Húnavaka - 01.05.2010, Page 159
H Ú N A V A K A 157
kæmi bíll á móti okkur, annar þeirra hefur líklega verið búinn að ganga frá því
fyrr um daginn. Ég spurði einskis, hélt bara mínu striki og hægði svo á mér
annað slagið. Annar mannanna var með vasapela sem hann tók upp og bauð
okkur en ég afþakkaði enda vissi ég varla hvað áfengi var. Ég held að þeir hafi
notað þetta sem nokkurs konar startvökva. Það puðaðist nú alltaf í áttina enda
færið gott og oft auður vegur en þegar kom að sköflum fóru þeir félagar alltaf
að tala um Vegagerðina og ráðamenn og vönduðu þeim ekki kveðjurnar. Þeir
stoppuðu svo öðru hvoru, fengu sér startvökva og svo var haldið áfram.
Mér er nær að halda að þessi leið hafi ekki verið opnuð nema einu sinni í
viku og þá fyrir póstbílinn en honum ók líklega Ágúst Jónsson. En vafalaust
hafa strákar verið að basla eitthvað á jeppum því margir áttu erindi á
Kvennaskólann. Tíminn leið og alltaf var ein bæjarleið að baki. Nú fórum við
að nálgast Hafursstaði og þá sá ég bílljós uppi á brekkubrúninni. Ég greikkaði
sporið og það gerðu félagarnir líka. Þegar að brekkunni kom sá ég að þar voru
mikil umbrot eftir jarðýtu og þóttist ég sjá, þó dimmt væri, að brekkan væri
eins og vanalega slétt af brún og suður fyrir tún. Þarna höfðu myndast mikil
göng en síðan allt skafið fullt. Ég óð í göngin en snjórinn var svo laus að ég
sökk strax upp í klof. Þá kraflaði ég mig upp úr þeim og upp á skaflinn sem
hélt uppi mínum 65-70 kílóum. Ég kallaði til samferðamannanna og sagði
þeim að fara fyrir ofan göngin. Þeir gerðu það og gekk bærilega en sukku
stundum dálítið í. Og nú heyrði ég enn og aftur: „Andskotans asnar hjá
Vegagerðinni.“ Við komum svo að bílnum sem mig minnir að hafi verið Skafti
Björnsson á jeppa sem hann átti og gekk ferðin vel út eftir en eitthvert basl var
hjá Vindhæli og við Hrafnárbrúna. Fyrr en varði vorum við komnir á móts
við Brautarholt og þar fór ég úr og bauð borgun en þá sagði annar félaginn
að hann ætlaði að borga bílinn og líklega hefur sá verið búinn að panta hann.
Ég þakkaði fyrir mig og tók á sprett heim að Akri en þar bjuggu foreldrar
mínir.
Það var komin mið nótt er ég bankaði og kom móðir mín fram og opnaði.
Hún heilsaði mér hlýlega og þakkaði himnafeðgum fyrir að ég skyldi vera
lifandi. Ég heilsaði föður mínum og þá sagði gamli árabátaformaðurinn úr
Selvíkinni með hægð. „Það hefur nú ekki alltaf verið logn hjá ykkur, Gunnar
minn.“ „Nei það var bölvuð bræla alla leiðina“, meira var það nú ekki. Móðir
mín spurði hvort ég væri ekki svangur og ég sagði að svo væri þar sem ég hafði
ekkert borðað síðan ég fór frá vinafólki mínu klukkan sjö að morgni dags og
þá kom hún með brauð og mjólk sem ég hafði mikla þörf fyrir. Þau spurðu
frétta af sjóferðinni og ég sagði þeim að vegna veðurs hefðum við legið inni á
Önundarfirði í viku, Patreksfirði í aðra viku og svo beðið eftir flugvélinni á
Hellissandi í viku vegna veðurs. En ég passaði mig á að minnast ekki á
kostleysið og Halla vegna gerði ég það ekki við nokkurn mann.
Nú var þessi ferð sem átti að vera þrír dagar orðin að þremur vikum og
kominn gamlársdagur. Svona eftir á að hyggja var dálítið gaman að þvælast á
þessum litla báti þessa leið, í oft kolvitlausu veðri, og allir togarar í landvari.
En ég tek það aftur fram að Halli varði bátinn af mikilli snilld og forðaði okkur
frá öllum stóráföllum.