Húnavaka - 01.05.2010, Page 187
H Ú N A V A K A 185
Frímann og Guðrún slitu samvistum og þar með lauk búskaparárum hans á
Breiðavaði.
Frímann giftist Gerði Jónínu Hallgrímsdóttur og bjuggu þau saman í nokk-
ur ár, lengst af á Blönduósi en leiðir þeirra skildu einnig. Á þeim tíma var hann
lögregluþjónn en hann fór í Lögregluskólann árið
1979. Árið 1991 flutti Frímann til Sauðárkróks og
bjó með Kolbrúnu Jennýju Sigurjónsdóttur, eftir-
lifandi eiginkonu sinni, frá árinu 2000.
Frímann var myndarlegur maður, hár og herða-
breiður og sópaði að honum. Hann var geðgóður
og bjó yfir jafnaðargeði sem kom honum oft til
góða, hvort sem hann var að fást við baldin tryppi
eða róstursama stráka á sveitaböllum. Frímann
var traustur vinur, vinamargur og sér stak lega
hjálpsamur. Hann var mikið hraustmenni og
dugnaðarforkur sem dró aldrei af sér og gerði
miklar kröfur til sjálfs sín.
Frímann var dulur en jafnframt ræðinn, mikill
sögumaður og hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi. Hann söng í kórum á
sínum yngri árum, bæði kirkjukórnum á Holtastöðum og í karlakór. Hann las
mikið sér til fróðleiks og skemmtunar og var mjög minnugur. Hann hafði
mikið yndi af kveðskap og kunni ógrynni af ljóðum og vísum. Sjálfur var hann
ágætlega hagmæltur án þess að hann flíkaði því og hélt því miður vísunum
sínum ekki til haga.
Frímann var náttúrubarn, í honum blundaði ævintýraþrá sem þeir einir
þekkja sem hafa verið uppi á fjöllum og upplifað víðáttuna, fjölbreytileika og
fegurð náttúrunnar. Hann var tengdur landinu sterkum böndum, þekkti vel
söguna, örnefni og kennileiti. Hann var bílstjóri um árabil og keyrði flutn-
ingabíla og rútur um landið þvert og endilangt.
Hinn skæði sjúkdómur, krabbamein, sótti Frímann heim. Hann tókst á við
veikindi sín af miklu æðruleysi og kvartaði ekki undan hlutskipti sínu. Frímann
var jákvæður að eðlisfari og vonaðist til þess að ná heilsu að nýju en varð að
lokum undir eftir erfiða baráttu.
Sr. Sigríður Gunnarsdóttir.
Hjónaminning
Sigríður Kristín Árnadóttir og Júlíus Fossdal,
Blönduósi
Sigríður Kristín Árnadóttir fæddist 1. febrúar árið 1930 á Þyrnum í Glerár-
hverfi í Eyjafirði. Hún andaðist á dvalarheimilinu Hlíð 24. desember 2009 og
útför hennar fór fram frá Akureyrarkirkju þann 8. janúar 2010.