Húnavaka - 01.05.2010, Page 166
H Ú N A V A K A 164
Una Guðrún Jónsdóttir
frá Steinnýjarstöðum
Fædd 30. maí 1926 – Dáin 1. maí 2009
Una var fædd að Steinnýjarstöðum á Skaga. Foreldrar hennar voru Sigurlaug
Pálsdóttir og Jón Hinrik Árnason, bændur á Steinnýjarstöðum. Auk Unu
eignuðust þau soninn Stefán sem lést ungur og dótturina Ingiríði sem búsett
er í Kópavogi.
Una ólst upp heima á Steinnýjarstöðum við hefðbundin heimilis- og
sveitastörf. Hún flutti tæplega tvítug til Reykjavíkur
og vann m.a. hjá kjóla meistara en henni lét
saumaskapur afar vel enda var hún listræn og hög
í höndum. Hún vann stóran hluta starfsævi sinnar
á saumastofum eða saumaði fyrir einstaklinga og
verslanir. Hún hannaði m.a. og saumaði barnaföt
fyrir Vögguna, þekkta barnafataverslun.
Una eignaðist soninn, Stefán Hafstein Ingólfs-
son verkfræðing. Hann lést langt um aldur fram
árið 2004. Kona hans var Kristín Ísleifsdóttir og
eignuðust þau þrjú börn. Árið 1960 kynntist Una
Geir Hafstein Hansen, vélstjóra og pípulagninga-
meistara. Þau gengu í hjónaband þann 2. sept-
ember árið 1960. Una og Geir eignuðust dótturina
Rúnu Soffíu. Maður hennar er Gylfi Pálsson. Þau eiga þrjú börn.
Una og Geir áttu heimili sitt lengst af við Digranesveg í Kópavogi og
bjuggu þar um sig af smekkvísi í góðu húsi. Heimili þeirra var prýtt fallegum
útsaumi eftir Unu. Hún hafði auk hannyrða mikinn áhuga á gróðri og
garðrækt. Hún naut þess að vinna í garði þeirra hjóna við ræktun,
gróðursetningu, fegrun og umhirðu. Una og Geir höfðu ánægju af því að
veiða og um margra ára skeið fóru þau til veiða í Vatnsdalsá og nutu þeirra
ferða í hópi góðra veiðifélaga. Una missti Geir mann sinn árið 1998.
Hún hafði gaman af dýrum, ekki síst hestum. Hún naut þess að spila á spil,
einkum bridge og vist og hún kunni því vel að vera í góðum félagsskap. Garð-
og blómarækt, hannyrðir og lestur góðra bóka voru henni mjög að skapi. Upp
úr 1990 tapaði Una mjög sjón og eftir það gat hún ekki, eða aðeins að litlu,
ýmislegt sem áður hafði veitt henni gleði og verið henni hugleikið.
Una var kona traust og jákvæð, hún var föst fyrir og stolt. Hún var gaman-
söm og sérlega stríðin og oft settu þeir eiginleikar hennar lit og líf í stundirnar.
Hún var jafnlynd, umburðarlynd og hugsaði vel um allt sitt.
Útför Unu Guðrúnar Jónsdóttur var gerð frá Kópavogskirkju þann 8.
maí.
Sr. Ægir Fr. Sigurgeirsson.