Húnavaka - 01.05.2010, Page 127
H Ú N A V A K A 125
ákveðnum hætti hér þá þarf það ekki að vera eina mynd þess eða endilega sú
réttasta.“
Þeir Haukur og Pálmi leiðrétta nöfn á ýmsum örnefnum hjá mér og mun
það flest réttmætt. T.d. er mér alveg hulið hvernig villunafnið Leynir (sbr. grein
Hauks bls. 150) hefur slæðst inn á kortið á bls. 81 og Dagmálavarða (sbr. grein
Pálma, bls. 119) heitir vitanlega Dagmálahóll.
Um örnefni var annars mest farið eftir Örnefnaskrám í safni Örnefnastofn-
unar. Þessar skrár eru merkar heimildir um viðkomandi jarðir, benda til
búshátta og gefa m.a. vísbendingar um ferðaleiðir og nýtingu landsins. Er
ástæða til að benda á þessar skrár enda er starfsfólk á Örnefnastofnun boðið
og búið að greiða fyrir fólki sem vill komast í þær.
Í örnefnaskránum kemur stundum fyrir að einstakir heimildarmenn eru
ekki sammála um nöfn. Það á m.a. við um örnefni við vestanvert Húnavatn,
sem Pálmi drepur á í sinni grein (bls. 119), að þar virðast ólík nafnakerfi vera
til staðar. Haukur getur um Bekrangursstall (bls. 151) sem hann nefnir Ber-
angursstall. Í örnefnaskrá eftir Ágúst B. Jónsson á Hofi er talað um Bekransstall
en í örnefnaskrá eftir Sigurð Erlendsson á Stóru-Giljá um Bekrangursstall og
það nafn var mér kennt þegar ég fór fyrst í Sauðadalsgöngur. Í svörum við
fyrirspurnum um þá skrá eru mörk Sauðadals miðuð við Hrútaskálarkletta en
í landamerkjabréfinu frá 1883 er miðað við Skertlur og eru umræddir klettar
neðan eða utan í þeim (sbr. grein Hauks bls. 151). Þannig að hér skeikar nú
ekki miklu. Vegna ummæla Hauks um sel á Sauðadal (bls. 151-153) skal tekið
fram að þess var getið að ýmislegt væri „á reiki um heiti þeirra“ (bls. 85).
Um áttir
Helsti vandinn við áttir í sýslunni er að ár og dalir liggja yfirleitt nálægt því frá
norðvestri til suðausturs miðað við kompásáttir og sjaldnast beint. Þegar svo
háttar til skapast blæbrigðamunur á áttatáknunum milli einstakra sveita og er
það alþekkt. Þeir Pálmi og Haukur taka mig nokkuð harkalega á beinið fyrir
að snúa Vatnsdalshólum og Vatnsdal skakkt, þannig að ég sveigi örefni og bæi
um 90 gráður til vesturs. En vandinn er sá að hlutirnir vita nokkuð öðru vísi
við séð utan af Ásunum, þar sem ég er alinn upp. Ég held líka að þessi „villa“
mín valdi ekki stórkostlegum misskilningi hjá vegfarendum.
Það er snúið fyrir einn mann, með ákveðið áttakerfi innbyggt, að fjalla
þannig um áttir í hinum ýmsu sveitum að fullkomlega verði komist hjá
ónákvæmni. Við þessu reyndi ég að gera með varnagla (bls. 228), sem þeir
félagar hafa líklega ekki lesið, þar sem segir: „Líku máli gegnir um áttatáknanir
sem geta verið nokkuð flóknar, einkum þar sem fjöll og dalir liggja frá suðaustri
til norðvesturs, en þá eru hefðbundnar kompásáttir oftast notaðar á annan veg
en vanalegt er.“
Varðandi álitamál um áttir þá væri þarft að ritstjórn Húnavöku fengi menn
í hverri sveit til að lýsa áttatáknunum hvern á sínu svæði.