Húnavaka - 01.05.2010, Page 121
H Ú N A V A K A 119
„þoka okkur saman, nær kaupstöðunum, og draga okkur frá fjöllunum
yndislegu (með sinni fagurmælgi).“ Enn er samsinnt, „allir finna sannleikann
sem felst á bak við þessi orð, og enn líður söknuðurinn yfir huga fólksins, það
rennir huganum, yfir liðna tímann, og ber sig saman við síðustu kynslóðir, og
finnur að það tapar, skortir manndóm á við forfeður sína.“ Tilbreytingarleysið
í sveitinni átti að dómi Ásgríms stóran þátt í því að hrekja unga fólkið til
Reykjavíkur eða annarra kaupstaða þar sem meira var um að vera.
Dæmin sem hér hafa verið tekin eru til marks um sterka samkennd
bændafólks sem fannst sér ógnað. Það reyndi hvað það gat til að sannfæra sjálft
sig og aðra um gildi þess sem það taldi mikilvægast og best, ungum sem
öldnum. Í huga þessa fólks var samvitund húnvetnskra sveitamanna öruggt
merki um hið sanna Húnvetningseðli, í sveitunum átti það rætur sínar og þar
var því best borgið um fyrirsjáanlega framtíð. En baráttan gegn búsetubreyting-
um tuttugustu aldar hlaut að tapast og smám saman hætti húnvetnskt sveitafólk
sem aðrir að líta á þéttbýlið og þéttbýlisbúa sem afætur á heilbrigðu samfélagi.
Um leið breyttist og breikkaði samvitund Húnvetninga, hin „félagslega heild“
(með orðum Rósbergs) tók á sig fleiri og fjölbreyttari einkenni og þannig mun
áfram verða. Um það og fjölbreytta farvegi húnvetnskrar samvitundar nú á
dögum mun ég vonandi ræða síðar á þessum vettvangi.
Lokaorð þessa greinarkorns skulu sótt til Húnvetningaljóða. Þau og aðrar
slíkar bækur voru augljóst viðbragð við
breyttu umhverfi og í þeim birtist einlæg
og rómantísk sýn til þess sem var, ákveðin
fortíðarþrá, ekki síst hjá þeim sem
brottfluttir voru. Meðal höfunda í
Húnvetningaljóðum var ung skáldkona sem
átti eftir að verða mest lesni höfundur
Íslands ef marka má útlánatölur
Borgarbókasafns Reykjavíkur. Sá höfundur
var Ingibjörg Sigurðardóttir (1925–2009),
fædd í Króki á Skagaströnd, en bjó í
Sandgerði frá því hún var rúmlega tvítug.14
Hún hugsar sterkt heim í samnefndu kvæði
sínu í Húnvetningaljóðum og ósk hennar um
afturhvarf til heimahaganna að lokinni
jarðvist rættist þegar hún var jarðsett í
Hofskirkjugarði á liðnu sumri. Orð
Ingibjargar eru góður samnefnari þess
sem hér hefur verið reifað og rætt.
14 Um Ingibjörgu Sigurðardóttur og skáldskap hennar hefur Bára Magnúsdóttir skrifað
prýðilega ritgerð sem birt er á Bókmenntavefnum, www.bokmenntir.is.
Ingibjörg Sigurðardóttir