Húnavaka - 01.05.2010, Page 186
H Ú N A V A K A 184
Steinunn Anna fluttu til Reykjavíkur árið 2007 og hóf Ragnar Ingi störf hjá
Húsasmiðjunni í Skútuvogi og starfaði þar til ársins 2009.
Ragnar Ingi stundaði hestamennsku á Blönduósi í áratugi. Hann var for-
mað ur hestamannafélagsins Neista um skeið og reisti hann fyrsta hesthúsið í
Arnargerði, svæði hestamanna á Blönduósi. Hann var einn af stofnendum
Hjálparsveitar skáta á Blönduósi. Ragnar Ingi var meðlimur í Lionsklúbbi
Blönduóss um árabil. Þá tók hann þátt í starfsemi Leikfélags Blönduóss á
sínum yngri árum. Ragnar Ingi var í kjörstjórn á Blönduósi um áratugaskeið.
Hann tók talsverðan þátt í pólitísku starfi á Blönduósi, síðast fyrir H-listann.
Einnig gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum fyrir samvinnufélögin og verka-
lýðsfélög í Austur-Húnavatnssýslu.
Ragnar Ingi vann fyrir bændur í Austur-Húnavatnssýslu lengst af sinni
starfsævi. Hann sagði bændur vera gott fólk. Málefni þeirra og landsbyggðar,
Húnaþings og ekki síst Blönduóss, voru honum hugleikin.
Ragnar lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi og var jarðsunginn frá
Langholtskirkju þann 27. nóvember.
Guðmundur Ragnarsson.
Frímann Hilmarsson
frá Breiðavaði
Fæddur 26. febrúar 1939 – Dáinn 3. desember 2009
Guðmundur Frímann Hilmarsson, fæddist að Fremstagili í Langadal. Foreldrar
hans voru hjónin, Hilmar Arngrímur Frímannsson og Jóhanna Birna
Helgadóttir. Börn þeirra eru í aldursröð: Halldóra, þá Frímann, Anna Helga,
Valgarður og Hallur yngstur.
Frímann ólst upp hjá foreldrum sínum og systkinum við leik og hefðbundin
sveitastörf. Snemma kom í ljós að hann var mikið fyrir skepnur og ekki síst
hesta sem áttu hug hans allan. Hann var ekki hár í loftinu þegar hann fór að
snúast í kringum hross og temja með góðum árangri.
Frímann fór í Hólaskóla árið1958 en lauk ekki búfræðiprófi. Eftir veruna á
Hólum fór hann til sjós og átti eftir að gera það oftar á lífsleiðinni. Hann
kunni vel við sig á sjónum en sá galli var á gjöf Njarðar að sjómennska og
hesta mennska fara ekki nógu vel saman og því kaus hann frekar að vinna í
landi.
Árið 1963 hóf Frímann búskap að Breiðavaði í Engihlíðarhreppi með fyrstu
eiginkonu sinni, Guðrúnu Birnu Ásgeirsdóttur Blöndal. Þar bjuggu þau með
blandað bú, kýr, sauðfé og að sjálfsögðu hross. Frímann vann mikið utan
heimilisins, keyrði m.a. mjólkurbíl og steypubíl og var héraðslögreglumaður á
Blönduósi. Börn þeirra Frímanns og Guðrúnar Birnu eru: Hulda Birna fædd
1962, Steinunn Ásgerður fædd 1963, Kristján fæddur 1967 en hann lést árið
1999, Kristín fædd 1969 og yngstur er Hilmar Arngrímur fæddur 1973.