Húnavaka - 01.05.2010, Síða 169
H Ú N A V A K A 167
Jón Ísberg,
Blönduósi
Fæddur 24. apríl 1924 – Dáinn 24. júní 2009
Í náttúrunni ríkja lögmál sáningar og uppskeru. Lífinu er sett mörk. En lífið
ber dulinn kraft til að magnast og endurnýjast. Mjór er mikils vísir og hið
smæsta korn veitir stundum að lokum fuglum himinsins skjól. Þekking, samfara
þolinmæði, getur hlúð að og stutt þann kraft. Sumum er ræktun líkt og í blóð
borin, rótgróin og meðfædd hugsun og starfi. Það gerir kannski uppruninn.
Fáar sveitir á Íslandi eru jafn gróðursælar og Eyjafjörðurinn. Þar átti Jón
Ísberg, sýslumaður Húnvetninga, fyrstu sporin, og fáir staðir, að undanskildu
Húnavatnsþingi og Blönduósi átti sterkari taug í honum en heimasveit móður.
Foreldrar hans voru þau Guðbrandur Ísberg frá
Snóksdal í Miðdölum og Árnína H. Jónsdóttir frá
Möðrufelli í Eyjafirði.
Á Möðrufelli sleit Jón barnsskónum en flutti
með foreldrum, 7 ára gamall, að Litla-Hvammi í
eitt ár áður en faðir hans gerðist sýslumaður
Húnvetninga á Blönduósi. Jón var þriðji í röð níu
barna þeirra hjóna, eldri voru þær Gerður og
Guðrún, en yngri þau Ari, Ásta, Nína, Ævar,
Sigríður og Arngrímur. Móður sína missti Jón 17
ára að aldri. Faðir hans lést árið 1984.
Eftir að námi í lögfræði lauk stundaði Jón um
skeið nám í London en hóf síðan störf hjá föður
sínum á Blönduósi. Til að byrja með mun það
hafa átt að vera til bráðabirgða en niðurstaðan
varð sú að þar varð vettvangur að löngum og gifturíkum embættisferli og
margháttuðum félagsstörfum í þágu héraðs og þjóðar. Hann tók við
sýslumannsembætti árið 1960 og gegndi því til vors 1994. Lengst af þá tíð var
hann oddviti sýslunefndar sem stýrði ýmsum framkvæmdum og umbótum í
Húnavatnssýslu. Hann sat í hreppsnefnd um áratugaskeið og var oddviti í 9 ár.
Það voru uppgangstímar og oft í mörg horn að líta. Blönduósbær heiðraði
hann með því að gera hann að heiðursborgara árið 2004.
Auk þess var Jón virkur í margvíslegum félagsmálum sýslumanna, lögfræð-
inga, Sjálfstæðisflokksins og margra fleiri, og sat um skeið á Alþingi sem vara-
maður. Hann var stofnfélagi í Lionsklúbbi Blönduóss og í Félagi lögfræðinga á
Norður- og Austurlandi 1994. Kirkjunni lagði hann lið sem og skátafélagi sem
hann stýrði um árabil.
Félagsstörfum Jóns verða ekki gerð skil sem skyldi enda mærð eða upp-
hafning ekki í anda hans en framganga hans þar var sömu einkennum bundin
og í sýslumannsstörfunum, að horfa umfram allt á manneskjuna og aðstæður
hennar af velvild. Hann átti gott með að slá á létta strengi með tækifærisræðum,
það var stutt í hlátur en aldrei langt í aðgát í nærveru sálar. Lífsviðhorfið