Húnavaka - 01.05.2010, Page 120
H Ú N A V A K A 118
mæta þeim, en hér eru líka átthagarnir, með miðnætursól og töfraljóma.“
Ágúst viðurkennir að það sé gott fyrir unga fólkið að sækja sér menntun, birtu
og gleði til þéttbýlisins á haustin, svipað og fuglarnir sem fljúga suður um
höfin, en munurinn er bara sá, segir Ágúst, að ungmennin skila sér ekki aftur
heim þegar vorar og útiverkin kalla.
Ingibjörg Sigfúsdóttir (1909–2002) í Forsæludal tekur nokkuð annan pól í
hæðina í langri grein um skemmtanir í ársbyrjun 1932 þótt ástæða skrifanna
sé hin sama. Hún fer fyrst yfir þá möguleika sem sveitafólk hefur til upplyftingar
og segir að lítið sé um eiginlegar skemmtanir inni á heimilum þótt sumir grípi
í bók, taki í spil eða jafnvel syngi fyrir sig og aðra. Ingibjörg lítur með vissum
söknuði til kvöldvökunnar og telur skynsamlegt að endurvekja hana þótt í
eitthvað breyttu formi sé. Þannig njóti til dæmis fleiri góðrar bókar en sá einn
sem les. Hún víkur síðan að skemmtunum utan heimilis og finnst þar um
fremur snauðan garð að gresja. Helst séu haldnar dansskemmtanir en engir
séu hljómleikarnir, kvikmyndasýningarnar og nær engar leiksýningar. Það sé
ekkert að því að dansa en fleira verði að koma til svo ungt fólk uni í sveitinni
á þeim miklu breytingatímum sem gangi yfir. Ungt fólk þrái og þurfi
skemmtanir og félagslíf en aðstöðuleysið sé algert. Hún ræðir í því sambandi
skort á funda- og samkomuhúsi og finnst eldri kynslóðin standa í vegi fyrir
byggingu þess. Lokaorð hennar eru beitt: „það er nú svo að sjá sem hinni eldri
kynslóð sé ósárt um þó æskan kveðji sveitirnar, svo er að því unnið, af ýmsum
í þeim flokki, og á ýmsan hátt, að gera kjör æskunnar í sveitunum óviðunandi,
svo hún verði, nauðug, viljug að flýja á náðir kaupstaðanna.“
Undir þetta sjónarmið Ingibjargar áttu fleiri eftir að taka. Ásgrímur
Kristinsson (1911–1988) í Ási, síðar á Ásbrekku, var þeirra á meðal og hann
gekk svo langt að tengja annars vegar saman náttúrufegurð Vatnsdals og
heiðanna suður undan og baráttuna gegn búsetubreytingunum hins vegar.
Hann lýsir árið 1933 ímyndaðri skemmtiferð fram að Friðmundarvötnum og
dregur upp nokkrar myndir af heiðakyrrðinni og fegurð fjarskans:
sjálf heiðin með sínum speglandi vötnum og hreimþýða svanasöng og
fjöllin og jöklarnir sem blámar fyrir í fjarlægðinni, hafa fólginn í sér
þann mátt er laðar og seiðir okkur lengra og lengra inn að hjarta
hinnar íslensku náttúru. ... Það er margt sem ber fyrir hugann fagurt
og nýstárlegt, og svo allt í einu finnum við leika um okkur, þennan
hlýja og hreina fjallablæ sem lyftir huganum hátt og vekur gleði og þrá
hvers manns... . Allt í einu segir einn. „Finnst ykkur nú ekki að sveitin,
með öllu því, sem hún hefir að bjóða, þessi yndislegi vormorgunn og
margir slíkir, geti nú jafnast á við kaupstaðarlífið, bíóin, leikhúsin,
kaffihúsin, og margt fleira?“ Flestir eru á sama máli um það, að varla
geti fegurri stundir en þessa.
Undir lok ferðarinnar er komið kvöld, svanahópur flýgur hjá og eykur
„söknuðinn í brjóstum manna, og þrána eftir fleiri slíkum dögum.“ Einn
ferðafélaganna vekur máls á því að líf svananna við fjöllin og heiðarnar sé
öfundsvert. Undir það er tekið en jafnframt bent á að forráðamenn séu að