Feykir


Feykir - 19.12.1984, Blaðsíða 5

Feykir - 19.12.1984, Blaðsíða 5
FEYKIR 5 Guðbrandur Þorkell Guðbrandsson: TRÖLLA SKAGI Á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar er hálendisbálkur mikill og víðast tignarlegur ásýndar. Árennilegur er hann ekki, en þó lágu um hann allnokkrar leiðir og sumar fjölfarnar, eins og síðar verður að vikið. Basalt er ráðandi bergtegund, enda tilheyrir hann allur hinni tertíeru myndun landsins. Ofan til eru fjöll og víða slétt og eins og þverskellt líkt og algengt er á Vestfjörðum, og má þar sjá leifar hinnar fornu tertíeru hásléttu. Allur er skaginn sundurskorinn af dölum og giljum, menjum hinnar kvarteru ísaldar, og má enn sjá í dalbotnum og skörðum leifar hennar í formi dal- og skálarjökla, sem eru hér mjög sterkur dráttur í svipmóti landsins. Þessi mikli skagi hefur á landabréfum og skólabókum yfirleitt ekki nafn sem heild, en í munni fólks sem býr í nánd við hann er hann yfirleitt nefndur Tröllaskagi. Eins og hér að framan er þegar getið um, lágu um skagann ótrúlega margar ferðaleiðir, og varsumstaðar all fjölfarið fyrrum, einkum er Hólar voru einskonar höfuðstaður Norðurlands. Eru leiðirnar því einna flestar miðaðar við þann áfangastað. Má þar nefna kunn nöfn eins og Heljardalsheiði, úr Svarfaðardal í Kolbeinsdal og þaðan til Hóla, Hólamannaveg sem annað tveggja var farin úr Barkárdal, upp Barkárdalsjökul og þaðan á Tungnahryggsjökul um Tungur og Víðinesdal til Hóla, eða farið var úr Skíðadal og þaðan á Hólamannaveg. Stundum var ekki farið um Hólamannaskarð á Hólamannaveg eftir Tungna- hryggsjökli, heldur snúið til suðurs um svokölluð Héðinsskörð, eða Héðinsskarð ofan í Hjaltadal. Hjaltadalsheiði var og fyrrum tíðfarin, svo og má nefna leiðir úr Svarfaðardal eins og Jökulshnúksleið. Fljótamenn, Ólafsfirðingar, Héðinsfirðingar og Siglfirðingar áttu jafnan mikið torleiði að sækja, hvert sem farið var. Siglfirðingar fóru til Fljóta um Siglufjarðarskarð, Héðinsfirðingar um Héðinsskarð og Héðinsdal, Ólafsfirðingar um Sandskarð og Lágheiði. Ur Fljótum lágu ýmsar Ieiðir, bæði mátti fara með ströndinni, og svo úr hinum ýmsu dölum, eftir því hvert förinni var heitið. Ólafsfirðingum sér í lagi svo og Héðinsfirðingum og Austur-Fljótabúum hefur þótt slíkt allmikill krókur, og fóru þeir því iðulega aðrar leiðir og styttri, þótt erfiðar og jafnvel mannskæðar væru. Til Svarfaðardals fóru þeir ýmsar leiðir, t.d. fram Hvarfdal i Austur-Fljótum um Syðsta-Vik. Einnigfóru þeir til Hóla fram Mjóafellsdal, um Ysta-Vik og Hákamba niður á Heljardal og Kolbeinsdal og þaðan til Hóla. Ur Kolbeinsdal var ýmist farið út dalinn og alfaraleið um Hálsgróf og niður hjá Víðinesi, eða um Almenningsháls ofan á Víðinesdal. Var síðari leiðin mun erfiðari, en líklega styttri. Um Hákamba var líka einnig farið til Unadals og jafnvel fremstu bæja í Deildardal. Var þá farið ofan jökla þá, er liggja í botnum þessara tveggja dala. Hin síðari ár hefur áhugi landsmanna á hálendi Islands og óbyggðum farið vaxandi, og varla er til sá hluti landsins, sem ekki er meira og minna farinn, a.m.k. að sumri til, og allmargir því orðnir vel kunnugir þessum landshlutum, sem