Húnavaka - 01.05.2010, Page 122
H Ú N A V A K A 120
Hugsað heim
Eftir Ingibjörgu Sigurðardóttur
Hugur minn leitar á húnvetnska slóð,
því heima er tekið að vora,
og þrá mína flétta í fátæklegt ljóð
á flugi til æskunnar spora.
Þar brosir þú móti mér, björt eins og fyrr,
ó, blessaða sveitin mín kæra!
Að öllu því helgasta opnar þú dyr,
sem átt getur móðir að færa.
Vorklæðið fegursta faðmur þinn ber,
og fléttað í angandi rósum.
Já, til er ei neitt, sem eins töfrandi er
og tign þín á vordögum ljósum.
Fagurblá vötnin og fossandi ár,
sem falla við blómstruðu túnin.
Í heiðinu mynnast við himinninn blár
og háfjalla gnæfandi brúnin.
Eg elska þig, sveitin mín, indæl og góð
og allt, sem þú hefur að bjóða.
Eg elska þig klædda í árroðans glóð
og aftnana kyrrláta og hljóða.
Eg elska þín fjöll, já, hvern einasta stein,
eg elska hvert blóm, sem þig skreytir.
Eg elska þitt sumar með sólbrosin hrein,
þeirri sýn aldrei fjarlægðin breytir.
Þótt langt sé eg frá þér að líkama til,
er létt mínum huga að fljúga.
Þá síðast við jarðneska sviðið eg skil,
mín sála mun heim til þín snúa.
Því átthagatryggðin er traustari en hel,
þau tengsli ei fjarlægðin slítur.
Svo gang þinna barna eg gæfunni fel
og gengi, sem aldrei þeim þrýtur.