Húnavaka - 01.05.2010, Page 155
H Ú N A V A K A 153
Stuttu síðar kemur dansfélagi minn með risastórt fat hlaðið að rjúkandi
hangikjöti. Ég held að ég hafi eitthvað lækkað í sætinu. Hún bauð hressilega
góðan dag og tókum við undir það en það furðulega skeði að ég þakkaði fyrir
síðast og fékk „sömuleiðis“ til baka og fallegt bros. Þá sagði konan: „Nú varst
það þú sem varst svo duglegur að dansa í nótt.“ Síðan bauð hún okkur að
gjöra svo vel og njóta matarins. Þetta þurfti hún ekki að endurtaka, það fóru
þrír gaflar á loft í einu og þvílíkur matur. Þetta var veisla. Ég hugsaði sem svo
að þetta væri fyrsti alvörumaturinn síðan við vorum í Valþjófsdalnum.
Ég fór að hugsa hvernig á því stæði að það kæmi maður úr landi ofan í bát
til að bjóða okkur í mat. Síðan var búið að leggja á borð fyrir okkur og sjóða
þessi ósköp af hangikjöti og konan sagði að það væri gott að við værum
komnir og hvað ég hefði verið duglegur að dansa. Loksins kviknaði á perunni.
Vinkona mín, sem hafði spurt mig svo ítarlega út í jólahaldið um borð og að
lokum veitt upp úr mér að við hefðum bara haft vatn og gamalt fransbrauð,
hlaut að hafa sagt frá öllu heima hjá sér. Síðan hafi húsbóndinn verið sendur
til að sækja okkur í almennilegan mat. Fólkið talaði um heima og geima og við
borðuðum af kappi og stöðugt ýtti frúin að okkur „og blessaðir reynið nú að
borða“. En nú fór að hækka í mönnum. „Nei, ekki meira takk.“ Þá fór frúin
fram og kom til baka með stóra skál fulla af rauðgraut með rúsínum í. Hún
fékk okkur skálar og bað okkur að gjöra svo vel. Nú fannst mér mælirinn fullur.
Við urðum samt að fá okkur smá ábót. Vinkona mín setti sína skál á hvolf og
það hefði ég gert líka hefði ég þorað. Ég var orðinn pakksaddur og lenti í
hálfgerðum vandræðum með grautinn en við höfðum varla lokið honum
þegar kaffikanna kom á borðið.
Og áfram héldu samræðurnar. Það kom fljótt fram að húsbóndinn var
sjómaður frá barnsaldri, svo biluðu fæturnir og þá varð hann bara að fara í
salthúsið. Þarna taldi ég mig fá skýringu. Hann hefur sjálfsagt verið búinn með
sinn þrældómskvóta og þess vegna sýnst eldri en hann í raun var en ég var
búinn að furða mig á því, hvað virtist mikill aldursmunur á þessum elskulegu
hjónum. Halli fór að tala um hvort Krossavíkin væri ekki erfiður lendingarstaður.
„Ekki svo mjög fyrir kunnuga, jú, menn verða að þekkja hana.“ Mér datt í hug
maðurinn sem fór með okkur inn fyrir þegar við komum á svæðið, hann hefur
ábyggilega þekkt Krossavíkina sem hefur verið þrautalending Sandara frá
ómuna tíð og þar urðu ekki svo mörg óhöpp. Húsbóndinn hélt áfram að fræða
okkur. Verst var eftir að dekkbátarnir komu, úr þeim var ekki hægt að landa
nema á flóðinu og varð því annað hvort að bíða eftir flóði eða landa á skektum
og bera svo allan fiskinn upp í hús en það var bæði erfitt og sukksamt. Svo
þurfti auðvitað að leggja bátunum hverjum við sín legufæri og fara svo í land
á skektum eða prömmum. Í vondum veðrum voru menn að fara um borð til
að líta eftir og hagræða legufærum og þá urðu stundum hörmuleg slys því
menn fóru kannski á lélegum skektum og jafnvel prömmum sem ekkert réðst
við ef eitthvað var að veðri og einhvern tímann drukknaði heil skipshöfn í
fjörunni í svoleiðis ferð.
Á árabátaöldinni var aðallendingin á Brekkum en sá staður er utan til við
mitt þorpið. Sá galli er þar á að fjaran er undir hárri brekku eða bakka en hún