Húnavaka - 01.05.2010, Page 157
H Ú N A V A K A 155
Ég fór nú að hugsa og þóttist vita að ef Halli minn hefði minnst á kost í
kaupfélaginu þegar við komum hefðum við örugglega fengið hann og mjög
lík lega verið sagt hvert við ættum að fara í mat. Í þessu hundrað manna þorpi
vissu allir allt um alla og fólk því vitað hvar við áttum að vera. En hæversk an
hans Halla míns var mikil og kannski einum um of en aldrei skal ég lasta
hann.
Nú sýndust mér veðrabrigði í nánd og fór ég að hitta flugafgreiðslumanninn.
Honum sýndist það sama og mér, taldi líklegt að vélin kæmi daginn eftir sem
var 29. desember. Hann sagði mér að mæta við Kaupfélagið klukkan tíu
morguninn eftir. „Við komumst þá að því hvort hún kemur eða ekki“ sagði
hann og kímdi til mín.
Ég fór út í Krossavíkina til félaga minna og sagði þeim tíðindin. Jú, Halli taldi
að nú væri loksins að ganga niður enda tími til kominn. Við fórum svo í kvöldmat
og sögðum frá þessum líkum um flugið en blessuð konan áminnti mig að koma
og fá kaffisopa áður en ég færi og játaði ég því, allavega kæmi ég til að kveðja.
Morguninn eftir vaknaði ég tímanlega en það var og er minn barnsvani að
láta aldrei bíða eftir mér. Ég leit upp til himins eins og gamall formaður. Það
var logn og sást varla ský á himni og taldi ég því fullvíst að nú kæmi vélin.
Þegar mér fannst tími til kominn kvaddi ég félaga mína, þakkaði samveruna
og óskaði þeim alls hins besta. Síðan labbaði ég af stað léttur í spori, ég hafði
þó gert eitthvert gagn. Farangur minn var hefðbundinn. Það voru nærföt og
peysa sem ég hafði í pokaskjatta, því alltaf getur blotnað í mönnum sem eru á
sjó og þá er gott að hafa eitthvað þurrt að fara í. Ég var fljótlega kominn til
vina minna og ekki stóð á kaffinu og meðlætinu. Þegar mér fannst tími til
kominn stóð ég upp og fór að kveðja og byrjaði á frúnni. Hún rak mér
rembingskoss á kinnina og bað mér guðsblessunar og þakkaði fyrir góð kynni
þó stutt væru. Þá var það nú heimasætan. Jú, ég herti mig upp og kvaddi hana
á sama máta og móðurina og hún þakkaði fyrir skemmtunina og þá var það
húsbóndinn. Hann tók hraustlega í hendina á mér, alvarlegur í bragði og bað
guð að vera með mér á sjónum í framtíðinni og það hefur hann gert.
Ég flýtti mér út því þetta hafði verið alvöruþrungin stund. Þarna kvaddi ég
mjög hlýlegt og elskulegt fólk sem ég mundi sennilega aldrei sjá aftur og sú
varð líka raunin. Síðan hraðaði ég mér að Kaupfélaginu og þar var afgreiðslu-
maðurinn að tína eitthvert dót í gamlan bíl. Hann sagði: „Nú kemur hún
loksins og sestu bara inn í bíl, ég kem rétt strax.“ Hann kom svo og ók út á völl.
Flugvélin kom fljótlega og stuttu seinna vorum við komnir í loftið og innan
skamms til Reykjavíkur en þar gisti ég um nóttina.
Morguninn eftir var lagt af stað í rútu. Eitthvað heyrði ég í það hjá bíl stjór-
an um að færið væri ekki gott. Ég lét mér það í léttu rúmi liggja, það yrði fjanda-
kornið ekki verra en sjóferðin fyrir Vestfirðina. Fólk fór að tínast í bílinn. Það
var ekki margt og þekkti ég ekki nokkra manneskju. Síðan var ekið af stað og
gekk ferðin tíðindalaust en frekar rólega upp í Fornahvamm. Þar fór fólkið inn
að fá sér einhverja hressingu en ég taldi mig ekki geta það. Ég hafði gengið svo
nærri ferðasjóðnum við kostkaupin á Patreksfirði að þær fáu krónur sem ég átti
eftir urðu að duga fyrir væntanlegu fargjaldi frá Blönduósi til Skaga strandar.