áður voru nánast myrkri huldir í vitund landsmanna. Þó eru nokkrir hlutar landsins minna þekktir, og meðal þeirra er einmitt Tröllaskaginn og hinar ýmsu leiðir um hann. Hafa þær freistað nánari kynna þeirra, er byggja nágrenni skagans, og hafa menn lagt á það aukna áherslu hin síðari ár. Hefur enda aðstaða til þess batnað, bæði með nýrri samgöngutækni, svo og betri ferðabúnaði og þekkingu á slíkum ferðum. Til að stuðla að auknum kynnum við fjalllendi þetta hafa ferðafélög á svæðinu að forgöngu Svarfdæla sett upp gistiskála nærri Hólamannavegi, efst á Tungnahrygg við rætur svonefnds Péturshnjúks, og ætti tilkoma hans að auðvelda fólki ferðalög um svæðið, þótt betur hefði mátt varida til skálans sjálfs. Hákambaleiðin, sem að framan er nefnd, var mönnum nú til dags lítt kunn, þótt allfjölfarin hafi verið fyrrum. Nokkuð má þó kynnast henni af bókum, og má nefna að í Árbók Ferðafélags íslands um Svarfaðardal, sem ritstýrt var af Hirti bónda Eldjárn Þórarinssyni á Tjörn, var fjallað um margar framangreindra leiða og þá meðal annars um Hákambaleiðina. Má segja, að einmitt þessi bók hafi kveikt í mönnum löngun til kynna af svæðinu, bæði með ferðum og einnig frekari könnun á rituðum heimildum. Að forgöngu þeirra kunnu ferðagarpa Sigurþórs Hjörleifssonar í Messuholti og Friðriks A. Jónssonará Sauðárkróki, ákváðu nokkrir Skagfirðingar að kanna hvort unnt mundi að komast þessa leið á vélsleðum veturinn 1978. Sigurþór og Friðrik hafa saman og með öðrum farið vítt og breitt um hálendi íslands á vélsleðum, og eru því víða kunnugir, og þá ekki síður ráða þeir orðið yfir mikilli þekkingu á þessum farartækjum og ferðum á þeim, og hvernig best er að haga sér í slíkum ferðum til að forðast hættur og óhöpp. Þeir höfðu haft samband við nokkra menn í Fljótum, sem höfðu haft hugá þvísama,oghöfðu þeirsammælst um að hittast einhversstaðar á þessari leið ef unnt yrði að komast upp á hana beggja vegna frá. Til fararinnar var síðan valinn einn sunnudagur í marsmánuði, en einmitt á þeim árstíma er hvað hentugast að ferðast um á þessum farartækjum. Helgina áður en lagt var upp í aðalleiðangurinn fóru þeir félagar, Sigurþór og Friðrik ásamt Ingólfi Sveinssyni, sem títt ferðast með þeim, í einskonar forkönnun fram Kolbeinsdal og í Heljarbrekkur, sem menn töldu að óreyndu að kynni að reynast farartálmi. Könnun þeirra félaga leiddi í ljós, að unnt mundi að komast þessa leið, þótt hún kynni að vera torsótt í vondu færi. Svo vel vildi til.að þegarfarardagurinn rann upp, var hið fegursta veður, bjart og sólskin, en veðurspá gerði ráð fyrir að um kvöldið og nóttina myndi ganga til sunnanáttar og hláku, en menn töldu, að nógur tími myndi gefast þar til fararinnar áður en veður breyttist til muna, enda varð sú raunin á. I för með þeim þremenningum voru einnig Haraldur Friðriksson á Sauðárkróki, kunnur ferðagarpur, svo og skrásetjari þessara punkta, sem var og er ókunnur ferðum á vélsleðum og auk þess allskostar óvanur vetrarferðum. Þeir Sigurþór og Ingólfur óku þá á Yamaha vélsleðum, sem þá þóttu allgóðir til síns brúks, þótt nú til dags þyki víst sú útfærsla á sleðum ekki góð til ferðalaga, með