Húnavaka - 01.05.2010, Page 156
H Ú N A V A K A 154
er bara rúmlega bátslengdin og svo varð að bera allan fisk í seilarólum eða á
herðatrjám upp einstigisgötu í brekkunni. Ef brimaði varð að draga bátana
upp í bakkann þar til þeir stóðu nánast upp á endann og þar átti hvert skip
sinn festarhæl sem var grafinn í brekkubrúnina og í hann var skipið bundið.
Ég er hræddur um að það hafi fallið margir svitadropar við þessar aðstæður en
þeir voru nú ekki svo dýrir í þá daga. En á brekkubrúninni stendur einstakur
steinn, stór og mikill, gæti verið þrjú til fjögur tonn eða meira á þyngd. Þennan
stein notuðu menn sem leiðarmerki við landtöku í brimróðri því hann sást
langt að.
Ég kom á Hellissand fyrir allnokkrum árum og fór út í Krossavík en þekkti
mig varla þar. Það var búið að steypa þessi lifandis ósköp sem vafalaust hefur
átt að vera varnargarður en aldrei komið að gagni, því um þetta leyti færðist
höfnin að Rifi sem var kölluð landshöfn. Ég fór síðan að Brekkulendingunni
og þar var stóri steinninn sem einu sinni hafði verið ýtt fram af bakkanum í
galsa aðkomupilta sem ekki vissu hversu merkilegur þessi steinn var í raun og
veru. Það er merkilegt hvað annars mætustu menn eru oft blindir fyrir
náttúrunni og gömlum minjum. En gamlir Sandarar komust í málið og ekki
síður brottfluttir. Það er ekki ólíklegt að einhverjir þeirra hafi notið þessa
leiðarmerkis á sínum æskuárum. Steinninn stendur því á sínum gamla stað og
nú er búið að setja á hann myndarlega áletraða koparplötu og heimamenn
gengið varanlega frá leiðarsteininum en á hann er letrað:
Stendur einn í stormi og hríð,
stuðning veitir rekkum,
leiðarsteinn frá landnámstíð
við lendinguna á Brekkum.
En áfram skal haldið frásögninni. Húsbóndinn var alveg klár á söguna. „Já,
svo var náttúrulega Keflavíkurlendingin hérna handan við þorpið. Þaðan var
alltaf róið eitthvað en þar urðu líka hörmuleg slys.“ Við spurðum ekki mikið
en hlustuðum þeim mun betur en nú fannst okkur vera kominn tími til að hafa
sig á braut en ósköp hefði verið notalegt að sitja lengur hjá þessu elskulega
fólki. Við þökkuðum fyrir okkur en þá segir frúin. „Þið komið svo í kvöldmat.“
Það kom á okkur vandræðasvipur en þá segir hún. „Við vorum búin að lofa
kaupfélagsstjóranum að hafa ykkur í fæði í vetur.“ Nú urðum við allir
kjaftstopp. Blessuð konan sagði eitthvað fleira en hún var þá búin að bíða eftir
okkur öll jólin. Hún sagðist bara hafa haldið að við vildum vera útaf fyrir
okkur yfir hátíðina og hefur sjálfsagt haldið að við værum með veislukost en
komst að hinu rétta eftir samtalið við dóttur sína sem hló nú líklega að
vandræðasvipnum á okkur er stóðum þarna steinþegjandi eins og saltstólpar.
„Hann hefur bara gleymt að láta ykkur vita“ sagði húsbóndinn, „hann er
stundum svolítið utan við sig, blessaður.“ „Jú, jú, við komum þá í kvöldmat
fyrst svona er, annars erum við búnir að borða fyrir marga daga,“ sagði Halli.
„Uss, hvaða vitleysa og ykkur veitir varla af því“ sagði frúin. Við löbbuðum
svo í rólegheitum um borð.