Feykir


Feykir - 19.12.1984, Blaðsíða 8

Feykir - 19.12.1984, Blaðsíða 8
8 FEYKIR Minning Böðvars Emilssonar Bróðir minn, Böðvar Emilsson, er dáinn, hann lést á Sjúkrahúsinu á Sauðárkróki 11. nóvember s.l. eftir langvinnar þrautir og þjáningar, útslitinn af erfiði lífsdaganna, hvíldinni feginn. Böðvar var fæddur í Hamarkoti á Akureyri 20. desember 1904 og skorti því rúman mánuð í áttrætt þegar dauðann bar að. Foreldrar hans voru: Emil Petersen fæddur á Akureyri 1866 og Þuríður Gísladóttir fædd á Hofstöðum í Hálsasveit í Borgarfirði 1870, bæði dáin á Akureyri, hún 19. okótber 1908, hann 11. nóvember 1936. Foreldrar Emils voru: H.P. Emil Petersen, danskur að ætt og uppruna, beykir á Akureyri um árabil, hann dó í hafi á leið til Danmerkur sumarið 1866. Og Guðrún Jónsdóttir fædd 1835 í Pálmholti á Arskógsströnd. 1 Pálmholti bjuggu foreldrar hennar, foreldrar þeirra og niðjar alla nítjándu öldina og hluta af tveim þeim næstu. Guðrún var eyfirskra ætta. Þuríður, móðir Böðvars, var Gísladóttir smiðs og bónda á Hrísum í Flókadal í nær tvo áratugi, síðan á Grímarsstöðum í Andakíl. Hann var fæddur 1828 (Böðvarsson smiðs og bónda á Skáney), og Kristínar Sighvatsdóttur fædd 1844. Bæði voru þau Gísli og Kristín af Deildartunguætt. Böðvar var á fjórða aldursári þegar hann missti móður sína, hún dó af barnsförum þegar yngsta barnið hennar fæddist, systkinin sem jifðu hana voru átta, öll innan ellefu ára aldurs. Hamarkotsheimilið leystist upp og börnin fóru sitt á hvað. Böðvar fór fyrst að heiman nokkrum dögum eftir jarðarför móður sinnar. Fátæk hjón í Glerárþorpi, Pétur og Kristín búsett í Glerárholti tóku Böðvar í gustukaskyni til bráðabirgða, þar á heimili átti Böðvar góðu atlæti að mæta og gustukavistin entist honum í fimm og hálft ár. Þá komu boð frá föður hans, að Pétur í Holti var beðinn að skila drengnum heim á Strandgötu 39 þangað sem faðir hans bjó þá. Erindið við Böðvar var, að kominn var frændi loður lians úr Skagafirði og bauðst til að taka drenginn í fóstur og gera hann að uppeldissyni. Frændinn var Skarphéðinn Símonarson frá Litladal í Blönduhlíð. með honum fór Böðvar vestur í Litladal, en þótt Böðvari væri vel tekið í Litladal þá varð sú vist honum skammgóður vermir, Skarphéðinn drukknaði í Héraðs- vötnum þann 15. nóvember þá um haustið. Strax á næsta vori var-Böðvar sendur norður til föðursíns með langferðamönnum sem áttu þarna leið um. Það sama vor 1915, flutti Emil faðir Böðvars, að Bakkaseli í Öxnadal, ekki var hann kominn i dalinn þegar ferðamennina bar þar að garði og því brugðu þeir á það ráð að skilja drenginn eftir á Varma- vatnshólum, tveim bæjarleiðum utar í dalnum. Bóndinn á Varmavatnshólum, Karl Hall- grímsson, og Guðrún móðir hans sáu aumur á hraknings- drengnum og réðu hann til sín sem smala um sumarið og síðan léttadreng árið út. Næstu árin var Böðvar vistaður á ýmsum bæjum í Öxnadal og nefndur léttadrengur í kirkjubók, á þeim árum fékk hann oftast nokkuð í sig en lítið á, fólkið í Öxnadal var fátækt á flestum bæjum í dalnum, en það var gott fólk. Vorið 1920 hætti faðir Böðvars búskap í Öxnadal og flutti með sitl fólk vestur yfir Héraðsvötn. Það vor réði hann Böðvar að Litladalskoti í Tungusveit til Guðmundar Eiríkssonar sem þar bjó. Þar á bæ mætti Böðvar góðu atlæti, hann vann fyrir mat sínum. Eftir tveggja ára vist á þessu heimili var ekki lengur þörf fyrir vinnumanninn og þá réði Böðvar sig að Þorsteins- stöðum í Tungusveit. Við þau vistaskipti urðu þáttaskil í lífi vinnumannsins sem alltaf hafði verið fjárhirðir frá því hann var barn í Glerárholti en aldrei eignast kind og