svokölluðum rúllubeltum. Friðrik var þá á nýjum Ski- doo vélsleða með meiðum, sem þótti þá og reyndar enn hið mesta þing. Haraldur átti þá 30 hestafla Evenrude sleða og ók honum í för þessari. Skrásetjari ók svo á 30 hestafla Johnson vélsleða, sem er í eigu björgunarsveitarinnar á Sauðárkróki, og léði hún honum farartækið. Upp var lagt frá Smiðsgerði, í Kolbeinsdal. Er það næsti bær framan við Sleitubjarnarstaði, sem margir þekkja. Voru sleðarnir fluttir þangað á kerrum. Páll bóndi Pálsson í Smiðsgerði, sem manna kunnugastur er á dalnum, fylgdi leiðangursmönnum á leið fram undir þar sem stóð bærinn að Sviðningi, en hann eyddist í snjóflóði 23. des. 1925. Kvaddi hann okkur þar og óskaði okkur fararheilla. Fremur snjólítið var í dalnum, og varð að krækja nokkuð frani með ánni til þess að komast hjá að aka sleðunum á auðu, en það mun ekki vera þeim mjög hollt. I krókum þessum og beygjum reyndi strax á kunnáttu manna og lagni í meðferð sleðanna, og fór fljótt þannig fyrir undirrituðum, að hann datt af baki fararskjótans og lenti á fótunum ofan í krapablá við ána og vöknaði nokkuð. Þótti það skítt að þurfa að hætta við förina vegna þessa, skipti hann þá um sokka og lét sig hafa það að vera í sleðagallanum blautum, enda var besta veður, sólskin og logn, og þornaði gallinn því fljótt nokkuð vel. Eftir nokkra stund var komið að Heljarbrekkunum, og kom fljótt í Ijós, að sólbráðin hafði verið allmikil þar í brekkunum, enda liggja þær vel við sólu, og hafði bæði tekið upp snjó og var einnig nokkuð krepjað þar í brekkunum. Komu þá fljótt í ljós yfirburðir hins nýja sleða Friðriks, og átti hann létt með að komast þarna upp. Hinum gekk miður og þá sér í lagi óvaningnum, sem þetta ritar, en þó tól -it að klöngrast þarna upp með alla sleðana, þótt beita þyrfti köðlum sem með voru í förinni til dráttar. Var síðan haldið upp og austur Heljardalinn, í átt að Heljardalsheiði, sem í raun er fjallaskarð, sem f'arið er um ofan í Svarfaðardal. Þegar komið er inn milli fjalla i þessum hálendisbálki finnst mannskepnunni niikið um smæð sína gagnvart þessum risum, þar sem fjölmargir tindar ná í þrettán til flmmtán hundruð metra hæð, og hrikaleiki þeirra meiri en orð fá lýst. Snarbrattar skriður, hamrar og hengiflug gnæfa yfir manni, og á stundum finnst manni þetta allt ætli að steypa sér yfir mann og gleypa. Á þessum slóðum eru og margar hættursem þarf að varast, víða er slétt fram á hengiflug og hamrabrúnir, og í dinimviðri er ferðamönnum sérlega hætt við að álpast fram af slíkum stöðum. Víða eru brúnahengjur og skaflar, er steypst geta af stað af minnsta tilefni og orsakað snjóflóðaspýjur, sem geta gleypt ferðamanninn nieð húð og hári og lyki þar lífdögum hans á óhugnanlegan hátt. Þessi upptalning er ekki gerð til að hræða fólk, en enginn sem um slíkar slóðir ferðast skyldi þó gleyma þeim, ef förin á að reynast óhappalaus. Þegar fram í innsta hluta Heljardalsins var komið, var sveigt af leið til vinstri, og haldið upp allbrattar brekkur til norðurs. Þegar upp þær var komið, blasti við mikilfenglegt útsýni, þótt leiðangursmenn ættueftirað sjá það enn stórkostlegra í förinni. Á vinstri hönd eru