Lögmannablaðið - 01.06.2002, Blaðsíða 13
13L Ö G M A N N A B L A Ð I Ð
og ungmennum og myndbönd af skýrslutökum
vegna 12 ára barna og yngri hafa verið talin gild
sönnunargögn fyrir dómstólum. Aukinheldur
hlýtur lögreglan að geta kallað til sérfróða aðila
alveg eins og dómari. Þau ummæli í greinargerð
með frumvarpinu vekja furðu mína að réttarör-
yggis sé betur gætt við skýrslutöku fyrir dómi en
hjá lögreglu þar sem lögreglan heyri undir ákæru-
valdið! Til hvers eru lögregluskýrslur? Erum við
að hverfa aftur til rannsóknarréttarfarsins?
Þá verður að gera stóran greinarmun á því
hvort um er að ræða 17 ára einstakling eða 7 ára
gamalt barn. Það liggur í augum uppi að meðferð
slíkra mála hlýtur að fara eftir aldri viðkomandi
og að mínu mati eru efri aldursmörkin alltof há.
Það er spurning hvort ekki mætti miða til dæmis
við 12 ára aldursmark.
Samkvæmt 44. gr. laga nr. 19/1991 er megin-
hlutverk réttargæslumanna (rgm.) að gæta hags-
muna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu,
þar á meðal við að setja fram einkaréttarkröfur.
Gert er ráð fyrir að rgm. sé viðstaddur skýrslutöku
af brotaþola og síðan öll þinghöld í málinu, þó án
málfrelsis að meginstefnu til. Að mínu mati er
staða rgm. í mörgum tilfellum mjög óskýr og oftar
en ekki er um hreint sálgæsluhlutverk að ræða.
Mér er til efs að lögfræðingar séu eitthvað sérstak-
lega vel til þess hlutverks fallnir og tel reyndar að
betra væri að skipa brotaþolum talsmann með sál-
fræðimenntun að baki.
Til þess að rgm. geti rækt hlutverk sitt af kost-
gæfni, eins og ráð er fyrir gert í lögunum, þarf
hann að sitja öll þinghöld í málinu. Það er dulítið
undarlegt að sitja allan daginn án málfrelsis og
lítil lögfræði í því fólgin. Þá kemur stundum fyrir
að það „gleymist“ að senda rgm. tilkynningar um
þinghöld eða útgáfu ákæru. Ef til vill mun hagur
rgm. vænkast í komandi framtíð en einnig mætti
velta því upp hvort ekki megi hverfa til fortíðar og
treysta dómurum, sækjendum og verjendum fyrir
því að meðferð máls verði skammlaus. Rgm. getur
eftir sem áður gert bótakröfu og flutt hana fyrir
dómi.
Eins og að ofan hefur verið rakið þá tel ég í
stuttu máli að sá tilgangur laganna, að bæta réttar-
stöðu brotaþola hafi náðst, en með allt of miklum
viðbúnaði og tilkostnaði. Þann viðbúnað og til-
kostnað mætti að ósekju skerða verulega með því
að hverfa að meginstefnu til aftur til þess fyrir-
komulags sem var, þannig að frumrannsókn yrði
alfarið í höndum lögreglu og réttargæslumenn í
því formi sem þeir eru nú verði aflagðir.