Húnavaka - 01.05.2010, Page 119
H Ú N A V A K A 117
gera með því að tengja samkomur við kirkjuferðir og talar í því sambandi um
„kirkjufundi“. Í annan stað segir hann þurfa að byggja samkomuhús til
annarra fundarhalda, dansleikja, leiksýninga, glímu- og tafliðkunar,
spilamennsku, söngs og margs fleira. Í þriðja lagi leggur hann til að fengnir
verði alþýðufyrirlesarar af og til. Í fjórða lagi vill hann efla lestrarfélagið, í
fimmta lagi vill hann stofna söngfélag sem hafi góðan söngstjóra, í sjötta lagi
að efla blaðið og eignast fjölritara og loks nefnir hann nauðsyn þess að
húsakynni séu vistleg. Hann útskýrir þessi síðustu orð ekki en á væntanlega við
að þörf sé fyrir almenna uppbyggingu íbúðarhúsa í hreppnum.
Bjarni Gestsson (1902–1990) á Björnólfsstöðum veltir fyrir sér hvers vegna
fólki fækkar í sveitum en fjölgar í kaupstöðum í Vorboðanum í mars 1921. Hann
segir vinnufólk vanta í sveitirnar, einkum yfir hásumarið, og að það krefjist
miklu hærri verklauna en landbúnaðurinn fái staðið undir. Sem ástæðu þessa
nefnir Bjarni fyrst vöxt og viðgang sjávarútvegsins sem þurfi á sífellt fleiri
vinnandi höndum að halda og sprengi þar með upp kaupgjaldið í harðri
samkeppni um verkafólk. Aðra ástæðu sér hann í fjölgun skóla í þéttbýli.
Þangað leiti fólk sér menntunar og skili sér síðan ekki til baka að námi loknu.
Bæði finnist fólki kaupstaðarvinnan léttari og minna bindandi en sveitavinnan,
en eins venjist fólk á glaðvært kaupstaðarlíf og finnist sveitin leiðinleg eftir að
hafa prófað annað. Bjarni segir bændur á vissan hátt geta sjálfum sér um kennt
hvernig komið er hvað skólana varðar. Þeir sendi börn sín í kaupstaðarskólana
sem einkum bjóði bóklegt nám er komi að litlu gagni heima fyrir.
Til varnar sá Bjarni það helst að reistir verði sérstakir skólar í sveitum fyrir
sveitafólk þar sem veitt sé hagnýt bókleg sem verkleg menntun er sniðin verði
að þörfum hins daglega sveitalífs. Í annan stað þurfi að efla félagslíf til sveita
og „auka mjög glaðværð sveitalífsins en hún er nauðsynleg öllum.“ Þá verði að
auka ræktun að mun og þar með alla framleiðslu. Grein sína endar Bjarni á
að staðhæfa að líf til sveita sé í heild reglusamara og heilbrigðara en
kaupstaðarlífið og þess vegna beri að hlúa að búsetu þar með öllum tiltækum
ráðum.
Síðustu dæmin sem hér skulu leidd fram eru sótt í Ingimund gamla, blað
Vatnsdælinga, en á þeim vettvangi stóð umræða um búsetubreytingarnar hvað
lengst og margir tóku þátt.
Ágúst B. Jónsson (1892–1987) á Hofi skrifaði mikið í Ingimund gamla. Vorið
1925 gerði hann vorkomuna að umtalsefni og tengdi hann hana beint við það
samtímamálefni sem hvað heitast brann á sveitamönnum. Hann lýsir því
hvernig raddir náttúrunnar vakna, söngur farfuglanna tekur að hljóma,
vorboðarnir koma hver á fætur öðrum. Ágúst segir flestum hlýna um
hjartarætur þegar þetta gerist og að „þessar raddir hinnar lifandi náttúru, séu
raunverulega fegursti söngurinn... .“ Síðan líkir hann ferðum farfuglanna
sunnan frá Miðjarðarhafi og Afríku til Íslands við átthagaást og tekur
samlíkingu við fólksstreymið úr sveitunum: „lýsir það ekki meiri eðlistryggð við
átthagana, en algengt er orðið nú á tímum hjá fólkinu. Fuglarnir hafa lifað þar
í sól og hlýju yfir veturinn, en svo er eðlishvötin og átthagaþráin þróttmikil, að
hún gefur þeim byr undir báða vængi hingað norður, sem kuldar og vorhret