Hnjúkarnir, fjallsröðullinn milli Kolbeinsdals og Deildardals. Er hann allur um og yfir eitt þúsund metrar að hæð. Slöður nokkuðer þarna í fjalllendið, þar sem við vorum nú staddir, og þar einn stakur hnúkur, sem nefndur hefur verið Deilir. Þótt það sé síðari tíma nafngift er hún ekki verri en hver önnur. Sitt hvoru megin hans er Deildardalsjökull, og hallar þar ofan í Deildardal. Norðar og vestargengurfram fjallshryggur sá, er endar í Ennishnjúk ofan við Höfðaströnd og er milli Deildardals og Unadals. Á hægri hönderu fjöllin fyrir botni Svarfaðardals og framundan Hákambarnir, sem eru í raun fjallsbrúnin vestan Svarfaðardals. Liggja jöklar að henni vestanverðri og í rauninni einnig að austan að nokkru leyti. A.m.k. munu vera þar hjarnskaflar og sísnævi. Ekki var til setunnar boðið, og héldu menn enn á brattan og var nú förinni beint á fyrirheitna landið. Hákambana sjálfa. Leiðin liggur hátt, um og yfir eitt þúsund metra yfir sjávarmál. Færi var allgott, nokkuð hart með köflum, eins og títt er þar sem hátt liggur, því vindar éru oft snarpir á þessum slóðum, og því oft mjög harðskafið og hryggjótt. Þegar komið var þar. sem einna hæst liggur, sá ofan í Skallárdalsbotn og niður í Svarfaðardal. Vestur af sást ofan í Skagafjörð. og þótti mönnum Tindastóllinn blessaður nokkuð sérkennilegur þaðan séð. Sýnt þótti að ekki væri unnt að fara áfram á sleðunum vegna kletta og klungurs nema leita eftir því, að komast ofan í Skallárdalsbotninn. Þar mun vera skálarjökull eða a.m.k. sísnævi. Var þó ekki gott að koma auga á leið til þess, en eftir nokkra leit fann’Sigurþór leið ofan um lítið skarð ofan i skálina. Þótti óvaningnum það all glæfralegt, og var uggur í brjósti hans en fór þó á eftir hinum. Friðrik hafði þann siðað vera jafnan aftastur, til þess að láta óvaninginn ekki vera síðastan og eiga á hættu að verða cftir einhversstaðar. Kom það sér vel á leiðinni upp úr og norður úr skálinni, því þar var krepjað, og settist það í beltið á sleðanum, og komst hann því ekki upp brekkuna norður úr, sem var allbrött. Þótti knapanum með ólíkindum, hversu sleðinn var rúinn öllum þrótti sínum, en Friðrik sá strax livað það var, og leiðbeindi um úrræði. Töfðumst við nokkuð við að pjakka úr beltinu, en þó tókst það, og komust við upp á brúnina á eftir þeim félögum. sem voru að byrja að undrast um okkur. Var undrritaður allsæptur eftir bardagann við sleðann. Friðrik lék aftur á inóti á alls oddi, og verður lengi minnisstætt þegar hann virti fyrir sér útsýnið, sem var ákaflega fagurt til allra átta, að hann sneri sér í ótal hringi. baðaði út höndum og hrópaði upp yfir sig: ,,Þetta er lífið maður”. Nú áttum við von á að fara að sjá til Fljótamanna, og fórum við því að skoða í sjónauka þær leiðir, sem við áttum von á að sjá þá fara um. Skoðuðum viðofan um Ysta-Vik ofan í Mjóafellsdal, hvort við sæjum nokkuð til ferða þeirra, einnig út og norður um fjallshryggina. ef þeir kynnu að hafa reynt að fara upp í Flókadal og þaðan suður, en hvortveggja kom til greina hjá þeim í upphafi. Gengum við á fjallshnjúk þarna norðan við Framhald á 7. síðu.

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.