Húnavaka - 01.05.2010, Page 168
H Ú N A V A K A 166
Anna Karlsdóttir,
Blönduósi
Fædd 23. febrúar 1908 – Dáin 23. júní 2009
Anna fæddist að Þórormstungu í Vatnsdal og lést á Heilbrigðisstofnuninni á
Blönduósi, þá elst allra Húnvetninga. Foreldrar hennar voru Karl Jónsson
bóndi, uppalinn á Gunnfríðarstöðum í Svínavatnshreppi og kona hans,
Guðrún Sigurðardóttir frá Hamri í Svínavatnshreppi. Anna var næstelst af tíu
systkinum. Hún var Húnvetningur að ætt og uppruna og lifði þar og starfaði
alla sína löngu ævi. Hún ólst upp í sveitunum í nágrenni Blönduóss fram undir
tvítugsaldur, síðast að Kirkjuskarði í Laxárdal en þaðan fluttist hún á
Blönduós.
Árið 1929, giftist Anna Ellert Bergssyni, f.
1903, d. 1950. Anna og Ellert eignuðust tvö börn,
þau Sigtrygg f. 1931 og Herdísi f. 1934. Eiginkona
Sigtryggs er Brynhildur Friðriksdóttir. Þau eiga
börnin, Margréti Ágústu og Ellert Unnar.
Eiginmaður Herdísar er Jón Kr. Jónsson og sonur
hennar er Ellert Björn Svavarsson.
Þau Anna og Ellert hófu búskap á Blönduósi í
húsi sem kallað var Slétta og stóð skammt norðan
við Kvennaskólann. Á þessum árum var mikið líf
og fjör í Kvennaskólanum og kunni Anna því vel
að búa í næsta nágrenni hans og því lífi sem
honum fylgdi. Anna og Ellert bjuggu fyrstu
búskaparárin með þrjár kýr og nokkrar kindur,
eins og oft tíðkaðist á þessum tíma. Hún vann
smjör og skyr úr mjólkinni og seldi svolítið af afurðum til skólans.
Lengst af vann Anna ýmis þjónustustörf en um áraraðir vann hún á haust-
in í sláturhúsinu á Blönduósi. Hún hafði alla tíð mikinn áhuga á umhverfi sínu
og samfélagsmálum. Hún var ein af þessum vinnusömu, sístarfandi konum
sem nýtti frítíma sinn til gagns allt til loka. Eftir hana liggur fallegt handverk
sem ber gerandanum fagurt vitni, nánast fullkomið prjónles, þar sem engan
hnökra má á finna. Slíkt hlýtur að vera einstakt þegar haft er í huga að
prjónakonan var orðin 100 ára.
Öll búskaparárin sín bjó Anna með Herdísi, dóttur sinni. Fyrst bjó dóttirin
með ungan son hjá móður sinni í Sléttu en síðan frá árinu 1972 snerist dæmið
við og Anna bjó í skjóli dóttur sinnar og tengdasonar að Mýrarbraut 8 eða allt
þar til hún flutti á Heilbrigðisstofnunina á Blönduósi árið 1999, þá níræð að
aldri. Anna bjó alla tíð á Blönduósi og þar undi hún hag sínum vel. Hún unni
þessu byggðarlagi og var ákaflega þakklát fyrir að hafa fengið að njóta náttúru
héraðsins úr herbergisglugga sínum allt til dauðadags.
Útför Önnu Karlsdóttur fór fram frá Blönduósskirkju 4. júlí.
Sr. Ursula Árnadóttir.