og fjölbreyttar skemmtanir lokki og laði ungu kynslóðina sem
þrái gleði og frelsi. Í kaupstöðunum séu einnig menntastofnanir sem hvergi séu
annars staðar.
Þessari samkeppni þurfa sveitirnar að mæta, að mati höfundar. Efla verði
og styrkja félagslíf til sveita en það vefst fyrir honum að útskýra hvernig það
megi gera. Í annan stað vill hann prýða umhverfi sveitanna sem sé bæði
verkefni einstaklinga og félagasamtaka en hinn ónefndi höfundur útskýrir ekki
nánar hvað hann á við. Í þriðja lagi bendir hann á að ein meginorsök
fólksflutninganna sé skortur á jarðnæði, fólk verði einfaldlega að flytja á
mölina því það eigi ekki annan kost. Og þeirra sem flytja til Blönduóss bíði
ekki gott hlutskipti því staðurinn sá hafi ekkert „að bjóða nema lélega atvinnu
við verslanir. Ég get ekki ímyndað mér að þessir menn geri það [að flytja] af
léttúð. Það væri heldur mikil léttúð að stofna allri fjölskyldu sinni í bersýnilegan
efnalegan skaða.“ Tómthúsmennska á mölinni var höfundi alls ekki að skapi.
Í síðasta hluta greinarinnar beinir ritari Baldurs orðum sínum til sjálfs sín og
annarra bænda. Hann segir þá tilhneigingu of sterka að láta ekkert af hendi
þótt jarðir séu ekki fullsetnar eða fullnýttar. Þetta verði að breytast og réttara