var mjög fatafár. Það var vorið 1922 sem Böðvar gekk í hlað á Þorsteinsstöðum. Heimilisfólk- ið þar var: Margrét Bjarnadóttir hálf-áttræð atorkukona sem lengi hafði ráðið húsum á Þorsteinsstöðum og átt þá jörð og bú, en hafði þá fyrir nokkrum árum látið það allt í hendur fósturdóttur sinnar, Kristínar Jónsdóttur. Bóndinn á Þor- steinsstöðum frá 1915 varStefán Jónatansson maður Kristínar, hann var góður búþegn og hélt vel við jörð og búi. Þau hjón áttu einn son barna, Finnboga, sem fæddur var 1919 og því þriggja ára þegar Böðvar réðist vinnumaður til Stefáns bónda. A Þorsteinsstöðum ílentist Böðvar og var þar meðan ævin entist. Fyrst hjá Stefáni og Kristínu þar til þau hjón voru öll, síðan hjá Finnboga syni þeirra, núverandi bónda á Þorsteinsstöðum. Saga Böðvars verður ekki sögð nema sem hluti af sögu Þorsteinsstaða og þess fólks sem þar bjó þau rúmlega sextíu ár sem hann átti þar staðfast heimili. Fljótlega eftir að Böðvar kom að Þorsteinsstöðum eignaðist hann nokkrar kindur og hest, þar var hans kaup og þær skepnur voru, kind fram af kind, hans auðlegð þar frá. Böðvar giftist ekki og var barnlaus. Við Böðvar áttum oft samleið á lífsgöngunni. í Öxnadalnum vorum við báðir 1915-20 og við fylgdumst að vestur yfir Héraðsvötnin og vorum þar nágrannar í nokkur ár, síðan höfðum við samband eins gott og verða má fram á hans síðustu stund. Strax á fyrstu vinnumanns- árum sínum á Þorsteinsstöðum varð Böðvar virkur þátttakandi í öllum heimilisstörfum þar innan húss sem utan og lagði öll störf að jöfnu á gjörva hönd, hann var þrekmikill og létt um vinnu og var svo hóglyndur a? hann skipti sjaldan skapi og þvi var hann hvers manns hugljúfi. Aldrei var um það rætt að Böðvar sliti vistabönd á Þorsteinsstöðum enda átti hann þangað ævilangt erindi. A seinni árum kom Böðvari oft í hug vísa föður okkar í því sambandi: Lífsins kljáður vefur vófst, viljans ráði unninn. Minn var áður ævin hófst, æviþráður spunninn. Erindi Böðvars á þetta eina heimili kom þá fyrst fram þegar veikindi tóku að herja á Þorsteinsstaðahjónin. Stefán bóndi lést 7. júní 1931, og um það leyti fór að bera á langvinnum veikindum hús- freyjunnar, hún hélt þó búskapnum áfram með tilstyrk vinnumannsins þar sem Finn- bogi var þá aðeins 12 ára, og síðar þegar honum óx fiskur um hrygg var hann mjög hneigður fyrir ferðalög, var því oft að heiman, en þó dró hann að það sem , með þurfti. Veikindi Kristínar ágerðust með hverju árinu sem leið og þá var hún oft fárveik og Böðvari mjög erfið í sinni neyð, þar fyrir lögðust honum þungar byrðar á herðar, því heimilisböl var þyngra en tárum taki, það var gleðisnautt líf, hann var hjúkrunarmaður- inn við mjög erfiðar aðstæður þar sem tíðlega varð að leggja nótt með degi. Þannigliðu næstu sautján árin frá andláti Stefáns bónda, þá loksins fékk Kristín hvíldina, hún dó 1. júní 1948. Þá var Böðvar 43 ára, bestu aldursárin voru gengin um garð og hann gamall maður að þrautafullri lífsreynslu, óviss um sinn hag. Þeim Finnboga hafði ætíð samið mjög vel, hann bjó áfram, Böðvar var kyrr. í janúarmánuði 1949 gekk ung kona í hlað á Þorsteinsstöð- um, Fríða Edvarðsdóttir, vinnu- kona í fyrstu, síðar húsfreyja eftir að þau Finnbogi gengu í hjónaband. Gamli bærinn á Þorsteinsstöðum, fámennur og hljóður, byggður þrjátíu árum fyrir aldamót, fékk nýjan hreim í sitt mál — eftir að Fríða settist þar að, og varð áður en langt um leið einn meðal glöðustu og gestrisnustu heimila sem um getur, og það allt vegna einnar vinnukonu sem kom í tólftu viku vetrar og fór ekki aftur. Finnbogi og Fríða eignuðust fjögur börn, Kristín fæddist 