Húnavaka - 01.05.2010, Side 170
H Ú N A V A K A 168
endurspeglaðist í því að hann átti létt með að ná niðurstöðu í dómum, því
hann hélt því fram að horfa bæri á hag þeirra sem stærstan hlut áttu að máli,
jafnframt lagabókstafnum en það atriði var síðar lögfest sem helsta viðmið
dómarans.
Það var hamingjusól á himni er þau gengu í hjónaband, Jón og Þórhildur
Guðjónsdóttir frá Marðarnúpi, árið 1951. Foreldrar hennar voru hjónin, Rósa
Ívarsdóttir og Guðjón Hallgrímsson á Marðarnúpi. Heimili þeirra Jóns og
Þórhildar var gestkvæmt, höfðinglegt og hlýlegt í senn. Börn Jóns og Þórhildar
eru sex: Arngrímur héraðsdómari, maki hans er Marjatta Ísberg og eiga þau
þrjú börn, Eggert Þór, framkvæmdastjóri, maki er Sigrún Hanna Árnadóttir,
og þeirra börn þrjú, Guðbrandur prentari, Guðjón hagfræðingur, Jón Ólafur
sagnfræðingur, kvæntur Oddnýju I. Yngvadóttur og eiga þau þrjár dætur, loks
er Nína Rós, mannfræðingur, maki hennar er Samson B. Harðarson. Barna-
börnin voru Jóni mikið yndi á efri árum og ekki síst naut hann samvista við
þau á sveitasetri þeirra í Laxholti.
Andlátið bar að á Jónsmessu í Eyjafirði. Þar var fallinn gildur stofn í hún-
vetnskum lundi. Eftir stendur drjúgt ævistarf, ræktunarstarf á vettvangi dags-
ins, húnvetnskrar menningar og sögu. Jón Ísberg var jarðsettur á Blönduósi 3.
júlí.
Sr. Guðni Þór Ólafsson.
Gestur Guðmundsson,
Kornsá í Vatnsdal
Fæddur 20. september 1916 – Dáinn 27. júní 2009
Gestur Guðmundsson fæddist í Torfustaðakoti, síðar Sunnuhlíð í Vatnsdal.
Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi á nítugasta og þriðja aldurs-
ári.
Foreldrar Gests voru Guðmundur Magnússon bóndi í Torfustaðakoti, fædd-
ur 1874 í Auðunnarstaðakoti í Víðidal, dáinn 1934 og Guðrún Guðbrands-
dóttir, fædd 1883, alin upp í Refasveit en kom sem ráðskona í Torfustaðakot til
Guðmundar 1910 og þau giftu sig ári síðar, Guðrún lést 1968.
Gestur var Húnvetningur að ætt og uppruna og þar lifði hann og starfaði
alla sína löngu ævi. Systkini Gests voru; Björn f. 1913, Guðlaugur f. 1914,
Kjartan f. 1915, Magnús Gunnar f. 1917, Sigurður f. 1920 og Rannveig f.
1923. Af þessum stóra systkinahóp var Gestur fjórði í röðinni og lærði strax í
bernsku að allir verða að leggja lífinu lið, allir verða að taka þátt í að afla matar
og lífsbjargar, allir verða að standa sína vakt, með athygli, skerpu og útsjónar-
semi að leiðarljósi. Þessi viska æskuáranna fylgdi honum alla tíð.
Þann 20. september 1934 var mikill harmur kveðinn að fjölskyldunni en þá
á afmælisdeginum sínum missti Gestur föður sinn sem varð úti í aftakaveðri.
Þann 29. ágúst, árið 1953, kvæntist Gestur eiginkonu sinni, Kristínu
Hjálmsdóttur frá Hofsstöðum í Stafholtstungum í Borgarfirði. Kristín var