Húnavaka - 01.05.2010, Page 118
H Ú N A V A K A 116
sé „að lána hjúunum okkar nokkrar jarðarnytjar. Þá munu þau verða spakari
í vistinni, því hvaða staða er arðvænlegri fyrir einhleypa menn, eða konur, en
vera hjú og hafa skepnustofn, sem þau geta ávaxtað, og fær hirðingu á því með
bóndans fé.“ Afleiðingin verður, segir höfundur, meiri arður allra aðila vegna
sameiginlegra hagsmuna af samvinnu og samstarfi. Markmiðið er að fjölga
fólki og hvetja til framkvæmda og framfara. „Sveitirnar okkar eru svo vel
gerðar af náttúrunnar hendi, að það er óeðlilegt að lífið og þrótturinn flýi
þaðan.“
Viðlíka viðhorf koma allvíða fram í öðrum greinum og öðrum blöðum á
þessum tíma og auðvelt er að sjá samhljóm við málflutning margra
málsmetandi og áberandi einstaklinga í forystusveit landsmanna. Hér var
enda ekki verið að móta stefnu eða umræðu, miklu fremur var umræðan færð
á heimavöllinn þar sem hún var metin og vegin á félagslegum vettvangi.
Í þessu samhengi eru athyglisverðar tvær langar greinar í Sveitinni árið 1920
eftir prófastinn á Auðkúlu, séra Stefán M. Jónsson (1852–1930), þar sem hann
beinir orðum sínum til ungu kynslóðarinnar og veltir fyrir sér hvernig hún
muni ganga til móts við framtíð sína. Stefáni var ljóst að samkeppni sveitanna
við ört vaxandi þéttbýli við ströndina myndi reynast erfið og trúlega tapast
nema umtalsverðar breytingar kæmu til. Hann áttaði sig á því að fólki yrði ekki
haldið til sveita gegn vilja þess sjálfs og þess vegna þyrfti að auka lífsgæði
hvarvetna, „gjöra unga fólkinu sveitalífið svo vistlegt sem unnt er, svo það
girnist síður að fara burt.“ Síðan segir hann: „En það, sem heimilunum er
hollt, það er sveitinni hollt. Heimilið eða sveitin má ekki verða verkamanninum
að selstöð. Ástin til heimahaganna er sjálfsagðasta sporið til sannrar
föðurlandsástar, þess vegna þurfa heimahagarnir að vera aðlaðandi, geta látið
í té sem mest af þeim nautnum, sem hver þráir.“
Í orðum prófastsins koma fram tvö mikilvæg atriði. Annars vegar ræðir
Stefán um mikilvægi heimila og ást til heimahaga sem er honum svo eðlileg og
sjálfsögð að hann útskýrir hana ekki neitt. Átthagaástin er trúlega meðfædd að
áliti Auðkúluklerks og þroskast síðan með aldri og reynslu. Ættjarðarástin er
að hans mati fjarlægara fyrirbæri og hún nærist meðal annars á tilfinningu
einstaklingsins til átthaga sinna, þess nærumhverfis sem hann þekkir best. Ekki
er unnt að ganga svo langt að fullyrða að séra Stefán hafi talið átthagaástina
forsendu föðurlandsástar en sterkt samhengi þar á milli var honum augljóst.
Hitt atriðið sem séra Stefán ræðir og staldrað skal við er hvert sé aðgengið
að þeirri afþreyingu „sem náttúruleg meðsköpuð þrá æskulífsins í sveitinni
krefur. ... Tíðarandinn er stórveldi, hann er hinn mikli sáðmaður, sem stráir út
frækornum sínum hvað sem hver segir... . – Vér verðum því að gefa fólkinu
tækifæri til gleði og skemmtana, það heimtar það, það þarf þess, annars fer
það frá oss, er fram líða stundir. Tímans raddir um hátt kaup eru háværar, en
engu síður um glaðlegt líf.“
Að þessu sögðu leggur hinn roskni prófastur til fáein atriði sem vinna þarf
að í Svínavatnshreppi til þess að gera hann sem fýsilegastan til búsetu. Þar
nefnir hann fyrst nauðsyn þess að hittast oft og fjölmenna á mannfagnaði til
þess að kynnast, ræða um menn og málefni. Þetta sagði Stefán auðveldast að