1952, síðan hvert af öðru, Berta, Böðvar og Stefanía. Böðvar bróðir minn var sem fyrr önnur hönd Þorsteinsstaðahjóna við bústörfin og eftir að börn komu á pallinn bar hann fyrir þeim umhyggju eins og hann væri afi þeirra, það haföi birt yfir og líka honum féll sú hamingja í skaut að umgangast börn daglega og annast þau, hann unni þeim öllum og sannlega voru þau honum góð og eftirlát. Og síðar þegar þau systkini voru öll gengin í hjónabönd og eignuðust sín börn, fjölgaði vinum Böðvars, hann umgekkst þau börn í ellinni og unni þeim á sama hátt. Þar sem börnin voru, þar var hugur hans allur. Böðvar bróðir minn var að hugarfari barnslega trúhneigður og efaðist ekki um framhaldslíf eftir dauðann. Þegar hann var síðast gestur á mínu heimili töluðum við stundum um hans trúarvissu og þá fann ég að trúin var hans helgidómur og vissulega virti ég hans skoðanir. Á þeim dögum raulaði hann oft fyrir munni sér erindi úr Ijóði föður okkar frá þeim tíma að hann minntist látinna lífsfélaga: —Mildur Drottinn leggur lið, lífs þá togni bandið, ég kem síðar eins og þið, yfir á friðarlandið. Og nú hefir Böðvar stigið á ströndina sína hinum megin og vonandi hafa þá ræst hans heitustu óskir að vera fagnað með glöðum söngvum. Hann var söngelskur frá barnæsku og unni mjög fögrum ljóðum og vel kveðnum vísum og naut þess að rifja upp það sem í minninu bjó. Ævistörf Böðvars hafa hljótt um sig, öll hans miklu vinnuafköst á sextíu ára vinnumannsferli birtast í ljósi þess að hann vann öll sín verk af þeirri trúmennsku og skyldu- rækni sem gera búþegn að bústólpa, bú að landstólpa. Hann hugsaði hvern sinn starfsdag um hag heimilisins sem sinn eiginn. Á undan Böðvari voru tvö af hans alsystkinum gengin fyrir ætt- ernisstapann, fimm eru enn á lífi, öll við háan aldur. Böðvar Emilsson var jarð- settur í Goðdalakirkju í Vesturdal í Skagafirði 17. nóvember 1984, honum fylgdu til grafar auk fjölskyldunnar frá Þorsteinsstöðum, fjölmargir sveit- ungar hans, hér að sunnan stóðum við þrjú systkini hans yfir hans moldum meðal margra nánustu ættmenna sem einnig fórum um langan veg til að fylgja honum til grafar. Séra Olafur Hallgrímsson á Mælifelli jarðsöng og nokkrir menn úr karlakórnum VísFsungu i kirkju og við gröfina, með ágætum. Með þessum fáorðu eftirmæl- um, sendi ég þeim Finnboga og Fríðu á Þorsteinsstöðum, börnum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum hugheilar samúðarkveðjur með innilegum þökkum fyrir þá miklu umhyggju sem þau auðsýndu Böðvari í hans þungbæru veikindum með heimsóknum hvern dag og aðhlynningu sem var honum svo mikils verð. Böðvar bróðir minn og vinur allt frá barnæsku, var gæddur þeim dýrmætu kostum, þrek- mennið með barnshjartað, að hann var hlutvandur í öllu sínu líferni og vildi hverjum manni gott gera, viðmótsþýður var hann í framgangsmáta og þó hlédrægur, og þannig mun hann ganga fram fyrir sinn dómara, þangað heim fylgja honum margir góðir hugir. Tryggvi Emilsson t Þökkum innilega auðsýnda samúð og hlýhug við andlát og jarðarför JÓHANNS GUÐJÓNSSONAR byggingafulltrúa á Sauðárkróki. Svanur Jóhannsson og Aðalbjörg Vagnsdóttir. t Innilegar þakkir til allra sem veittu okkur samúð sína við fráfall JÓHANNS EYMUNDSSONAR frá Saurbæ. Sérstaklega sendum við þakkir til Bílstjórajélags Skagajjarðar. Fyrir hönd aðstandenda. VIKTORÍA SÆRÚN GESTSDÓTTIR Innrítun nemenda Innritun nemenda á vorönn stendur yfir og lýkur 4. janúar. Sérstök athygli er vakin á samningsbundnu iðnnámi í vélvirkjun og rennismíði, húsasmíði, bifvélavirkjun og rafiðnum. Skólameistari

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.