Lögmannablaðið - 01.10.2006, Blaðsíða 12
2 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 3 / 2006
Mörður var á leið til Ameríku með lögmannafélaginu. Hlakkaði til að koma til lands frelsisins og losna við
eftirlits- og rétttrúnaðarsamfélagið í heila viku. Ekki var verra að ferðinni var heitið til San Fransiskó, borgar
Janisar Joplin og fleiri þekktra hippa. Sá Mörður fyrir sér margra daga bóhemlíf með frjálsum ástum í hinni
sólríku Kaliforníu.
Ferðin byrjaði nú ekkert sérstaklega vel því Mörður fékk sér aðeins of mikið neðan í því á leiðinni út.
Komst Mörður því fljótlega á trúnó og talaði hátt við litla hrifningu samferðamanna sem áttu sér enga
undankomuleið í 35 þúsund fetum. Formanni lögmannafélagsins, sem er þekktur fyrir rósemi og þolinmæði,
fannst nóg um leiðindi Marðar og spurði flugfreyjurnar hvort ekki væri möguleiki á millilendingu eða a.m.k.
að fá fallhlíf fyrir sig. Mál þetta leystist þó farsællega þegar svefntöflu var laumað í drykk Marðar og var hann
til friðs eftir það.
Þegar Mörður var vakinn eftir lendingu, timbraður og illa útlítandi, byrjuðu hremmingar hans fyrir alvöru
og stóðu þær yfir alla ferðina. Eftir að hafa tekið fingraför, mynd og skannað augun neitaði tollgæslan að
hleypa honum inn í landið þar sem útlit Marðar var ekki talið vera eðlilegt. Hann var háttaður úr hverri
spjör í leita að hugsanlegum eggvopnum eins og naglaklippum. Ekki fundust þó nein hættuleg tæki og tól
en það var samt ekki fyrr en ræðismaður Íslands í Kaliforníu mætti á svæðið að Merði var sleppt og var
hann leiddur skjálfandi út í rútuna sem beið ferðalanganna. Þar tók ekki betra við því þar beið amerískur
fararstjóri með rödd sem hentar ekki mönnum sem eru illa á sig komnir.
Mörður komst þó klakklaust á hótelið og ákvað að byrja á því að fara á barinn til að rétta sig við eftir
ósköpin. Gekk snurðulaust að panta viskí og allt var rólegt kringum Mörð þar til hann kveikti sér í vindli.
Starfsfólkið hrópaði og æpti og sýndist Merði að skvett yrði á hann vatni ef hann næði ekki að slökkva í á
ljóshraða. Hann skellti því viskíinu yfir vindilinn og í þann mund kom sjokkeraður þjónn sem tilkynnti
Merði að ekki væri reykt innanhúss í Ameríku. Mörður brá sér því út fyrir hótelið í sömu erindagjörðum en
ekki tók betra við því ekki má reykja innan 20 feta frá húsum. Þar sem San Fransiskó er þéttbýl var ekki
hægt að reykja í borginni enda hvergi meira en 40 fet á milli húsa. Mörður náði því ekki að reykja fyrr en á
fjórða degi og þá í óbyggðum Kaliforníu. Munaði litlu að skógareldar hlytust af reykingum Marðar þar.
Mörður var því frekar úrillur þegar kom að fræðilegum hluta ferðarinnar. Var jafnvel að hugsa um að
sleppa þeim þætti enda skildi hann litið í ensku og talaði enn minna. Ákvað þó að fara í fyrirhugaða ferð á
lögmannsstofu þar sem hugsanlega yrði boðið upp á veigar sem létt gætu lundina. Það brást þó einsog annað.
Amerísku lögmönnunum var tíðrætt um heimilislausa og pro bono vinnu þeirra í San Fransiskó. Þar sem
Mörður gat aldrei lært latínufrasana í deildinni vissi hann ekki hvað pro bono þýddi fyrr hann fletti því upp
eftir heimkomuna. Komst þá að því að hann hefði unnið pro bono meira og minna allan lögmannsferilinn
og skildi ekkert í því hvernig amerísku lögmennirnir gátu samt haft margar milljónir dollara í laun á ári.
Ekki varð Merði að ósk sinni um bóhemlíf og frjálsar ástir í ferðinni. Mörður sá hvorki hippa né konur
sem voru líklegar til ástarleikja. Sýndist honum íbúarnir vera sambland af útigangsmönnum, kínverjum
og hommum nema að þeir væru allt í senn. Til að bæta gráu ofan á svart var Mörður, sem hefur verið
þjakaður af hommafóbíu alla ævi, plataður á hommabar. Sat Mörður þar hnípinn og óttasleginn og fékk
að hanga í pilsfaldinum á kvenkynskollega. Lenti þó ekki í neinu enda hefur hann ekki fylgt tískunni og
var ekki í bleikri skyrtu eins og nokkrir kollegarnir að heiman. Sumir þeirra fengu meira að segja tilboð um
ættleiðingu, strokur á ýmsum stöðum og nafnspjöld með heimboði!
Ekki gat Mörður heldur nýtt ferðina sem sólarlandaferð. Þoka lagðist yfir San Fransiskó við komu Marðar og
létti víst ekki fyrr en við brottför hans. Hitinn var því ekki meiri en á góðum vordegi á Raufarhöfn þar sem
Mörður ólst upp. Kom það því Merði illa að hafa ekki tekið með sér önnur föt en einar stuttbuxur og tvennar
hawaiiskyrtur.
Af Merði lögmanni